Fjárlög 1995

66. fundur
Fimmtudaginn 22. desember 1994, kl. 01:37:01 (3139)

[01:37]
     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Þessi brtt. tengist því efni sem hér var til umræðu áðan og greitt var síðast atkvæði um, en nálgast málið frá þeirri hlið að flutt er brtt. um að liðurinn Flugvellir, framkvæmdir, þ.e. framkvæmdir í flugmálum samkvæmt flugmálaáætlun, haldist óskertur og hinn markaði tekjustofn skili sér að fullu og öllu til framkvæmda í flugmálum og verði þar af leiðandi um 390 millj. kr. í staðinn fyrir þær 323 millj. sem áform ríkisstjórnarinnar, með tilheyrandi skerðingu, gera ráð fyrir. Skerðingaráformin samkvæmt lögum eiga síðan að koma í ákvæðum bandormsins sem enn hefur ekki verið afgreiddur, hæstv. forseti, þannig að fyrir utan hinar efnislegu forsendur málsins er auðvitað enn síður við hæfi að taka málin til afgreiðslu í þessari röð, sem hér er ætlast til af hæstv. ríkisstjórn. Þannig að ég hvet menn til að greiða þessari tillögu atkvæði og hafna þar með þessari skerðingu sem ætlunin er að innleiða.