Jólakveðjur

66. fundur
Fimmtudaginn 22. desember 1994, kl. 02:21:24 (3160)


     Forseti (Salome Þorkelsdóttir) :
    Nú er komið að lokum síðasta fundar Alþingis fyrir jólahlé. Við okkur blasir að ekki hefur enn tekist að ljúka nokkrum þeirra mikilvægu mála sem afgreiða þarf fyrir áramót. Jólahléið verður því mjög stutt að þessu sinni og þingið verður að koma saman aftur á þriðja í jólum til að afgreiða þau mál.
    Ég nefndi það fyrir síðustu jól og tel það ekki síður eiga við nú að auðvitað verður aldrei hjá því komist að taka duglegan lokasprett við afgreiðslu mikilvægra mála fyrir jól. Eigi að síður tel ég nauðsynlegt að bæta úr og freista þess að jafna álagið meira við þingstörfin. Það má vel ná árangri í þessum efnum ef þingflokkar og ríkisstjórn leggjast á eitt. Ég vil eindregið hvetja þá sem hér verða í fyrirsvari um næstu jól að sameinast um að ráða bót á þessu vandamáli.
    Ég vona að jólahátíðin megi verða okkur sá tími friðar og fögnuðar sem fólginn er í boðskap jólanna. Ég færi þingmönnum öllum, skrifstofustjóra og starfsfólki Alþingis hugheilar óskir um friðsæla jólahátíð og bið fyrir kveðjur til fjölskyldna þeirra. Sömu óskum beini ég til starfsmanna fjölmiðlanna sem hér starfa okkur við hlið og flytja þjóðinni fréttir af framvindu mála. Þeim sem eiga um langan veg að fara óska ég góðrar heimferðar og heimkomu og vænti þess að við hittumst öll heil á Alþingi á þriðja í jólum.