Lánsfjárlög 1995

67. fundur
Þriðjudaginn 27. desember 1994, kl. 15:23:38 (3169)


[15:23]
     Ólafur Ragnar Grímsson :
    Virðulegi forseti. Eins og kunnugt er þá er frv. til lánsfjárlaga ásamt fjárlögum undirstaðan í efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar. Þess vegna væri það æskilegt og meira í samræmi við þingvenjur að hæstv. forsrh. sem jafnframt er ráðherra efnahagsmála væri einnig viðstaddur þessar umræður hér. Það er auðvitað gagnlegt að fá svör hæstv. fjmrh. en margt af þessu tengist efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar þannig að ég vil nú setja fram þá ósk að hæstv. forsrh. komi til þingfundar.
    Í sjálfu sér væri hægt að fjalla í mjög löngu máli um þær ákvarðanir sem hér er verið að taka á lokamánuðum þessa kjörtímabils. Það væri vissulega efniviður að bera þær ákvarðanir saman við þau fyrirheit sem ríkisstjórnin gaf í upphafi ferils síns. Ég ætla ekki að eyða löngu máli í það en þó ætla ég að rifja það upp að núv. hæstv. fjmrh. og núv. hæstv. forsrh. lýstu því yfir ásamt fylgisveinum sínum úr Alþfl. að þeir ætluðu sér að ná hallalausum fjárlögum á tveimur árum. Þeir voru varaðir við úr þessum ræðustól að það væru óraunhæf markmið. Þeir voru reyndar líka varaðir við fyrir síðustu þingkosningar þegar talsmenn þáv. ríkisstjórnar vöktu athygli á því að það væri óvinnandi að ná hallalausum fjárlögum miðað við ástandið í íslenskum efnahagsmálum nema á lengri tíma. Engu að síður kaus hæstv. fjmrh. og hæstv. forsrh. og ríkisstjórnin öll að hafa þessar viðvaranir að engu.
    Nú stöndum við hér við lok kjörtímabilsins og dómurinn er fallinn, hæstv. fjmrh. Dómurinn er sá

að yfirlýsingar og mat hæstv. ríkisstjórnar voru óraunhæf. Þá vaknar sú spurning: Voru þessir forustumenn ríkisstjórnarinnar svo blindir að þeir gerðu sér ekki grein fyrir því að þetta voru óraunhæf markmið --- þeir geta ekki skotið sér á bak við það að þeir hafi ekki verið varaðir við --- eða voru þeir vísvitandi að blekkja? Er ekkert mark takandi á því sem hæstv. fjmrh. og hæstv. forsrh. og ríkisstjórnin öll segja um ríkisfjármál? Og fljótt á litið blasir við að álykta svo að það sé ekkert mark á því takandi vegna þess að það fjárlagafrv. sem afgreitt var fyrir nokkrum dögum síðan gengur þvert á yfirlýsingarnar sem eru í greinargerð þess sama frv. Ef yfirlýsingar hæstv. ríkisstjórnar í efnahagsmálum og ríkisfjármálum standast ekki meðan á afgreiðslu sjálfs frv. stendur þá er auðvitað lítil von til þess að það standist í heilt kjörtímabil. En ég vil spyrja hæstv. fjmrh. að því: Hvernig stendur á því að ríkisstjórnin ákvað nú fyrir jólin að hverfa frá höfuðstefnu fjárlagafrv.? Höfuðstefna fjárlagafrv. eins og fram kemur á bls. 239 og þar á eftir í 1. kafla greinargerðarinnar um efnahagsstefnu og markmið fjárlaga var að nota ætti efnahagsbatann til þess að minnka ríkissjóðshallann. Og því var meira að segja lýst yfir að það ætti að ná því markmiði að vera með hallalaus fjárlög á næstu þremur árum, 1995, 1996 og 1997. Þessi stefna sem var ítrekuð hvað eftir annað í greinargerð fjárlagafrv., að nota efnahagsbatann til að minnka ríkissjóðshallann, er skynsamleg. Hún er í samræmi við viðurkennd sjónarmið í hagfræði og hún er líka í samræmi við það sem lýst hefur verið yfir á öllum undanförnum árum að þótt réttlætanlegt væri að reka ríkissjóð með einhverjum halla á samdráttartímum, þá væri höfuðskilyrðið að um leið og farið væri að rofa til, þá yrði batinn notaður til að minnka hallann.
    En hvað gerir hæstv. ríkisstjórn? Hún notar batann til að auka ríkissjóðsútgjöldin og til að auka hallann, þvert á yfirlýsingar fjárlagafrv., þvert á viðurkennd sjónarmið um skynsamlega hagstjórn og þvert á þær yfirlýsingarnar sem flokkarnir í landinu hafa verið sammála um á undanförnum árum. Þessi ríkisstjórn er þess vegna að marka þá braut að það eigi bæði að safna skuldum á samdráttartímum og vaxtartímum og það sjá auðvitað allir að slík stefna leiðir eingöngu til þess að á tiltölulega skömmum tíma verða orðnar slíkar þrengingar í íslenskum ríkisfjármálum að ófremdarástand mun skapast. Ég óska þess vegna eftir því að hæstv. fjmrh. geri skýra grein fyrir því og reyndar væri æskilegt að hæstv. forsrh. gerði það einnig hvers vegna vikið er frá þessari stefnu, hver rökin eru fyrir því. Það er ekki hægt að skjóta sér á bak við það að nú sé verið að greiða fyrir kjarasamningum vegna þess að það er alger óvissa sem ríkir varðandi kjarasamninga á nýju ári og það er lítið sem ekkert í fjárlagafrv. eða lánsfjárlögunum sem greiðir fyrir því.
    Það væri auðvitað líka ástæða til þess að spyrja Alþfl. ef einhver marktækur fulltrúi efnahagsstefnu Alþfl. á undanförnum árum væri hér í salnum: Hvernig stendur á því að Alþfl. sem gerði það að skilyrði fyrir stjórnarmyndun 1988 að þröngar skorður væru settar gagnvart hallarekstri ríkisins og skilyrðið var svo afdráttarlaust að það var tölusett í stjórnarflokkunum. Það er núna svo gersamlega hlaupið frá öllu því sem talist getur ábyrg efnahagsstefna að það hefur bókstaflega enginn talsmaður Alþfl. treyst sér til þess að taka þátt í þessum umræðum, hvorki um lánsfjárlögin né fjárlagafrv. Og þótt formaður fjárln. hafi verið látinn fara hér með hina hefðbundnu þulu þá tel ég það ekki með heldur er að vísa til þeirrar forustu Alþfl. sem annars vegar er í höndum hæstv. utanrrh. og hins vegar í höndum hæstv. viðskrh.
    Auðvitað geta menn haft þá afstöðu sem manni virðist núv. ríkisstjórn hafa að það skipti svo sem engu máli hvað sagt er og gert í ríkisfjármálum, það skipti engu máli. Það sé bara aðalatriðið að reyna að klóra sig fram úr þessu frá ári til árs, fá fjárlögin afgreidd og lánsfjárlögin og láta svo bara reka á reiðanum. Að reka hér í ríkisfjármálum nákvæmlega sömu óábyrgu stefnuna og rekin var í fjármálum Reykjavíkurborgar á sl. 6--8 árum þar sem jafnvel góðærin voru notuð til þess að safna skuldum hjá Reykjavíkurborg og nú á að halda inn á sömu brautina varðandi fjármál íslenska ríkisins.
    Það vill svo til að þær stefnuyfirlýsingar, sem koma fram í greinargerð fjárlagafrv. sem lagt var fram í haust, eru alveg réttar. Það er enginn grundvallarágreiningur um þá yfirlýsingu. En það sem þarf að koma hér skýrt fram er hvers vegna ríkisstjórnin hefur ekki haft burði til að standa við það.
    Í öðru lagi er auðvitað alveg nauðsynlegt að hæstv. fjmrh., hæstv. forsrh. og hæstv. viðskrh. geri hér við umræðu um lánsfjárlögin grein fyrir lántökustefnu, skuldasöfnun og vaxtastefnu ríkisstjórnarinnar. Við áttum á þinginu í haust ítarlegar umræður þegar þessi frumvörp komu til umræðu um horfurnar sem væru í nóvember, desember og janúarmánuði á lánsfjármarkaðnum og í vaxtamálunum. Þá vöruðum við einnig hæstv. ríkisstjórn við að yfirlýsingar hennar og markmið mundu ekki fá staðist. Það hefur líka komið á daginn. Hér hefur verið rakið mjög rækilega í framsögu minni hluta efh.- og viðskn. að svo illa er komið fyrir ríkissjóði á hinum almenna fjármagnsmarkaði að aftur og aftur á undanförnum mánuðum treystir hann sér ekki til að standa í útboðum. Og það er reyndar líka mjög fróðlegt að sjá þá vaxtahækkun sem hefur verið að koma fram á ríkisvíxlunum að undanförnu. Hefur hæstv. fjmrh. gert sér grein fyrir því að frá apríllokum til nóvember hefur orðið 15% raunvaxtahækkun á þriggja mánaða ríkisvíxlum? 15% raunvaxtahækkun á um það bil hálfu ári á þriggja mánaða ríkisvíxlum. Og hefur hæstv. fjmrh. gert sér grein fyrir því að á sex mánaða ríkisvíxlum hefur á sama tímabili orðið 15% raunvaxtahækkun? Og hefur hæstv. fjmrh. gert sér grein fyrir því að á 12 mánaða ríkisvíxlum frá apríllokum til nóvember hefur orðið 25% raunvaxtahækkun? Það er satt að segja leitt að hæstv. forsrh., sem hefur verið boðberi ekki bara stöðugra vaxta heldur vaxtalækkunar á þessu sama tímabili, skuli ekki treysta sér til þess að vera við þessa umræðu vegna þess að í stefnuræðu ríkisstjórnarinnar, sem flutt var á fyrsta umræðudegi þingsins þegar hæstv.

forsrh. Davíð Oddsson lýsti stefnu ríkisstjórnarinnar, varð niðurstaða hans, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Allir þessir þættir benda til þess að vextir muni fara lækkandi á næstu missirum.``
    Síðan þessi orð voru mælt í byrjun október hafa vextir jafnt og þétt farið hækkandi. Og það er sérstaklega merkilegt vegna þess að þessi yfirlýsing um vaxtalækkun var eini skýri boðskapurinn í stefnuræðu hæstv. forsrh. um þá aðferðafræði sem ríkisstjórnin ætlaði sér að beita til þess að ná atvinnulífinu í gang á nýjan leik og til þess að auka þjóðartekjurnar og skapa grundvöll fyrir sátt um skiptingu lífskjaranna í næstu kjarasamningum. Þegar hvort tveggja er hrunið, vaxtalækkunarþróunin, og sú stefna að nota auknar þjóðartekjur til þess að minnka ríkissjóðshallann þá er auðvitað alveg ljóst að núverandi hæstv. ríkisstjórn er á síðustu mánuðum á valdaferli sínum að brjóta öll þau boðorð sem hún sjálf hefur sett sér sem mælikvarða góðrar efnahagsstjórnar. Hún er ekki aðeins að ganga gegn þeim yfirlýsingum sem við höfum flutt hér í stjórnarandstöðunni. Hún er að brjóta höfuðatriðið í stefnuræðu hæstv. forsrh. sem hann flutti í þingsalnum að kvöldi 4. okt. sl. og hún er að brjóta þá meginlínu sem hæstv. fjmrh. og ríkisstjórnin öll leggur í efnahagsstefnukafla fjárlaga fyrir næsta ár.
    Hæstv. fjmrh. stendur þess vegna í þeim sporum að þótt reyndir menn vöruðu hann við, þá settist hann í sætið með þá galvösku yfirlýsingu að hann ætlaði að ná hallanum algerlega út úr heiminum á tveimur árum. Og hann var enn þá það kokhraustur í haust að hann boðar að nú muni hallanum eytt á þeim þremur árum sem fara í kjölfarið og það verði gert með því að nota batann sem verði og auknar þjóðartekjur til að minnka hallann. En hann krefst þess hins vegar hér á síðustu dögum fyrir jól að þingið afgreiði fjárlagafrv. sem brýtur þessa stefnu. Og hann er nú að krefjast þess að þingið afgreiði á þessum sólarhring lánsfjárlagafrv. sem bæði brýtur þessa stefnu fjárlagafrv. og þá vaxtastefnu sem hæstv. forsrh. hefur gert að höfuðflaggi ríkisstjórnarinnar.
    En hæstv. fjmrh. sagði meira í greinargerð fjárlagafrv. Það var ekki aðeins að hæstv. fjmrh. lýsti því yfir að það ætti að nota efnahagsbatann til þess að minnka hallann á ríkissjóði, heldur sagði hann orðrétt að sú stefna væri ,,forsenda fyrir lægri vöxtum, auknum hagvexti, eflingu atvinnulífsins og bættum lífskjörum.`` Tilvitnun lýkur á blaðsíðu 239. Þessi yfirlýsing er líka alveg rétt. Vandinn er bara sá, hæstv. fjmrh., að þessari stefnu hefur ekki verið framfylgt í afgreiðslu fjárlagafrv. og heldur ekki við afgreiðslu þess frv. sem við erum hér að fjalla um. Ef þessi orð voru rétt í greinargerð fjárlagafrv., sem ég tel þau vera, blasir þá ekki við, hæstv. fjmrh., samkvæmt eigin orðum ráðuneytisins og ríkisstjórnarinnar að þar með er ríkisstjórnin búin að brjóta gegn möguleikunum á lægri vöxtum, auknum hagvexti, eflingu atvinnulífsins og bættum lífskjörum?
    Í greinargerð fjárlagafrv. er hnykkt á þessu enn frekar með því að segja, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Eina örugga leiðin til þess að örva hagvöxt og efla atvinnulífið felst í stöðugleika í verðlagsmálum og lægri vöxtum. Forsendan fyrir því er að áfram verði dregið úr halla ríkissjóðs með ströngu aðhaldi að ríkisútgjöldum.``
    Var það gert við afgreiðslu fjárlagafrv.? Nei, hæstv. fjmrh. Það var ekki gert. Þvert á móti hefur bæði á þessu ári sem nú er að ljúka og næsta ári tekjuauki ríkissjóðs verið notaður til þess að auka útgjöldin, hæstv. fjmrh. Og séu kenningar fjárlagafrv. réttar, sem þær eru í greinargerðinni, þá liggur alveg ljóst fyrir að hér er verið að afgreiða fjárlagafrv. og lánsfjárlagafrv. sem munu draga úr eflingu atvinnulífsins, sem munu koma í veg fyrir frekari vaxtalækkun og sem munu gera torvelt að ná samkomulagi um lífskjör í landinu.
    En það er fleira, satt að segja margt fleira í greinargerð fjárlagafrv. sem felur í sér að hnykkt er á þessari stefnu. Þar segir líka, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Aðhaldssöm stefna í ríkisfjármálum og markviss áætlun um hvernig stjórnvöld hyggjast draga úr halla ríkissjóðs á næstu árum er veigamesta forsendan fyrir því að þessum markmiðum megi ná.``
    Ríkisstjórnin hafði ekki þrótt til þess að hrinda í framkvæmd þessari veigamestu forsendu að eigin dómi. Öll fína áætlunin sem fjmrh. var að kynna í fjölmiðlum í þingbyrjun og sem setti svip sinn á greinargerð frv. er fokin út í veður og vind. Ístöðuleysið var slíkt, hæstv. fjmrh., ábyrgðarleysið var slíkt í aðdraganda kosninga að hæstv. fjmrh. og ríkisstjórnin hlaupa frá öllum grundvallarmarkmiðum fjárlagafrv. eins og þau eru sett fram í greinargerðinni. Það er ekkert af þeim meginmarkmiðum sem sett voru fram í greinargerðinni sem í dag eru í samræmi við þann veruleika sem afgreiddur var á Alþingi fyrir jólin og á að staðfesta enn frekar á þessum sólarhring að kröfu hæstv. fjmrh. með því að samþykkja þetta frv. til lánsfjárlaga. Síðan segir hæstv. fjmrh. í greinargerð frv., með leyfi forseta:
    ,,Með þessu fjárlagafrv. er stigið mikilvægt skref í átt til jafnvægis í ríkisfjármálum. Útgjöldum er haldið í skefjum og sá tekjuauki sem efnahagsbatinn skilar gengur til þess að minnka halla ríkissjóðs á næsta ári.`` --- ,, . . .  gengur til þess að minnka halla ríkissjóðs á næsta ári.`` Við vitum báðir, hæstv. fjmrh., að sú varð ekki raunin. Efnahagsbatinn var ekki notaður hér fyrir jólin til þess að minnka halla ríkissjóðs á næsta ári. Þvert á móti. Hann var aukinn, hæstv. fjmrh. Þrátt fyrir það að hæstv. fjmrh. hafi fengið hér í nýrri þjóðhagsspá fyrir afgreiðslu fjárlaga meiri tekjuauka í veganesti til að loka fjárlagafrv. heldur en nokkur fjmrh. á sl. 6--8 árum. Og þess vegna gekk núv. hæstv. fjmrh. undir dálítið merkilegt próf hér fyrir jólin og kolféll á því. Prófi þar sem hann sjálfur hafði skrifað verkefnin í greinargerð fjárlagafrv. og Þjóðhagsstofnun reiddi svo fram textann með því að setja í hendurnar á honum þjóðhagsáætlun sem gaf

honum bata. Hvað var gert við hann? Honum var eytt og gott betur, hér á síðustu dögum fyrir jól.
    Það væri mjög fróðlegt að fá hæstv. fjmrh. til þess að útskýra þá kenningu hvernig eigi að greiða niður skuldir íslenska ríkisins ef efnahagsbatinn er notaður til þess að auka fjárlagahallann frá því sem hann er í frv. Hvernig á þjóð sem rekur ríkissjóð með halla bæði á samdráttarskeiði og á vaxtarskeiði að ráða við þennan vanda, hæstv. fjmrh.?
    Þegar fyrrv. fjmrh. flutti sína síðustu fjárlagaræðu fyrir síðustu kosningar þá var í þeirri ræðu lýst að vandi ríkissjóðs væri slíkur að það yrði ekki hægt að taka á honum nema með markvissri áætlun til 4--6 ára og því var lýst í ítarlegu máli í umræðum á þingi og annars staðar hverjir ættu að vera höfuðþættirnir í slíkri áætlun. Núv. ríkisstjórn kaus að ýta öllum þeim boðskap til hliðar, taka upp með stærilæti aðra línu sem birtist okkur nú hér í algerri uppgjöf.
    Ég tel það vera miður, virðulegi forseti, að hæstv. forsrh. skuli ekki treysta sér til þess að vera við þessar umræður. Það hefur venjulega verið siður hér á þingi að hæstv. forsrh. væri viðstaddur 2. umr. um lánsfjárlögin. Það er auðvitað mjög illt að þurfa að ræða hér við hæstv. forsrh. um hans eigin stefnuyfirlýsingar og veruleikann án þess að forsrh. láti svo lítið að mæta til þings við 2. umr. um lánsfjárlögin. Hér hefur fjöldi þingmanna mætt til þings á þriðja degi jóla til þess að sinna því verki að afgreiða þetta lánsfjárlagafrv. fyrir ríkisstjórnina á þessum sólarhring og það er nú lágmarkskurteisi, að maður tali nú ekki um efnisleg nauðsyn, að hæstv. forsrh. treysti sér til þess að vera í þeim hópi. Ef hæstv. forsrh. treystir sér ekki til þess að taka þátt í þessum umræðum þá er auðvitað mikil spurning hvort við erum bundin af því samkomulagi sem við gerðum fyrir hátíðar um að ljúka þessum umræðum á þessum sólarhring, því að það samkomulag var gert í trausti þess að hér gæti farið fram eðlileg venjubundin umræða við oddvita ríkisstjórnarinnar um frv. til lánsfjárlaga. Þau eru ekki mörg frumvörpin á þessu þingi sem hæstv. forsrh. þarf að vera fulltrúi fyrir, en lánsfjárlagafrv. er auðvitað eitt af þeim.
    Núv. hæstv. forsrh. hefur, ásamt hæstv. fjmrh., að undanförnu hælt sér mjög af því að þjóðin sé að greiða niður erlendar skuldir sínar með jákvæðum viðskiptajöfnuði við útlönd. Það er vissulega rétt að jákvæður viðskiptajöfnuður er ánægjulegur vitnisburður um það að krafturinn, sérstaklega í íslenskum sjávarútvegi, er þrátt fyrir allt slíkur að menn hafa sótt sér nýja möguleika. En hver er þá skýringin á því, hæstv. fjmrh., og væri auðvitað æskilegt að hæstv. forsrh. svaraði því einnig hér í þingsalnum, ef hann þyrði að vera hérna, að á sama tíma fer íslenska ríkið inn á þær brautir að fjármagna sig í vaxandi mæli með erlendu lánsfé? Það kemur mjög rækilega fram hér í þeim gögnum sem hafa verið lögð fram að erlendar lántökur það sem af er þessu ári hafa verið 20,5 milljarðar og afborganir erlendra lána 9,5. Þannig að mismunurinn, nettóaukning á erlendum lántökum ríkissjóðs, er 11 milljarðar á þessu ári. Nú geta menn haldið því fram að fjármagnsmarkaðurinn í veröldinni sé orðin ein heild og þess vegna skipti það kannski öðru máli í dag heldur en áður hvar lánin eru tekin. En það breytir því ekki, hæstv. fjmrh., að þegar þessi lán verða borguð til baka þá fara þau til þess að efla hagvöxt og kraft í löndunum sem veittu lánin í stað þess, að væri um innlenda lántöku að ræða þá færu afborganirnar til þess að búa til nýjan kraft í íslenskt atvinnulíf, íslensk lífskjör. Og þess vegna er það satt að segja ótrúleg blinda að halda því fram hér, eins og hæstv. fjmrh. hefur leyft sér að gera, að það skipti engu máli hvort ríkissjóður er fjármagnaður innan lands eða með erlendum lántökum. Það var markvisst unnið að því á síðasta kjörtímabili og við stóðum í þeirri trú að núv. ríkisstjórn ætlaði sér a.m.k. að reyna að fylgja þeirri stefnu á þessu kjörtímabili, að ríkissjóður fjármagnaði sig innan lands. En nú er líka búið að henda því skynsamlega markmiði fyrir róða.
    Fjmrn. hefur að vísu verið dálítið feimið við að gera upp tölurnar og í þessu lánsfjárlagafrv. sem hér er til umræðu er fylgt þeim nýja sið að marka ekki skýrt hvað á að sækja á innlendan markað og hvað á að sækja á erlendan markað. Það tókst hins vegar að toga út úr fjmrn. núna fyrir jólin að það hefur meira verið sótt nettó á erlendan markað af hálfu ríkisins á þessu ári heldur en innlendan markað, hæstv. fjmrh. Það eru 5,5 milljarðar í spariskírteinum ríkissjóðs nettó og 3,4 í skammtímabréfum ríkissjóðs til eins eða tveggja ára sem hafa verið sóttir á innlendan markað eða u.þ.b. 9 milljarðar á móti þeim 11 milljörðum sem eru sóttir á erlendan markað. Þar með blasir það við að ríkisstjórn Davíðs Oddssonar er farin að fjármagna ríkissjóð að stærri hluta með erlendum lántökum heldur en á hinum innlenda markaði. Hver er skýringin á því, hæstv. fjmrh.? Hver er skýringin á því? Auðvitað skiptir það máli. Það skiptir máli fyrir íslenska hagkerfið bæði í nútíð og framtíð hvort um erlendar eða innlendar lántökur er að ræða.
    Er skýringin kannski sú að ríkisstjórnin hefur ekki treyst sér til þess að ná því fjármagni sem hún þarf til að reka ríkissjóð á hinum innlenda peningamarkaði á því vaxtarstigi sem hún hefur haldið sig við vegna þess að kaupendurnir á íslenska peningamarkaðnum hafa ekki viljað trúa þeim markaðsgrundvelli sem ríkisstjórnin hefur lagt á þau verðbréf? Þar með blasir auðvitað við að ríkisstjórnin sjálf hefur sýnt í verki að peningaleg stefna hennar og vaxtastefna ganga ekki upp í íslenska hagkerfinu. Það eru ekki til nægilegir kaupendur innan íslenska hagkerfisins sem eru reiðubúnir að fjármagna ríkissjóð á þeim kjörum sem ríkisstjórnin býður. Þess vegna hefur hæstv. fjmrh., Friðrik Sophusson, haft forgöngu um það að fara á árinu 1994 í auknum mæli út á erlenda markaði. Og þegar það bætist svo við að einkaaðilar á markaðnum hafa á þessu sama tímabili flutt, ef ég man rétt, um 7 milljarða út úr íslenska hagkerfinu og til erlendra peningastofnana á grundvelli þeirra heimilda sem opnaðar hafa verið á þessu ári, þá blasir auðvitað við, hæstv. fjmrh., að það eru risavaxnar upphæðir sem hafa streymt út úr íslenska hagkerfinu á þessu ári, annars vegar fyrir tilverknað ríkisins og hins vegar fyrir tilverknað einkaaðila. Það er meiri upphæð en sem

nemur virkjunarkostnaði þeirrar virkjunar sem átti að standa undir nýju álveri á Keilisnesi, sem hefur á þessu eina ári streymt út úr íslenska hagkerfinu inn í erlendar peningastofnanir, annars vegar undir stjórn hæstv. fjmrh., Friðriks Sophussonar, og hins vegar með sjálfstæðum aðgerðum einkaaðila á peningamarkaði. Þá sjá menn kannski hvílík blóðtaka þetta fjárstreymi úr landinu á yfirstandandi ári hefur verið þegar menn bera það saman við hinar risavöxnu stærðir sem virkjun vegna nýs álvers á Keilisnesi átti að vera.
    Hvað halda menn að hefði orðið um þann kraft í íslenska hagkerfinu sem hefði fylgt því að þessar stærðir hefðu allar verið hér innan lands? Og þeir sem þekkja til á alþjóðlegum peningamarkaði, eins og hv. þm. Vilhjálmur Egilsson, vita það auðvitað að þegar er verið að flytja peninga fyrst og fremst út úr hagkerfi en ekki inn í það felst í því mikil vantraustsyfirlýsing á viðkomandi hagkerfi. Þá talar markaðurinn skýru máli. Þá fellir hann sinn dóm. Það er einmitt þetta vantraust markaðarins sjálfs á efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar sem hér birtist með skýrum hætti í þeim niðurstöðum sem árið er að skila --- og er nú gott að hæstv. forsrh. er loksins mættur til þessarar umræðu til þess að taka þátt í viðræðum við þingið um þann viðskilnað sem óðum er að verða skýr eftir fjögurra ára valdasetu núv. ríkisstjórnar.
    Ég vil í aðeins örfáum orðum rifja það upp fyrir hæstv. forsrh. að fyrr í dag hefur verið óskað skýringa á því hvers vegna þau höfuðmarkmið sem sett voru í fjárlagafrv. um að nota batann til þess að minnka ríkissjóðshallann hafa ekki verið haldin. Í öðru lagi hvers vegna hefur ríkissjóður verið að auka skuldir sínar erlendis á sama tíma og þjóðin hefur verið að minnka þær. Í þriðja lagi hvernig stendur á því að yfirlýsing hæstv. forsrh., sem hér var flutt að kvöldi 4. okt. sem höfuðeinkenni á efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar, um vaxtalækkunina sem fram undan væri, hefur ekki staðist. Þvert á móti hefur bæði á ríkisvíxlum, ríkisbréfum, húsbréfum og í bankakerfi hver vaxtahækkunin rekið aðra á undanförnum mánuðum, jafnvel svo að á rúmu hálfu ári, frá því í apríllok og fram í desemberbyrjun, hefur 15--25% hækkun orðið á raunvöxtum ríkisvíxla svo að eitt dæmi sé nefnt. Til viðbótar svo því, eins og fram kemur í nál. minni hluta efh.- og viðskn., að ríkissjóður hefur mánuðum saman ekki treyst sér til þess að taka þeim tilboðum sem boðin voru af hálfu markaðarins í þau bréf sem ríkissjóður var að bjóða.
    Hrein skuldaaukning hins opinbera hefur á valdatíma þessarar ríkisstjórnar vaxið úr rétt rúmlega 15% í 35% af landsframleiðslu. Og það er dálítið merkilegt vegna alls þess sem núv. hæstv. fjmrh. og hæstv. forsrh. hafa sagt um árið 1991, hið vonda ár 1991, sem átti að sýna hinn hrikalega viðskilnað síðustu ríkisstjórnar, hin vondu verk og er þá látið liggja á milli hluta að núv. ríkisstjórn tók við í apríllok, að hreinar skuldir hins opinbera sem hlutfall af landsframleiðslu jukust ekki á árinu 1991. Satt að segja ríkir ótrúlegur stöðugleiki á árunum 1989, 1990, 1991 varðandi hreinar skuldir hins opinbera, sérstaklega árin 1990 og 1991 þar sem engin breyting til aukningar verður á hreinum skuldum hins opinbera. En um leið og efnahagsstefna ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar fer að segja til sín á árunum 1992, 1993, 1994 og 1995, öllum þessum fjórum árum, þá er samfelld aukning á hreinum skuldum hins opinbera. Þannig að aukningin hefur verið á þessum fjórum árum frá því að vera 15% af landsframleiðslu upp í 35% og hefur farið jafnt og þétt hækkandi á hverju einasta ári. Hvaða lærdóma dregur hæstv. fjmrh. og hæstv. forsrh. af efnahagsstjórn sem tekur svo risavaxin stökk á hverju einasta ári í að auka skuldir hins opinbera? Hreinar skuldir hins opinbera þegar búið er að draga frá og leggja saman þannig að skýr heildarmynd kemur í ljós.
    Þessir sömu hæstv. ráðherrar, Davíð Oddsson og Friðrik Sophusson, hafa haft stór orð um árið 1991 og þarf ekki að eyða löngu máli í þingsalnum til að rifja það upp. En taflan sem birt er um hreinar skuldir hins opinbera á þessum tíma sýnir einfaldlega að á sama tíma og það tókst að halda skuldum hins opinbera stöðugum, án nokkurra breytinga, frá árinu 1990 til 1991 þá hefur hvert einasta ár 1992, 1993, 1994 og 1995 leitt til risavaxinnar skuldaaukningar hjá hinu opinbera. Hér er því að hlaðast upp efnahagsstjórn sem í lok kjörtímabilsins birtist okkur í yfir 40 milljarða kr. halla ríkissjóðs, hallatölum sem fara vaxandi þrátt fyrir bata í þjóðartekjum þannig að batinn er ekki notaður til að minnka skuldirnar heldur eru þær þvert á móti auknar. Efnahagsstjórn sem birtist okkur í vaxandi erlendum lántökum hins opinbera, þrátt fyrir jákvæða stöðu í viðskiptajöfnuði Íslands og erlendra landa og sem birtist okkur einnig í því að á undanförnum mánuðum hafa vextir jafnt og þétt farið hækkandi og ríkisstjórninni sjálfri hefur ekki einu sinni tekist að selja þá verðpappíra sem hún hefur verið að reyna að bjóða.
    Hvar eru mörkin, hæstv. forsrh.? Hættumörkin sem hæstv. forsrh. telur varðandi skuldir hins opinbera? Ef það var talið vitnisburður um óviðunandi viðskilnað á árinu 1991 að skuldir hins opinbera væru 15% af landsframleiðslu hvað segir þá hæstv. forsrh. um sín eigin verk þegar skuldirnar eru orðnar 35% af hreinni landsframleiðslu á þeim fjórum árum sem ríkisstjórnin hefur haft til þess að setja svip sinn á efnahagsstjórnina?
    Nei, hæstv. ráðherrar. Það er óhjákvæmilegt að það komi ákveðnar skýringar á því hvers vegna nánast allar þær efnislegu yfirlýsingar sem gefnar hafa verið af hæstv. ríkisstjórn um ríkisfjármál, um skuldastöðu og um vaxtamál, eru þverbrotnar bæði í afgreiðslu fjárlagafrv. og í því lánsfjárlagafrv. sem hér er til umræðu.
    Það er líka mjög athyglisvert að það kemur í ljós í þeim gögnum sem loksins birtast í þinginu að þvert á allar yfirlýsingar hæstv. fjmrh. og hæstv. forsrh. þá hefur ríkisstjórninni mistekist að selja skammtímapappíra með þeim hætti að fjáröflunin innan lands sé styrkt. Þvert á móti eru breytingar á árinu hvað ríkisvíxla snertir mínus 3 milljarðar. Hvað segir þetta okkur? Það segir okkur að í stað þess að sækja fjármögnunina með skammtímaverðbréfum á innlendum markaði, þrátt fyrir 15% raunvaxtahækkun, þrátt fyrir 25% raunvaxtahækkun á 12 mánaða bréfum þá hefur ríkisstjórnin farið í erlendar lántökur. Hún hefur ekki einu sinni treyst sér til að viðhalda óbreyttu ástandi varðandi skammtímafjáröflun á íslenska peningamarkaðinum heldur hleypur í erlendar lántökur vegna þess einfaldlega að íslenski markaðurinn er ekki reiðubúinn að leggja fjármuni í ríkisvíxlakaupin. 25% raunvaxtahækkun á sex mánuðum á tólf mánaða ríkisvíxlunum dugir ríkisstjórninni einfaldlega ekki. Ég held að hæstv. fjmrh. og hæstv. forsrh. ættu að hugleiða alvarlega hvar ríkisstjórnin er stödd með þetta allt saman.
    Seðlabanki Íslands hefur látið Alþingi í té mjög athyglisverða töflu um þróun skuldastöðu ríkisins frá árinu 1991 til ársins 1995. Þar kemur fram að skuldir ríkisins sem brúttóstærð af landsframleiðslu hafa aukist úr 32% í tæp 50% á þessu tímabili. Að nettóskuldir ríkisins hafa aukist úr 15% í 30% --- hafa tvöfaldast á þessu tímabili. Skuldir hins opinbera nettó, hæstv. forsrh., eru orðnar 55% af vergri landsframleiðslu.
    Ég sagði það, hæstv. forsrh., áður en hæstv. forsrh. kom í þingsalinn að meðferð á ríkisfjármálunum á þessu kjörtímabili væri farin að minna óþyrmilega á skuldasöfnunina hjá Reykjavíkurborg á undanförnum árum þar sem þeir sem við taka þurfa að hafa það sem sitt höfuðverkefni að glíma við þá miklu skuldabagga sem ríkisstjórnin skilur eftir sig. Það er líka mjög athyglisvert, hæstv. forsrh., að sjá það á töflu sem Seðlabanki Íslands hefur líka látið Alþingi í té að í lok ársins 1991, þessa hræðilega árs sem hæstv. forsrh. er búinn að nota allt kjörtímabilið sem viðmiðun alls hins versta sem hægt er að finna í íslenskri efnahagsstjórn, voru kröfur Seðlabankans á ríkið í árslok 8,7 milljarðar. En hverjar eru kröfur Seðlabankans á ríkið nú á þessu hausti, hæstv. forsrh.? Þær eru tæpir 13 milljarðar, eða 12,6 milljarðar. Tæpir 13 milljarðar sem Seðlabankinn á núna kröfur á ríkissjóð. Hvað merkir það? Jú, það merkir það að þrátt fyrir yfirlýsingarnar um það að hætta að fjármagna óráðsíuna í ríkisrekstrinum með skammtímalánum frá Seðlabankanum þá hefur Seðlabankinn engu að síður verið notaður af þessari ríkisstjórn meira en nokkru sinni fyrr til þess að láta fljóta fram að kjördegi. Það er greinilega orðið mottóið í efnahagsstjórn þessarar sundurtættu ríkisstjórnar að láta fljóta fram að kjördegi.
    En Seðlabankinn segir meira, hæstv. forsrh. Seðlabankinn birtir í þessari töflu sem hann hefur látið Alþingi í té að nettókröfur Seðlabankans með ríkisábyrgð á ríkissjóð hafa vaxið frá því að vera 8,7 milljarðar í árslok 1991 í rúmlega 16 milljarða við lok þessa árs. Rúmlega 16 milljarða. Með öðrum orðum hafa nærri því tvöfaldast, hæstv. forsrh. og hæstv. fjmrh., þær nettókröfur sem Seðlabankinn á með ríkisábyrgð á ríkissjóð. Væri ekki rétt fyrir hæstv. ráðherra að rifja upp eitthvað af stóru orðunum sem þeir hafa haft í þingsalnum í nærri fjögur ár um árið 1991 og bera þau stóru orð saman við þessar tölur sem Seðlabankinn hefur núna afhent Alþingi? Hver er vörn hæstv. ríkisstjórnar þegar hún horfir framan í þessar tölur? Hver er ástæðan fyrir því að ríkisstjórn sem hefur lyft árinu 1991 sem mælikvarða alls hins versta sem hægt er að komast í stendur núna frammi fyrir því að hún hefur tvöfaldað skuldakröfur Seðlabankans á ríkissjóð miðað við árslok 1991? Satt að segja ber að fagna því að þessar tölur liggja frammi í þinginu.
    Ég held að þetta sé í fyrsta sinn á undanförnum missirum sem jafngreinargott yfirlit birtist í þinginu um hvað raunverulega hefur verið að gerast. Yfirlit sem tætir í sundur allan þann málflutning sem hæstv. forsrh. og hæstv. fjmrh. hafa haft í efnahagsmálum á undanförnum missirum og gerir stefnuræðu hæstv. fjmrh. 4. okt. að hreinu grínplaggi þar sem ekki stendur eitt einasta meginatriði af því sem hæstv. forsrh. boðaði að efnahagsstjórnin á næstu mánuðum mundi leiða í ljós.
    Ég sagði það, hæstv. forsrh., að auðvitað væri ástæða til þess að ræða hér eitthvað við forustu Alþfl., hæstv. utanrrh. og hæstv. viðskrh. en ég ætla ekki að gera neinar kröfur til þess að þeir séu hér. Þeir eru í raun og veru búnir að dæma sig alveg úr leik í þessum umræðum, ef ekki úr íslenskri stjórnmálaumræðu almennt. Það væri satt að segja líka ástæða til þess að fá að ræða við hæstv. fyrrv. félmrh., Jóhönnu Sigurðardóttur alþingismann, sem þangað til fyrir nokkrum mánuðum bar fulla ábyrgð á öllu því sem hér hefur verið að birtast vegna þess að þessar miklu skuldatölur sem Seðlabankinn hefur reitt fram í sínum töflum hafa ekki komið til bara á síðustu mánuðum. Þær voru komnar til áður en hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir fór úr ríkisstjórn. Það væri þess vegna líka æskilegt að hún einnig gerði þjóðinni og þinginu grein fyrir afstöðu sinni til þessara mála.
    En Alþfl. er greinilega orðinn svo staddur í þessu öllu saman að það tekur því ekki að vera að taka hann upp í þessum yfirlýsingum. En ég rifjaði það upp, hæstv. forsrh, að svo brattur var Alþfl. hér fyrir nokkrum mánuðum síðan að hann setti það sem höfuðskilyrði fyrir stjórnarmyndun að ríkisfjármálin væru negld niður upp á prósent nákvæmlega í stjórnarsáttmálanum til að Alþfl., hinn ábyrgi flokkur, gæti treyst sér til þess að taka þátt í ríkisstjórn. ( Forsrh.: Þú vildir gera hann að forsrh.) Já, hæstv. forsrh., það er út af fyrir sig alveg rétt að það hvarflaði að mér um tíma að gera formann Alþfl. að forsrh. en það eiga allir rétt á því að skjátlast einhvern tímann. (Gripið fram í.) En ég hef ekki kosið að kalla Alþfl. til umræðunnar þó það sé auðvitað mjög merkilegt að hér sé lánsfjárlagafrv. til umræðu, heill dagur verið markaður til þess, sérstaklega ákveðinn fyrir jól þannig að allur þingheimur vissi. En hvorki formaður Alþfl. né hæstv. viðskrh. láta sjá sig í þingsalnum. Það verður þó að segja hæstv. forsrh. til hróss að þegar eftir honum var kallað kom hann í þingsalinn. En auðvitað er það þannig að hæstv. ríkisstjórn verður að svara þeim spurningum sem hér er til hennar beint og gera ítarlegri grein fyrir þeirri efnahagsstefnu, þeirri vaxtastefnu, þeirri skuldasöfnun, þeim erlendu lántökum og öðrum þeim höfuðþáttum sem blasa við við lok þessa

kjörtímabils. Eða hvernig hyggjast þessir flokkar taka á málum í framtíðinni? Er það kannski þannig að þeir eru bara að segja sig frá landstjórninni með afgreiðslu þessara fjárlaga og lánsfjárlaga? Það mætti ætla að þeir væru að segja sig frá landstjórninni með því að láta þingið afgreiða málið með þeim hætti sem hér er gerð krafa um.