Lánsfjárlög 1995

67. fundur
Þriðjudaginn 27. desember 1994, kl. 16:14:09 (3170)


[16:14]
     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég ætla að taka þátt í umræðunum síðar undir lið þar sem ég hef meiri tíma en það flögraði aðeins að mér af því að ég veit að hv. síðasti ræðumaður, formaður Alþb., er áhugamaður um stjórnmál og að útlista þau og færa rök fyrir margvíslegum niðurstöðum og fræðikenningum og gerir það oft ágætlega. Ég fór að hugleiða undir ræðu hans, þess hluta sem ég átti kost á að heyra, þegar hann var að fjalla um það með hvaða hætti starfsferill þessarar ríkisstjórnar væri og hvernig hér væri allt í kalda koli undir hennar forsjá hvernig hv. þm. útskýrði það pólitískt að þeir sem hafa borið ábyrgð á stjórnarrekstrinum á þessum fjórum árum skuli hafa svona mikið fylgi samkvæmt skoðanakönnunum. Samkvæmt kenningum hans, sem ég held að séu réttar, þá erum við stjórnarsinnarnir, sem berum ábyrgð á þessu, með 65% samkvæmt síðustu könnunum og það er drjúgt fylgi fyrir þá sem hafa tekið þátt í að stjórna þessu. Sjálfstfl., Alþfl. og svo hv. þm. og minn ágæti fyrrv. samstarfsráðherra. Við stjórnarflokkarnir, sem berum ábyrgð á öllum þessum efnahagsmálum, erum með samkvæmt könnunum 65% og það er ekki svo lélegur vitnisburður um þessa stjórn sem hefur staðið að málum í tæp fjögur ár. Ég verð að vísu að viðurkenna að ég á ekki eins miklar þakkir skildar því ég hef bara verið ráðherra í tæp fjögur ár en minn góði hv. samstarfsmaður og hæstv. fyrrv. ráðherra var ein sjö ár að leggja grundvöll að öllu þessu sem hv. þm. var að lýsa. Hvernig skyldi hann skýra þetta stjórnmálafræðilega?