Lánsfjárlög 1995

67. fundur
Þriðjudaginn 27. desember 1994, kl. 16:15:58 (3171)


[16:15]
     Ólafur Ragnar Grímsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er auðvitað athyglisvert að hæstv. forsrh. hefur engan áhuga á að ræða efnisþætti málsins né skynsama hagfræði ( Forsrh.: Ég ætla að gera það á eftir.) heldur fer að velta fyrir sér orsakalögmálum skoðanakannana og fylgis. Það má margt af því læra, hæstv. forsrh., m.a. má af því læra að Sjálfstfl. hefur yfirleitt fengið u.þ.b. þriðjungi minna fylgi í kosningum en hann hefur haft í skoðanakönnunum nokkrum mánuðum fyrir kosningar. Á sama tíma fyrir síðustu alþingiskosningar var Sjálfstfl. með um eða yfir 50% í fylgi samkvæmt skoðanakönnunum, ef ég man rétt, hæstv. forsrh., en endaði með því að fá 38%. Ef sama hlutfall á að gilda í væntanlegum kosningum þá má Sjálfstfl. þakka fyrir 25--28% í næstu kosningum og verður það lélegasta útkoman sem hann hefur nokkru sinni fengið í sögu sinni þannig að ég mundi í sporum formanns Sjálfstfl. bíða með að fagna. En það er eitt af viðurkenndum lögmálum skoðanakannana og fylgis að Sjálfstfl. er ávallt ofmetinn alveg gífurlega nokkrum mánuðum fyrir kosningar.
    Hvað snertir fylgi hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur þá hefur maður engan annan mælikvarða en þann sem hefur gerst með önnur slík framboð fyrir kosningar. Þar sýna stjórnmálafræðilegar rannsóknir líka að það fylgi sem er gefið upp þremur eða fjórum mánuðum fyrir kosningar hjá slíkum framboðum endist ekki fram að kjördegi. Hv. þm. Vilmundur Gylfason fékk í skoðanakönnun fylgi í janúarmánuði 1983 sem gaf honum, ef ég man rétt, 12 þingmenn, endaði í 4. Albert Guðmundsson --- við þekkjum allir í þingsalnum hvernig það fór.
    Ég held að hæstv. forsrh. eigi að bíða með að fagna. Ef fyrrv. prófessor í stjórnmálafræði ætti að gefa honum einhver ráð þá er það að skoða sögulegt samhengi á milli úrslita kosninga og fylgis í skoðanakönnunum þremur til fjórum mánuðum fyrir kosningar. Síðan vona ég að hæstv. forsrh. treysti sér til að ræða efnisatriðin í umræðunum.