Lánsfjárlög 1995

67. fundur
Þriðjudaginn 27. desember 1994, kl. 16:34:06 (3175)


[16:34]
     Kristín Ástgeirsdóttir :
    Hæstv. forseti. Ég tók til máls fyrr í þessari umræðu og ætla því ekki að hafa mjög mörg orð um þetta mál. Þó hefur það gerst í millitíðinni að búið er að samþykkja fjárlög fyrir árið 1995 þannig að sú mynd sem við höfum af ríkisfjármálunum er nú smátt og smátt að skýrast. Það liggur fyrir að það er búið að samþykkja fjárlög með, að því er ég held, u.þ.b. 7,5 milljarða halla og lánsfjárlögin eru í nánum tengslum við þær ákvarðanir. Síðan eigum við eftir að fjalla um á næstu dögum frv. um ráðstafanir í ríkisfjármálum og skattafrv. ríkisstjórnarinnar sem eins og kom fram við 1. umr. um það mál felst fyrst og fremst í því að það er verið að veita fé út úr ríkissjóði í stað þess að reyna að afla tekna á móti þeim gífurlega halla sem við horfum fram á.
    Fyrsta spurningin sem vaknar er sú hvort þetta fjárlagafrv. stenst, hvort hallinn verður enn þá meiri en samþykktur var. Það getur brugðið til beggja vona með það vegna þess að á fyrstu árum þessarar ríkisstjórnar óx hallinn mjög bratt og varð miklu meiri en gert hafði verið ráð fyrir, allt að tvöfaldaðist á fyrstu tveimur árum. En á því ári sem nú er að renna sitt skeið hefur tekist öllu betur að halda utan um hallann. En þar kemur þó til sögu að tekjur ríkissjóðs verða á þessu ári miklu meiri en gert hafði verið ráð fyrir. Það er því að mörgu leyti merkileg þróun sem við höfum horft upp á á þessu ári. Árið leit ekki vel út í byrjun og það var spáð áframhaldandi miklu atvinnuleysi og erfiðleikum í efnahagslífinu. En eins og oft gerist í íslensku þjóðlífi þá hefur eitt og annað komið til sögunnar sem hefur orðið til þess að bæta þarna úr og þarf ekki að vera að fara enn einu sinni í gegnum það. En það breytir ekki því að það er ekkert sem tryggir að batinn haldi áfram.

    Það er kannski mesta áhyggjuefnið og erindi mitt hingað upp í þennan ræðustól að ræða örlítið um þennan efnahagsbata og hvernig er verið að fara með hann og ekki síst það sem er fram undan og kann einmitt að raska öllum þessum forsendum. Við höfum orðið vitni að því á undanförnum vikum að Þjóðhagsstofnun hefur gefið út nýja spá og hún byggir sína spá á því sem hefur gerst á undanförnum mánuðum. Hún reiknar með auknum tekjum í ríkissjóð. Hún gefur sér að loðnuafli verði þokkalegur. Hún gefur sér að það verði áfram úthafsveiðar og hún gefur sér ákveðnar forsendur í komandi kjarasamningum. Það er allt mjög óvisst um það hvort þetta gengur eftir. Ef við horfum á þá vaxandi andstöðu sem virðist vera bæði meðal Norðmanna og Rússa við veiðum í norðurhöfum, Barentshafi og á því svæði, þá er útlitið þar mjög óljóst. Sá happdrættisvinningur og sú mikla tekjuaukning sem þaðan hefur komið er algjörlega óviss. Sama gildir um loðnuveiðarnar. Það finnst lítil loðna og það dæmi allt saman er mjög óvisst. Ég verð því að segja það sem mína skoðun, hæstv. forseti, að mér þykir ríkisstjórnin vera ansi brött í sínum áætlunum og sínum ákvörðunum, bæði við það að létta sköttum af eignafólki í landinu og varðandi það að leita ekki leiða til aukinnar tekjuöflunar. Eins og hefur verið bent á þá hefur verið frestað ár eftir ár að koma á fjármagnstekjuskatti og ég hygg að í rauninni séum við búin að koma okkur í nokkuð erfiða stöðu varðandi fjármagnstekjuskattinn. Sú mikla opnun sem er að verða á fjármagnsmarkaði við það að fólk getur flutt fjármagn nánast óheft á milli landa breytir auðvitað stöðunni og gerir það að verkum að það er í rauninni miklu verra að ætla að koma á fjármagnstekjuskatti núna en það var á fyrstu árum þessa kjörtímabils. Ég get að vissu leyti tekið undir áhyggjur af því að vissulega geta áhrifin orðið slæm þó þarna sé að mínum dómi um réttlætismál að ræða og í rauninni alveg ótækt að fólk skuli geta haft milljóna tekjur, því þetta eru auðvitað ekkert annað en tekjur, sem ekki eru skattlagðar. Það þarf ekki að rifja upp dæmi þar sem þessar tekjur nema milljónum kr.
    En ég vil líka ítreka þá skoðun mína að það hefur aldrei verið á dagskrá hjá okkur kvennalistakonum að fara að seilast í sparifé gamla fólksins sem hefur verið að spara í gegnum árin og vill eiga einhvern varasjóð til ellinnar og eiga fyrir útförinni sinni sem því miður ýmsir eiga nú erfitt með. Það hefur aldrei verið meiningin að seilast í þá sjóði. En ég sá ekki betur en að í tillögum sem ríkisstjórnin var komin með inn á sitt borð ætti að fara í alla hugsanlega vasa og ekkert þak sett á það hvert þeir peningar yrðu sóttir.
    Aðaláhyggjuefnið í ríkisfjármálunum núna er annars vegar þessi gríðarlega skuldasöfnun ríkisins, sem hefur verið gerð grein fyrir fyrr í dag og reyndar áður í þessari umræðu, sem m.a. má sjá í myndrænu formi í haustskýrslu Seðlabankans og er reyndar birt í nál. minni hluta efh.- og viðskn. Sú mynd ber með sér að skuldir ríkisins hafa vaxið jafnt og þétt á undanförnum árum og ekki síst núna á þessu kjörtímabili, í tíð þessarar ríkisstjórnar. Það er nöturlegt til þess að hugsa að einmitt þessi ríkisstjórn setti sér það markmið að draga úr þessari skuldasöfnun og ráðherrar ríkisstjórnarinnar vitnuðu mikið til þess ábyrgðarleysis sem hér hefði ríkt árum saman þar sem væri verið að senda reikninga til framtíðarinnar og komandi kynslóðum væri ætlað að borga þessar skuldir einhvern tímann, við værum að skuldsetja komandi kynslóðir. En þegar við horfum á stöðu þessara mála núna, hæstv. forseti, þá er bara dæmið nákvæmlega eins ef ekki miklu verra því ríkisstjórnin hefur haldið þessari skuldasöfnun áfram. Eins og hefur verið bent á þá er skuldasöfnun íslensku þjóðarinnar komin á býsna hættulegt stig. Menn geta deilt um hvar hættumörkin liggja. Ég get nefnt það í þessu sambandi að hæstv. utanrrh. og formaður Alþfl. gerði það einmitt að umtalsefni í umræðunni í fyrra að þriðja hver króna sem við öflum fer í það að greiða skuldir í erlendri mynt. Það hefur heldur sigið á ógæfuhliðina síðan hann hélt sína ræðu.
    Þetta hlýtur að vera mjög mikið áhyggjuefni. Núv. hæstv. ríkisstjórn hefur haldið því fram að hún væri að greiða niður skuldirnar og auðvitað hefur batnandi viðskiptajöfnuður gefið okkur kost á því að greiða þessar skuldir að einhverju leyti niður en samt sem áður fer hlutfall skulda af landsframleiðslu vaxandi eins og skýrsla Seðlabankans ber með sér. Og þetta er gríðarlegt áhyggjuefni. Síðan upplifum við það, hæstv. forseti, að þegar svo batnar í ári og ríkissjóður fær meiri tekjur þá fara menn í jólagjafastuð og vilja nú gerast góðir og sjá að það eru kosningar fram undan. Og þá var tekin sú stefna á þessu hausti, sem var mjög áberandi þegar fjárlagafrv. kom í ljós, að það var meira og minna hætt við öll sparnaðaráform og það var farið að taka ákvarðanir um að veita út úr ríkissjóði í stað þess að nota nú þennan bata til að greiða niður skuldirnar.
    Ég vil rifja það upp að við kvennalistakonur höfum á undanförnum árum gagnrýnt það mjög hvernig staðið hefur verið að svokölluðum sparnaði og niðurskurði af hálfu þessarar ríkisstjórnar. Vandinn er sá að hann hefur verið svo handahófskenndur og það hefur verið beitt flötum sparnaði, skorið ofan af ríkisstofnunum aftur og aftur, gert það ár eftir ár að ná einhverri 2% eða 3% hagræðingu. Vissulega hafa ríkisstofnanir hert sultarólina og reynt allt hvað þær geta til að spara og sums staðar hefur það tekist. En jafnframt er verið að hlaða upp miklum vanda. Stærsti vandinn er í heilbrigðiskerfinu. Ég get ekki séð að menn hafi þar verið að leysa nokkurn einasta vanda og rétt eins og það vantaði hundruð milljóna upp á á þessu ári á spítölunum þá mun það sama gerast á næsta ári þrátt fyrir alla samninga og þarf ekki að fara djúpt í það dæmi til að sjá að menn eru með endalausar bókhaldskúnstir, eru að færa upphæðir til og frá, til þess að reyna að gefa einhverja glansmynd af ríkisfjármálunum en þegar betur er skoðað þá stenst þetta ekki. Ég rifja enn einu sinni upp það neyðarkall sem okkur barst frá Borgarspítalanum sem vantar hátt í 400 millj. kr. til að geta staðið undir óbreyttum rekstri en spítalinn fær 250 millj. til að endurskipuleggja reksturinn í ljósi þess að það á að sameina Borgarspítala og Landakotsspítala sem líka mun kosta tugi milljóna ef ekki hundruð milljóna. Það er alveg ljóst að þarna er í uppsiglingu enn eitt árið mikill vandi sem verður ekki leystur öðruvísi en að uppstokkun eigi sér stað.
    Það sem ég hef ekki síst áhyggjur af varðandi það dæmi sem við stöndum frammi fyrir og það dæmi sem fram undan er eru kjaramálin. Mig langar að spyrja hæstv. fjmrh.: Hver er stefna ríkisstjórnarinnar varðandi komandi kjarasamninga? Við höfum horft upp á það að vikum saman, ég hygg að á morgun verði komnar sjö vikur frá því að verkfall sjúkraliða hófst, að hér hefur staðið sjö vikna verkfall á sjúkrahúsum og öldrunarstofnunum á höfuðborgarsvæðinu og gengur hvorki né rekur. Þarna er komið alveg gríðarlegt vandamál sem því miður sér ekki fyrir endann á. Í ljósi þess hljótum við að spyrja: Hver er stefna ríkisstjórnarinnar varðandi þá kjarasamninga sem fram undan eru? Því það er alveg ljóst að samningar við sjúkraliða munu hafa einhver áhrif og við sjáum það öll og viðurkennum að það er búið að koma upp töluverðum vanda í ljósi þeirra kjarasamninga sem áður hafa verið gerðir. En það verður að leysa þessa deilu og það verður að horfa á hana frá þeim sjónarhóli að um láglaunastétt er að ræða sem á kröfu og rétt á úrbótum sinna kjara. En hvað svo? Hvernig ætlar ríkisstjórnin að standa að þessu dæmi?
    10 des. sl. kom yfirlýsing frá ríkisstjórninni sem er ætlað að greiða fyrir kjarasamningum þó að t.d. ASÍ sjái ekki hvernig það geti gerst. Þar er um það að ræða að veita peninga til frekari atvinnusköpunar. Reyndar er það mál sem margsinnis hefur verið kynnt og ítrekað. Þar er um ýmsar aðgerðir í skattamálum að ræða sem reyndar, eins og hefur verið rakið, koma einkum þeim til góða sem eiga miklar eignir. Það er um að ræða samning milli sveitarfélaganna og ríkisins. Þetta eru vissar aðgerðir sem kannski liðka fyrir kjarasamningum. En samt sem áður er vandinn í þessu sá að er ekki að finna aðgerðir sem koma lægstlaunaða fólkinu til góða. Ég vil vísa til þess sem fram kom í plöggum Þjóðhagsstofnunar að komandi kjarasamningar eru ein af þeim forsendum sem geta raskað öllu ríkisfjármáladæminu. Það veltur mjög á útkomu þeirra hvort þessar áætlanir standast og því ítreka ég spurningu mína til hæstv. fjmrh.: Hver er stefna ríkisstjórnarinnar? Hvernig hugsar hún sér að halda á þessu dæmi?
    Fyrst við erum hér á milli jóla og nýárs og ekkert hefur gerst í sjúkraliðadeilunni þá vil ég líka beina þeirri spurningu til hans, þó það komi lánsfjárlögunum ekki beint við, hvað hann hugsar sér varðandi kjaradeilu sjúkraliða og ríkisins. Er ríkisstjórnin með einhver tromp á hendi? Hefur hún eitthvað að bjóða eða er eitthvað að gerast í þessum málum? Þetta er orðið alveg gífurlegt áhyggjuefni. Annars vegar það hvernig vandinn hleðst upp á sjúkrahúsunum og hjá gamla fólkinu, hjá þeim sem eru fórnarlömb þessarar deilu. Hins vegar er það alveg ólýsanlegt fyrir fólk að ganga í gegnum sjö til átta vikna verkfall. Það tekur fólk gríðarlega langan tíma að jafna sig eftir slík átök, bæði andlega og fjárhagslega. Þetta getur því ekki gengið svona lengur. Ríkisstjórnin verður að taka eitthvert frumkvæði í þessu máli og leita leiða til að leysa þessa kjaradeilu, fara enn einu sinni í gegnum þetta. Ég veit að VSÍ hefur sett hnefann í borðið og liggur á ríkisstjórninni vegna þess að þeir vilja ekki fá samninga sem fara eitthvað fram úr því sem þeir treysta sér til. Það er málið á bak við þetta. VSÍ stendur á bak við og lemur á ríkisstjórninni. En það breytir ekki því að það verður að finnast lausn á þessari deilu. Þetta getur ekki gengið svona lengur.
    Að lokum, virðulegi forseti, minni ég á það að hallinn á ríkissjóði, þessi þrjú og hálfa ár sem þessi ríkisstjórn hefur starfað og ef við bætum þeim fjárlagahalla sem gert er ráð fyrir á næsta ári þá er hallinn að komast í hátt í 40 milljarða kr. á fjórum árum. Við hljótum að spyrja okkur að því hvernig við ætlum að reka okkar þjóðarbú með þessum hætti. Hvernig á þetta dæmi að ganga upp?
    Af því að við erum að fjalla um lánsfjárlögin þá vil ég rifja upp að við erum að fara á fund á eftir í hv. efh.- og viðskn. til að fara ofan í eitt af þeim furðulegu málum sem hafa orðið til á undanförnum árum sem er ævintýrið mikla um Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Eins og það dæmi lítur út í þessu frv. þá er þetta algjörlega óleysanlegt dæmi. Þetta er algjörlega óleysanlegt dæmi öðruvísi en að ríkissjóður ætli sér á komandi árum að borga stöðugt með þessari byggingu og þeim rekstri sem þar er því tekjurnar eru hvergi nærri í neinu samræmi við þann mikla kostnað sem mun fylgja á næstu árum. Og við erum með fleiri svona dæmi í lánsfjárlögunum eins og Landsvirkjun, Lánasjóð ísl. námsmanna, Þróunarsjóð sjávarútvegsins og byggingarsjóði ríkisins. Þetta eru allt saman mjög stór og alvarleg vandamál sem íslenska ríkið stendur frammi fyrir. Og þó það verði efnahagsbati, sem vonandi skilar sér, þá eru þetta algerlega óleyst vandamál sem við munum verða að glíma við á komandi árum.
    Maður spyr sig: Hver ber ábyrgð á þessu? Hverjir voru það sem tóku þessar ákvarðanir? Þeir sitja margir í salnum eða ættu að sitja í salnum og fylgjast með umræðunni. (Gripið fram í.) Það eru samt allnokkrir sem bera ábyrgð á þeim ákvörðunum sem hafa verið teknar á undanförnum árum og snerta þessa sjóði og stofnanir ríkisins. Það er reyndar alveg óskiljanlegt hvernig menn ætluðu að láta þessi dæmi ganga upp. Það er algerlega óskiljanlegt.
    En mergurinn málsins er sá, virðulegi forseti, að stjórn á þessum málum er ótrúleg. Skuldasöfnun ríkisins heldur áfram og þegar loksins batnar í ári þá er þeim peningum varið til þess að reyna að bæta ímyndina gagnvart ákveðnum hópum kjósenda úti í samfélaginu. En það er ekki verið að spyrja um réttlæti eða bæta kjör hinna lægst launuðu. Það er ekki aldeilis verið að grípa til slíkra ráðstafana að þessu sinni. Þegar það verður æ augljósara hve launamunur og misrétti fer vaxandi í samfélaginu þá er ömurlegt upp á þetta að horfa enda styttist í það að hér verði stjórnarskipti og vonandi komast aðrir aðilar að stjórn mála og þá þarf heldur betur að hefjast hreingerning og tiltekt í ríkisfjármálunum.