Lánsfjárlög 1995

67. fundur
Þriðjudaginn 27. desember 1994, kl. 16:56:52 (3176)


[16:56]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Það er aðeins einn þáttur sem ég vil nefna í andsvari mínu. Það varðar kjaramálin vegna beinna fyrirspurna hv. þm. Það var spurt hver stefnan væri. Einnig var spurt um sjúkraliðadeiluna. Varðandi sjúkraliðadeiluna skal það tekið fram og ítrekað sem áður hefur áður hefur reyndar komið fram að ríkið og Reykjavíkurborg hafa lagt fram tilboð til sjúkraliða. Það hefur verið samráð á milli okkar og beggja samninganefndanna. Því miður höfum við ekki fengið skýr svör. Nú er það svo að tíminn rennur frá okkur því tilboð okkar byggðist á því að gerður yrði skammtímasamningur til áramóta og styttist tíminn til áramóta þannig að um leið og áramótin eru komin þá hljótum við að taka upp viðræður við sjúkraliða eins og aðra um samning til eins, tveggja eða jafnvel þriggja ára. Það torveldar deiluna ef ekki er hægt að fá skýr svör um það hvort starfa eigi áfram á grundvelli fyrirliggjandi tilboðs.
    Varðandi almennt um kjaramálin þá er ég þeirrar skoðunar að heildarsamtökin þurfi að koma að þessum málum ekki síst ef samningarnir eiga að koma þeim lægstlaunuðu til góða. Það sem skiptir öllu máli er að viðhalda stöðugleikanum, að skapa ný störf og ég tek fram að á þessu ári hafa verið sköpuð 1.500 ný störf á landi. Loks þarf kaupmátturinn að þróast eins og gerist í okkar samkeppnislöndum. Það skiptir mestu máli fyrir okkur að við styrkjum samkeppnisstöðu Íslands í heiminum til þess að tryggja lífskjörin í framtíðinni.