Lánsfjárlög 1995

67. fundur
Þriðjudaginn 27. desember 1994, kl. 17:00:20 (3178)


[17:00]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Vegna orða hv. ræðumanns þá vil ég taka það fram að tilboðið var gefið hinn 9. des. Allt frumkvæði hefur verið hjá borg og ríki. Það hefur verið spurt þrásinnis að því hvort tilboðinu verði tekið eða hafnað og það hafa ekki fengist skýr svör. Vandinn er sá að við höfum ekki fengið höfnun heldur hefur verið reynt að halda áfram viðræðum á grundvelli tilboðsins án þess að niðurstaða fáist um það hvort því sé hafnað eða ekki. Það er vandinn. Það er hægt að koma upp aftur og aftur á Alþingi og segja: Ríkið verður að aðhafast eitthvað. Samninganefnd ríkisins verður að aðhafast eitthvað. En hvernig væri að hv. þm. og þar á meðal hv. þm. sem hér talaði beindi einu sinni ósk sinni til forustumanna sjúkraliðafélagsins sem ber á byrgð á þessu verkfalli ekki síður en aðrir. Það er kominn tími til að skýr svör fáist því það var gert ráð fyrir skammtímasamningi til áramóta og síðan mundu hefjast nýjar viðræður á sama grundvelli og viðræður þurfa að fara fram við aðra aðila. Samningstilboðið var þannig að gert var ráð fyrir því að sjúkraliðar fengju nákvæmlega sömu launahækkanir og aðrar heilbrigðisstéttir höfðu fengið á undanförnum tveimur árum. Og að þessu tilboði stóðu ekki einungis fjmrn. heldur var þetta einnig unnið í fullu samráði við borgarstjórann í Reykjavík og við samninganefnd Reykjavíkurborgar.
    Ég bið hv. þm. um að skora einnig á þá sem hafa valdið þessu verkfalli.