Lánsfjárlög 1995

67. fundur
Þriðjudaginn 27. desember 1994, kl. 17:02:28 (3179)


[17:02]
     Kristín Ástgeirsdóttir (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er auðvitað eitthvað ósagt og eitthvað óskýrt í þessu máli ef það er rétt hjá hæstv. fjmrh. að það fáist ekki svör. Ég skal svo sannarlega hafa samband við sjúkraliða og fá þeirra skýringar og viðhorf og hvað þarna er á ferð. En ég bara ítreka það að ábyrgð ríkisins er auðvitað gríðarlega mikil. Ábyrgð sjúkraliða er auðvitað einnig mikil. Það er eitthvað mjög sérkennilegt í þessum samskiptum og við höfum horft upp á það hér í vinnudeilum eftir vinnudeilum hjá ríkinu hvað þær vilja dragast og hve erfiðlega gengur að ná þar samningum. Og eins og ég hef áður sagt: Það er eitthvað mjög sérkennilegt á ferð í samskiptum ríkisins við starfsmenn sína.
    En ég skal sannarlega taka hæstv. fjmrh. á orðinu og ræða við sjúkraliða og fá þeirra viðhorf því

þetta getur ekki gengið svona lengur, það er alveg ljóst.