Lánsfjárlög 1995

67. fundur
Þriðjudaginn 27. desember 1994, kl. 17:46:20 (3186)


[17:46]
     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Þegar fjárlagafrv. var til umræðu fyrir nokkrum dögum rétt fyrir jól, þá fór ég aðeins yfir skuldastöðu A-hluta ríkissjóðs og rakti það nokkuð ítarlega hvernig hún hefði þróast í tíð núv. hæstv. ríkisstjórnar og tók eftir því að hæstv. fjmrh. hafði ósköp fátt sér til málsvarnar í þessu efni sem vonlegt er. Þá gafst því miður ekki tími til þess að fara yfir þetta mál eins og þurft hefði en auðvitað er kostur á því að ræða þetta mál aðeins síðar, t.d. þegar ríkisreikningurinn kemur hér til meðferðar og hefði verið mjög gott ef ríkisreikningurinn hefði komið fram áður en frv. til lánsfjárlaga fyrir árið 1995 kom til umræðu vegna þess að hann er grundvallargagn um stöðu ríkissjóðs og nauðsynlegar lántökur hans.
    Nú vill hins vegar þannig til, hæstv. forseti, að ríkisreikningurinn er tilbúinn fyrir löngu. Ríkisreikningurinn fyrir árið 1993 er tilbúinn. Hann er endurskoðaður og tilbúinn en hæstv. fjmrh., sem á að leggja ríkisreikninginn fram, hefur ekki lagt hann fram. Það er auðvitað ótrúlegt að hæstv. fjmrh. leyfir sér það að liggja á ríkisreikningnum. Spurningin er þá sú: Eru það einhverjar tölur, eru það einhverjar niðurstöður sem hann telur ástæðu til að fela í tengslum við umræðu um ríkisfjármálavandann sem stendur yfir þessa dagana núna á milli jóla og nýárs? Eru einhver atriði í ríkisreikningnum fyrir 1993 sem hæstv. ráðherra vill helst ekki láta sjást?
    Um það ætla ég í sjálfu sér ekki að fjalla ítarlega hér. Ég gæti farið yfir það en ætla ekki að gera

það en bendi á niðurstöðutölur ríkisreikningsins fyrir árið 1992 þar sem það kemur fram að neikvæður höfuðstóll A-hluta ríkissjóðs er í lok ársins 1992 150 milljarðar kr. Eignirnar eru taldar 87 milljarðar og skuldirnar 237 milljarðar, mismunur 150 milljarðar kr. í neikvæðan höfuðstól A-hluta ríkissjóðs í lok ársins 1993. Þessi staða hefur versnað á árinu 1992 --- um hvað? Um 18,5 milljarða kr. sem er allt önnur og miklu hærri tala en menn sáu í fjárlögunum fyrir árið 1992 og stafar af því að ríkisreikningurinn er gerður upp á allt öðrum grunni en fjárlögin sjálf.
    Út af fyrir sig liggja ekki fyrir endanlegar tölur um það hver hallatala ríkissjóðs er á árinu 1994. Og enn síður liggur það fyrir hver verður talan fyrir árið 1995. En ég fullyrði þó að fyrir bæði þessi ár eru tölurnar sem ríkisreikningurinn mun sýna miklu hærri þannig að nemur mörgum milljörðum kr. en fram kemur í fjárlögum fyrir þessi tvö ár. Mér segir svo hugur að þegar ríkisreikningurinn fyrir árið 1993 verður skoðaður þá muni koma í ljós að höfuðstóllinn hjá A-hluta ríkissjóðs sé neikvæður ekki um 150 milljarða heldur um um það bil 174 milljarða kr. Og mér segir svo hugur einnig, miðað við það að hafa farið yfir þessa hluti með hliðsjón af þeim umræðum sem hér hafa farið fram m.a. í dag, að neikvæður höfuðstóll A-hluta ríkissjóðs í lok ársins 1994 verði í kringum 190 milljarðar kr. Og hvað þýðir það, hæstv. forseti? Það þýðir ósköp einfaldlega að ef við tökum þau heilu ár sem liðin eru frá því að núv. hæstv. fjmrh. tók við hefur neikvæð staða A-hluta ríkissjóðs breyst frá því að vera mínus 130 milljarðar upp í það að vera mínus 190 milljarðar kr. Sem sagt versnað um 60 milljarða kr. þegar eignir og skuldir A-hluta ríkissjóðs eru lagðar saman. Þetta er auðvitað hrikalegur hlutur, satt best að segja, hæstv. forseti. Menn eru með öðrum orðum að tala um að raunhækkun á skuldum ríkissjóðs gerðum upp í ríkisreikningi sé í kringum 50% í tíð núv. hæstv. fjmrh. Það er ofboðslegt, hæstv. forseti, það er ofboðslegt.
    Og það er sérstaklega athyglisvert með hliðsjón af því að núv. hæstv. fjmrh. lagði af stað með það að hann væri að taka niður ríkissjóðsskuldirnar og ætlaði að stöðva þær á sínum fjármálaráðherraferli, m.a. með því að reka ríkissjóð á núlli. Staðreyndin er hins vegar þveröfug þannig að skuldir A-hluta ríkissjóðs munu væntanlega nema að teknu tilliti til eigna í lok þessa árs um 190 þús. millj. kr.
    Ég geri ráð fyrir því, hæstv. forseti, að ef við hefðum haldið því fram í maí 1991 að núv. hæstv. fjmrh. mundi skila ríkissjóði með þessum hætti þá hefðu menn ekki lagt mikinn trúnað á þá spádóma eða þær kenningar, talið það algera fjarstæðu. Staðreyndin er hins vegar sú sem blasir núna við og mun blasa við þegar ríkisreikningurinn fyrir árið 1993 verður loksins birtur en eins og ég sagði áðan þá hefur hæstv. fjmrh. legið á honum nokkurra daga skeið eða um nokkurra vikna skeið jafnvel sem er náttúrlega furðulegt og stórlega ámælisvert miðað við þá staðreynd að auðvitað hefðum við þurft að hafa þennan ríkisreikning til hliðsjónar í umræðunni um lánsfjárlög og svo um ríkisfjármálin almennt næstu daga. Vegna þess líka, hæstv. forseti, að fjárlögin fyrir árið 1995 eins og þau voru afgreidd standast enga skoðun. Fjárlögin fyrir árið 1995 standast enga skoðun, hæstv. forseti, vegna þess að þar er um að ræða vanáætlanir af ýmsu tagi þannig að skakkar verulegum fjárhæðum auk þess sem eftir er að tryggja lagagrundvöll fyrir mörgum þáttum sem þar eru inni. Fyrir utan það að þegar menn munu gera ríkisreikninginn fyrir árið 1995 þá munu menn komast að því að tveir liðir á fjárlögunum fyrir 1995 munu hafa hækkað frá fjárlögum til ríkisreiknings um á að giska 5 milljarða kr. Þessir liðir eru annars vegar lífeyrisskuldbindingar ríkisins sem eru uppfærðar í ríkisreikningi en í fjárlögum eru aðeins taldar þær greiðslur sem falla til það árið. Þetta á líka við um lántökur ríkissjóðs þar sem í fjárlögunum er aðeins gert ráð fyrir teknum lánum eins og þau koma fyrir, svo að segja af skepnunni, hvaðan sem þessar lántökur eru, en í ríkisreikningi er hins vegar um að ræða verðlagsuppfærslu og vaxtauppfærslu á öllum skuldum ríkissjóðs. Þegar þetta hvort tveggja hefur verið lagt saman, t.d. miðað við ríkisreikninginn fyrir árin 1992 og 1993, þá tel ég að sú tala sem menn eru hér að vinna með vegna halla á ríkisbúskapnum 1995 verði 4--5 milljörðum kr. hærri en menn eru með fyrir framan sig.
    Þetta eru auðvitað hlutir sem er algerlega óhjákvæmilegt að þessi virðulega stofnun geri sér ljóst um leið og hún fer yfir þessi mál.
    Ég ætla að benda á það, hæstv. forseti, að í nál. minni hluta efh.- og viðskn. á þskj. 458 segir m.a., með leyfi forseta:
    ,,Hreinar skuldir ríkissjóðs voru einungis um 0,5% af vergri landsframleiðslu í árslok 1982, en stefna í meira en 30% af vergri landsframleiðslu og um 120% af tekjum ríkissjóðs á þessu ári.``
    Ég ber mikla virðingu fyrir nál. minni hluta efh.- og viðskn., hæstv. forseti, en ég tel að hér sé ekki of í lagt. Ég tel að í raun og veru sé það þannig að skuldirnar séu ekki 120% af tekjum ríkissjóðs á þessu ári heldur allmiklu meiri. Ég tel að menn séu að tala um í lok þessa árs heildarskuldir upp á 190 milljarða kr. þegar tekið hefur verið tillit til eignarstöðu A-hluta ríkissjóðs. En ég bendi hins vegar á það, hæstv. forseti, að 1982 voru menn að tala um að hreinar skuldir A-hluta ríkissjóðs væru 0,5% af vergri landsframleiðslu. Hvað er það mikið, hæstv. forseti? Ætli það sé nema 2--3 milljarðar kr. sem menn eru að tala um. Hér hefur því átt sér stað alveg hrikaleg breyting á þessum tíma. Ég held að menn þurfi að gera sér grein fyrir því að þetta má ekki ganga svona lengur vegna þess að við þolum það ekki. Þjóðarbúið þolir ekki þessa stöðu og framtíðin þolir ekki þessa stöðu vegna þess að þetta er ávísun á framtíðina. Hér er verið að auka vandann á hverju einasta ári upp á tugi milljarða í tíð núv. hæstv. ríkisstjórnar, á árinu 1992 um 18,5 milljarða kr. og í tíð núv. hæstv. fjmrh. um 60 milljarða kr. Það er ævintýraleg aukning, satt best að segja, á ekki lengri tíma.

    Áður var það þannig, hæstv. forseti, að Sjálfstfl. montaði sig af því að þar væru menn að reyna að passa upp á reksturinn og þeim væri alveg sérstaklega vel treystandi fyrir rekstrinum á opinberum sjóðum, ríkisstofnunum, Reykjavíkurborg, ég tala nú ekki um ósköpin. Þar er viðskilnaðurinn með þeim ósköpum að það er svo að segja ekki króna eftir til eignabreytingar þegar búið er að greiða rekstrarkostnaðinn eins og hann lítur út að óbreyttu á árinu 1995 þannig að ekki skilur Sjálfstfl. vel við þar. En þegar kemur að ríkinu og fyrsta heila kjörtímabilið sem Sjálfstfl. fer með ríkisfjármál um langt árabil, líklega er það ekki síðan kjörtímabilið 1974--1978 að Sjálfstfl. fer með þessi mál. Nú fær hann þetta tækifæri, þessi flokkur sem í orði kveðnu segist fara vel með almannafé og vera íhaldsflokkur og halda utan um hlutina. Niðurstaðan er sú að eftir þetta eina kjörtímabil hæstv. fjmrh., Friðriks Sophussonar, hafa skuldirnar hjá A-hluta ríkissjóðs aukist nettó um um það bil 60 milljarða kr. til loka þessa árs að teknu tilliti til eignabreytinga á sama tíma.
    Það er kannski af þessari ástæðu sem hæstv. fjmrh. hefur ekki viljað birta ríkisreikninginn fyrir árið 1993. Það er kannski af þessari ástæðu sem hæstv. fjmrh. hefur ákveðið að sýna okkur hann ekki vegna þess að ríkisreikningurinn fyrir árið 1993 afhjúpar þennan veruleika. Hann afhjúpar auðvitað ýmislegt fleira, hæstv. forseti, eins og t.d. það að sparnaðurinn sem núv. ríkisstjórn er að guma af á ýmsum sviðum kemur aðallega fram á tveimur sviðum: Í fyrsta lagi í menntamálum með niðurskurði á Lánasjóði ísl. námsmanna en í öðru lagi í landbúnaðarmálum vegna búvörusamningsins. Þegar menn skoða raunverulegan sparnað í tíð þeirrar ríkisstjórnar sem nú situr kemur það í ljós að hann er á þessum tveimur sviðum: Í menntamálum, hjá Lánasjóði ísl. námsmanna, og í landbúnaðarmálum vegna búvörusamningsins.
    Hvernig er þetta þá, hæstv. forseti, í heilbrigðismálum? Í heilbrigðismálum er það þannig að þegar tekið er tillit til raunverulegs kostnaðar sjúkrastofnana á árinu 1994, sem hefur orðið að verja til nokkur hundruðum millj. kr. meira en áætlað hafði verið, þá er ekki um að ræða neina raunlækkun á útgjöldum ríkissjóðs til heilbrigðismála á þessu ári. Það er sérstaklega athyglisvert þegar þess er gætt að til viðbótar við þessa fjármuni er um það að ræða að ríkið hefur margfaldað tekjur sínar af sértekjum, af sköttum af sjúklingum og þeim sem þurfa á heilbrigðisþjónustunni að halda, hvort sem þar er um að ræða heilsugæslustöðvar, lyfsölu, göngudeildarþjónustu af margvíslegu tagi eða hvað það nú heitir. Það er því augljóst mál, hæstv. forseti, að í rauninni hafa öll áformin sem uppi voru um aðhald í ríkisfjármálum, um það að skila ríkisbúskapnum betri en menn tóku við honum, hrunið.
    Ég er út af fyrir sig alveg sannfærður um að bæði hæstv. núv. forsrh. og hæstv. fjmrh. hafa ætlað sér að skila ríkisbúskapnum í betra formi en þeir tóku við honum. Þeir hafa ætlað sér að gera það. Þeir hafa vafalaust sett sér það að koma þannig að landi með sæmilega niðurstöðu. En niðurstaðan er hins vegar því miður sú að þeir bæta við nettóskuldir A-hluta ríkissjóðs um 60 milljarða kr. á þessu tímabili. Það er auðvitað alveg hrikalegur hlutur og það er byrði sem lendir á framtíðinni, á börnunum okkar og þeim sem þurfa að standa undir þessu þjóðfélagi á komandi árum. Það vil ég gagnrýna, hæstv. forseti, í tengslum við lánsfjárlagafrv. vegna þess að það er alveg óhjákvæmilegt að draga þetta mál sérstaklega fram vegna þess að það gafst ekki kostur á að ræða það sem skyldi við fjárlagaumræðuna sjálfa núna fyrir hátíðarnar.