Lánsfjárlög 1995

67. fundur
Þriðjudaginn 27. desember 1994, kl. 18:04:56 (3188)

          
[18:04]
     Svavar Gestsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er grundvallarmunur á því hvort menn eru að taka inn í ríkisreikninginn í eitt skipti uppfærslu á öllum lífeyrisskuldbindingum ríkisins eins og var gert á árinu 1989 eða hvort um það er að ræða að verið sé að færa þessar skuldbindingar til verðlags frá ári til árs. Það er auðvitað hreinn útúrsnúningur hjá hæstv. fjmrh. þegar hann ætlar að reyna að bjarga sér í land með þeim hætti sem hann reyndi hér áðan.
    Staðreynd málsins blasir við. Hún er þessi: Í valdatíma hæstv. fjmrh., Friðriks Sophussonar, hefur nettóstaða A-hluta ríkissjóðs versnað um 60 milljarða kr. Það liggur fyrir og það er það sem hann vill ekki tala um. Auðvitað þurfa menn að skoða þessa tölu með hliðsjón af þróun undanfarinna ára og allt það, en þegar menn gera það á algerlega sambærilegum grundvelli, það er ekki verið að hrúga inn einhverjum milljarðatugum vegna lífeyrisskuldbindinga eða af öðrum ástæðum, það er ekkert svoleiðis uppi, þá kemur í ljós --- hvað kemur í ljós, hæstv. forseti? Að Sjálfstfl. er ekki treystandi fyrir ríkissjóði. Það er sú hrikalega staðreynd sem blasir við. Honum er ekki treystandi fyrir almannafé.