Lánsfjárlög 1995

67. fundur
Þriðjudaginn 27. desember 1994, kl. 19:00:51 (3194)


[19:00]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Auðvitað er erfitt að segja nákvæmlega fyrir um það hvenær fjármálastjórn er góð og hvenær ekki en ein aðferð er til og það er að bera hana saman við það sem gerist hjá öðrum þjóðum. Sé það gert og t.d. með því að bera saman ríkissjóðshallann hér á landi við ríkissjóðshalla í öðrum löndum þá kemur í ljós að ríkissjóðshallinn hér sem hlutfall af landsframleiðslu er tiltölulega lágur og það þrátt fyrir það að þessi þjóð hafi mátt þola lakari ytri aðstæður en margar aðrar þjóðir eða a.m.k. hafa aðstæðurnar ekki verið betri. Þetta er annars vegar.
    Síðan kemur hv. þm. og það er kannski dæmigert fyrir það hvernig hann reiknar, hv. þm. sem er úr stærðfræðideild segir: Hvernig gengur það saman að það sé gott að íslenska ríkið taki lán erlendis fyrir 11 milljarða og að atvinnulífið greiði niður skuldir sínar um 7 milljarða? Hvernig má það vera gott þegar þetta eru samtals 18 milljarðar? Hvernig í ósköpunum getur hv. þm. talað svona? Auðvitað á hann ekki að leggja tölurnar saman. Hann á að draga aðra töluna frá hinni, munurinn er 4 milljarðar. Það er nettóskuldaaukning þjóðarinnar. Um það snýst málið. En hv. þm. liggur svo á að gagnrýna ríkisstjórnina að hann leggur töluna saman í stað þess að draga aðra frá hinni.