Lánsfjárlög 1995

67. fundur
Þriðjudaginn 27. desember 1994, kl. 19:21:45 (3198)


[19:21]
     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) :
    Hæstv. forseti. Ég vil taka það fram strax í upphafi að það var ekki ætlun mín að svíkja hv. þm. um það að taka þátt í þessum umræðum. Ég verð þó að viðurkenna það að mér fannst að hæstv. fjmrh. hefði svarað í öllum meginatriðum þeim athugasemdum og spurningum sem hv. þm. hafði komið fram með þannig að ég taldi óþarft að ég færi að endurtaka það sem hæstv. fjmrh. hefði sagt. Að vísu kom hér annar hv. þm., 4. þm. Norðurl. e., og spurði mig hvort ég væri fáanlegur til þess að flytja hér aftur ræðu mína frá því í október í ár og jafnvel kannski ræðuna frá því í fyrra líka. Ég er reyndar ekki eins flinkur og hann að flytja sömu ræðuna aftur og aftur, hann gerir það öllum mönnum betur og hef ég heyrt sömu ræðuna mörgum sinnum hjá hv. þm. og á hann hrós skilið fyrir hversu vel hann getur flutt sömu ræðuna aftur og aftur. Ég er ekki eins flinkur við það og treysti mér ekki til þess, enda kemst enginn þingmaður með tærnar þar sem hv. þm. hefur hælana í þeim efnum.
    Út af fyrir sig má segja að þessi áhersla sem hv. þm. hafa hér, af hálfu Alþb., lagt á ríkissjóðshallann sé af hinu góða. Afar góð áhersla að mínu mati. En þegar maður horfir til þessa halla, sem þeir vilja nú mæla sem mestan hér við lok þessarar umræðu og lok þessa kjörtímabils, því sem næst, þá hlýtur það að rifjast upp fyrir manni að þegar menn hafa staðið í ströngu við það að reyna að draga úr útgjöldum, sem er ein meginleið til þess að minnka halla ef menn vilja ekki auka skatta, þá hefur vantað hjálp frá þessum hv. þm. Þá hafa þeir komið hver á fætur öðrum og ráðist á það að þessi útgjöld skyldu ekki vera höfð áfram í jafnríkum mæli og áður var, á hvaða sviði sem var, að menn skyldu ekki ganga fram af fullkomnu ábyrgðarleysi í margvíslegum útgjöldum sem ríkisstjórnin hefur reynt að stemma stigu við. Þá hefur gagnrýnin ekki verið sú að menn væru að auka í ríkissjóðshalla ef þeir létu laust þegar rætt væri um fjárlög og halla á fjárlögum. Nei, öðru nær. Þá hefur það verið brýnt og tekið undir með öllum þeim sem gert hafa kröfur á ríkissjóð og reynt að sýna fram á að ríkisstjórnin og fjmrh. sérstaklega væru í fullkomnum fjandskap við margvíslega hagsmunahópa og almenning í landinu með því að leitast við að spara. Þegar þessi forsaga er höfð í huga og þegar menn minnast hennar þá hljóma þessar stóru ræður hér, fluttar með alvöruþunga og upphrópunum, ekki mjög sannfærandi, a.m.k. ekki fyrir mig.
    Það gladdi mig auðvitað þegar hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson, 8. þm. Reykn., viðurkenndi áðan og var út af fyrir sig, eins og hann vill orða það, nokkuð sögulegur atburður, að það skipti máli hvort maður væri að draga frá eða leggja saman. Hv. þm. viðurkenndi það hér áðan að það væri út af fyrir sig ákaflega merkilegt. En af því að hv. þm. viðurkenndi það þá hélt ég að hann mundi hætta að halda því fram að ríkisstjórnin væri ekki að nota ábatann til þess að draga úr ríkissjóðshalla. En hann hélt áfram að fara vitlaust með þessi tvö mikilvægu reikningsmerki því það er þannig að þegar halli fer úr 9,6 milljörðum í 7,5 milljarða þá er hann að lækka en ekki hækka. Og fyrst hv. þm. hafði haft vilja til þess að viðurkenna að plúsar og mínusar gætu skipt máli í þessum efnum þá hefði hann átt að láta það gilda líka í þessu dæmi, því hann hefur margoft sagt að við hefðum ekki notað efnahagsbatann til þess að lækka hallann. En við erum að lækka hann um 2 milljarða kr., hv. þm., það veit hv. þm., úr 9,6 milljörðum kr. í 7,5 milljarða kr. eða svo eða um 2 milljarða kr. Og það er einmitt það sem meira er að þessi tala, 9,6 milljarðar, það stefnir flest í að þessi tala muni haldast, að fjárlagafrv. fyrir það ár sem nú er að líða, standist. Það hefði verið saga til næsta bæjar í tíð hv. þm., sem hæstv. fjmrh., að fjárlagafrv. stæðist.
    Ég minnist þess að þegar hv. þm., þá hæstv. fjmrh., flutti og kynnti almenningi fjárlagafrv. sitt að hann sagði að þetta væri fyrsta alvörufjárlagafrv. sem hefði verið lagt fram. Einhver fréttamaður spurði þá hv. þm. hvort hann vildi leggja höfuðið að veði fyrir þessu frv. Hv. þm. þótti bersýnilega vænt um höfuð sitt, sem vonlegt er, þetta er myndarlegt höfuð og mikið í því, eins og menn sjá hér í ræðustólnum og hann vildi ekki leggja það að veði. Kannski fjármálaráðherrahöfuðið, sagði hann, og það fauk svo sannarlega því að í fjárlagafrv. stóð ekki steinn yfir steini. ( Gripið fram í: Hitt tollir.) Hitt tollir og ber sig bara vel. Það stóð ekki steinn yfir steini í öllu því fjárlagafrv. þegar reikningarnir voru gerðir upp. Nú bendir hins vegar flest til þess að fjárlagafrv. fyrir árið í ár standist og þess vegna getum við horft til þess að það fjárlagafrv. sem við höfum nýafgreitt fyrir næsta ár sé líka á góðum grunni reist. Og þá erum við að tala um frv. þar sem hallinn minnkar, m.a. vegna batnandi afkomu þjóðarinnar, um 2 milljarða kr. Og það var það sem hv. þm. var alltaf að gagnrýna okkur fyrir, að hafa ekki gert, en það er akkúrt það sem við gerum, hv. þm., og er nú áríðandi að hv. þm. fari að átta sig á því að það er akkúrat það sem við gerum.
    Hv. þm. talaði nokkuð um vexti. Og það er alveg rétt að við sögðum þegar fjárlagavinnan stóð yfir að það væri áríðandi að við þá fjárlagavinnu mundi vinnan skila sér þannig að það hefði ekki neikvæð áhrif á vexti. Og fjármálaspekingar hins opinbera lögðu á það ríka áherslu að fjárlagafrv. yrði ekki afgreitt með

meiri halla en 9,6 milljörðum kr. því að það hefði vond skilaboð í för með sér og mundi hafa vond áhrif á vexti. Fjárlagafrv. er afgreitt með 7,5 milljörðum kr. en ekki 9,6 milljörðum, eins og fyrr var sagt.
    En það má út af fyrir sig viðurkenna það að við stöndum í ákveðinni varnarbaráttu fyrir vextina, eins og við viljum öll standa í. Nú segir hv. þm. að vextirnir mælist hærri á verðbréfaþingi heldur en við viljum sætta okkur við, kannski 0,2--0,3%, úr 5,0 í 5,2--5,3%. Raunvextir mældust þegar við tókum við á sama verðbréfaþingi 8,3%, hvorki meira né minna, og svo talar hv. þm. um það að í þessum efnum hafi ekki náðst neinn árangur. Hversu miklu heldur þú að þetta skipti fyrir fyrirtækin í landinu og fyrir heimilin í landinu, þessi 3%, næstum því helmingsmunur sem þarna er á þeim raunvöxtum sem fólkið og fyrirtækin í landinu eru að greiða? Þetta virðist líka hafa farið fram hjá hv. þm. þegar hann talar um að nú á verðbréfaþingi seljist bréf með 0,2--0,3% hærri vöxtum en ríkissjóður hefur viljað sætta sig við. Það er mjög áríðandi að menn átti sig á þessum þáttum öllum.
    Í hagvísi frá Þjóðhagsstofnun, sem endar á orðunum gleðileg jól og var gefinn út 21. des., er lýst nokkrum breytingum sem hafa orðið á umsvifum í þjóðfélaginu. Umsvifin eru rakin og þar er m.a. sagt, með leyfi forseta:
    ,,Staðgreiðsluskyldar tekjur hafa farið vaxandi það sem af er árinu og stefna í að verða 2--3% meiri að meðaltali en í fyrra. Þessi tekjuauki stafar bæði af hækkun launa og aukinni atvinnu og umsvifum í þjóðarbúskapnum.`` Svo segir áfram, með leyfi forseta: ,,Þessar breytingar benda til kaflaskila í efnahagslífinu. Stöðnunarskeiðið sem hófst á árinu 1988 virðist á enda.`` Stöðnunarskeiðið sem hófst á árinu 1988. Hvað var það annað sem hófst á árinu 1988 en stöðnunarskeiðið? Fjármálaráðherraferill hv. þm. Það fylgdist sem sagt að, stöðnunarskeiðið og ferill hv. þm. Ég er ekki að segja að það sé út af fyrir sig honum að kenna endilega og vil vera sanngjarnari í dómum um hann heldur en hann um mig og mína ríkisstjórn. En það stendur eins og stafur á bók að þá hófst stöðnunarskeiðið, á sama tíma og fjármálaráðherraferill hv. þm. Fjármálaferli hv. þm. hins vegar lauk en það tók lengri tíma að ljúka stöðnunarskeiðinu sem hófst með ferli hans. (Gripið fram í.) Þó aðrir þættir kunni að hafa komið þar við sögu en ferill hv. þm. En þetta eru þó þýðingarmiklar dagsetningar sem þarna rekast saman af tilviljun. Það er fróðlegt fyrir fólk að skoða það í sögulegu samhengi. A.m.k. tókst ekki hv. þm. sem hæstv. fjmrh. landsins að binda enda á þetta stöðnunarskeið. Honum tókst að binda enda á feril sinn og út af fyrir sig má færa honum þakkir fyrir það. En það hefði verið betra ef hv. þm. hefði líka getað haft áhrif í þá áttina að binda enda á stöðnunarskeiðið. Það gerði hann ekki.
    Það erum við hins vegar að gera hér og nú eins og hér er lýst. Þegar ég sagði frá því sl. vor að kreppunni væri ekki lokið en það væru batnandi merki hvarvetna, hvernig var við því brugðist? Það væri ómerkilegur áróður sem fengi ekki staðist. Nú er þó talað um bata af hv. þm. Hins vegar telur hv. þm. að við notum ekki efnahagsbatann rétt. En það er viðurkennt nú að sá bati sem ég sagði að væri í vændum er kominn. Þar hefur allt gengið heldur hraðar fram en ég af varfærni spáði að mundi gerast.
    Það er nefnilega þannig að við erum ekkert feimnir við það stjórnarsinnar að ræða feril þessarar ríkisstjórnar í efnahagsmálum. Það var þess vegna ekki af þeim ástæðum, eins og ég sagði áðan, að ég hefði ætlað að svíkja hv. þm. um að taka þátt í umræðunum heldur vegna þess að mér fannst hæstv. fjmrh. hafa svarað ágætlega þeim spurningum sem fram höfðu komið.
    Þessi ríkisstjórn setti sér það að markmiði þegar hún tók til við að rjúfa þá stöðnun og kyrrstöðu sem komin var á og ég var að vitna í og sem hófst um sama leyti og fjármálaráðherraferill hv. þm. Vegna óhagstæðra ytri skilyrða tók þetta lengri tíma en ella en það tókst og er að takast. Þetta er það sem fólk er að átta sig á og er að skilja og skynja. Og það er einmitt þess vegna, held ég, sem hv. þm. setur á allar þessar dæmalausu ræður og dregur upp allar þessar sérkennilegu myndir sem eiga ekki neina stoð í veruleikanum þegar hann vill ræða efnahagsástandið hér og nú.
    Við erum sem sagt að horfast í augu við það að í fyrsta skipti í sjö ár er hagvöxtur að verða allnokkur, jafnvel verulegur. Það eru mikil kaflaskil. Það eru kaflaskil sem byggjast á árangri sem menn hafa náð. Það markmið sem ríkisstjórnin setti sér, að tryggja stöðugleikann í þjóðarbúskapnun, hefur tekist. Það getur enginn neitað því að það markmið hefur tekist. Verðbólgan hefur verið hin sama og í okkar nágrannalöndum nánast allt kjörtímabilið og sú staðreynd hefur haft gríðarlega mikla þýðingu fyrir þá sem þurfa að reka atvinnufyrirtæki í landinu. Enginn af þessum þáttum var tíundaður í ræðu hv. þm. en það hefði gert ræðu hans mikið sanngjarnari ef hann hefði tíundað þætti af þessu tagi.
    Það er líka staðreynd að erlend skuldasöfnun hefur verið stöðvuð. Auðvitað veit hv. þm. og hefur til þess alla burði að vita að það skiptir miklu máli þegar ríkissjóður þarf að búa við halla að á sama tíma sé ekki þjóðarbúskapurinn allur rekinn með stórkostlegum halla. Það er nákvæmlega það sem hefur verið að gerast. Um leið og það hefur sem betur fer tekist, eins og hæstv. fjmrh. hefur þegar sagt, að reka ríkisbúskapinn með jákvæðari hætti en tekist hefur í okkar nágrannalöndum þá hefur á sama tíma tekist að greiða niður erlendar raunskuldir þjóðarinnar sem er afar mikilvægt. En það er ekki nóg með að erlendar skuldir hafi farið lækkandi. Hv. þm. sagði frá því og lenti reyndar í ógöngum með mínus og plús þegar hann talaði um þá þætti að Íslendingar væru að greiða niður erlendar skuldir og kaupa sér verðbréf erlendis. Allt þetta bendir til batnandi hags. Staðreyndin er jú sú og það verðum við þingmenn að skilja að þó við séum fylgjandi því að standa undir ríkri velferð í landinu þá gerist það ekki nema hagsmunum atvinnulífsins sé borgið. Hagsmunir atvinnulífsins og skilyrði hafa ekki verið betri í langan tíma í landinu

þrátt fyrir að ýmsar ytri aðstæður hafi til skamms tíma gengið okkur í óhag. Það er almennt viðurkennt að samkeppnisstaða atvinnulífsins fyrir meðalgöngu ríkisvaldsins hefur verið gerð betri en í langan tíma þar á undan. Það er þess vegna, hv. þm., sem menn eru að ryðja stöðnuninni brott. Það er einmitt þess vegna sem það gerðist ekki í hans tíð sem hæstv. fjmrh. að menn gættu ekki að hafa þess undirstöðu í lagi. En samkeppnisstaða atvinnulífsins hefur batnað mjög mikið á þessum tíma.
    Þessi samkeppnisstaða atvinnulífsins hefur skapað þjóðinni ný sóknarfæri. Og þetta er ekki bara sóknarfæri í einhverri ófyrirsjáanlegri framtíð. Þetta eru sóknarfæri sem þegar eru farin að nýtast. Hvernig sjáum við það? Við sjáum það í ört vaxandi útflutningi. Það er ekki síst hinn ört vaxandi útflutningur sem ýtir undir það nú að okkar viðskiptajöfnuður er hagstæðari en ella. Við sjáum það til að mynda í vexti ferðaþjónustunnar í landinu. Stöðugleikinn, bætt skilyrði, hafa auðvitað lagt grundvöllinn að verulegum vexti þar. Þetta hefur gerst í fleiri greinum. Stöðugleikinn, lág verðbólga, hagstæðari samkeppnisstaða atvinnulífsins, allt þetta sem er hin raunverulega efnahagsstefna, hv. þm., hefur gert það að verkum að við sjáum sóknarfæri fram undan og erum þegar byrjuð að nýta þau.
    Það er viðurkennt, eins og ég sagði áðan, að vaxtahækkanir erlendis hafa gert það að verkum að tilhneiging til vaxtahækkunar á löngum bréfum hefur verið fyrir hendi, að vísu í mjög smáum stíl, en það er ekki vegna þess að lánsfjáreftirspurn ríkisins ýti upp vöxtum eins og gerðist í tíð hv. þm. sem hæstv. fjmrh. Nei, alls ekki. Því lánsfjáreftirspurn ríkisins hefur stórlega dregist saman frá þeim tíma þegar hv. þm. gegndi því veigamikla embætti. Engu að síður eru vextirnir núna miklu hagfelldari íslensku atvinnulífi en áður og er enn einn þátturinn sem ýtir undir batnandi samkeppnisstöðu þess og um leið gerir það kleift í framtíðinni að íslenskt atvinnulíf auki kaupmátt fólksins sem í landinu býr því grundvöllurinn hlýtur að verða að vera í réttu lagi. Það er sem sagt stefna ríkisstjórnarinnar í vaxtamálum, í peningamálum, í gengismálum, sem hefur skapað þessi sóknarfæri.
    Ég get sagt hv. þm. það að ég hef ekkert á móti því að ræða þetta mál ítarlega við hann. En ítreka það þó aftur að ég taldi að hæstv. fjmrh. hefði á marga lund svarað ræðum hans og annarra hv. þm. mjög vel. Ég fann það hins vegar að hv. þm. tekur nærri sér vorið 1991. Kannski hefur það verið meginvandamálið sem hann hefur verið að kljást við, ekki ríkisstjórnin og saga hennar, heldur vorið 1991. Ég held að það hefði verið hyggilegra fyrir hv. þm. og betra fyrir menn svo þeir gætu fengið að sjá hans fjármálaráðherraferil í réttu ljósi að viðurkenna að þá fór margt út böndum en vera ekki að láta eins og það hafi ekki gerst. Ég hygg nú, svo maður sé sanngjarn, að þá hafi hv. þm. á marga lund staðið sig ágætlega sem hæstv. fjmrh. En þarna brustu tökin. Ég hygg að það hafi ekki verið við hv. þm. að sakast sjálfan nema að litlu leyti. Ég hygg þess vegna að það væri betra fyrir hann þegar hans ferill er skoðaður af sanngirni þar sem margt var ágætlega gert, og ég kynntist því sjálfur sem aðili stórs fyrirtækis sem átti við hann ágætar viðræður, að viðurkenna að sá blettur sem féll á þann feril vorið 1991 var óheppilegur og ekki nema að litlu leyti við hann sjálfan að sakast.