Lánsfjárlög 1995

67. fundur
Þriðjudaginn 27. desember 1994, kl. 19:40:42 (3199)


[19:40]
     Ólafur Ragnar Grímsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Það ber að þakka hæstv. forsrh. fyrir að hafa tekið til máls í umræðunni. Það gefur tilefni til að segja margt fleira en rúmast í andsvörum. Engu að síður er það þannig eftir þessa ræðu og eftir ræðu hæstv. fjmrh. að hvorugur þessara hæstv. ráðherra hafa sagt orð um það að hreinar skuldir ríkisins hafa aukist upp í 35% af landsframleiðslu og ekki orð um það hvernig núv. stjórnarflokkar ætla að snúa þeirri þróun við þegar á einu kjörtímabili hefur verið farið með skuldahlutfallið úr 15% í 35%.
    Það var heldur ekki eitt orð í þessari ræðu um þær hrikalegu tölur að hreinar kröfur Seðlabankans á ríkissjóð sem voru 8 milljarðar í árslok 1991 eru núna 16 milljarðar. Það eru raunverulegir fjármunir, hæstv. fjmrh. og hæstv. forsrh., sem verður að glíma við. Hvar á að sækja þá 8 milljarða kr. til að koma kröfuhlutfallinu og stærðinni niður í það sama og var 1991? Hvert á að sækja þá milljarða til að koma skuldahlutfallinu niður í það sama og það var 1991? Það komu engin svör í þessari ræðu. Það er hið raunverulega verkefni næstu ára, að sækja þá milljarða sem þarf til þessa verkefnis.
    Síðan fór hæstv. forsrh. í þann leik að bera saman annars vegar útkomu ársins 1994 og fjárlög og fyrirheit í fjárlögum fyrir árið 1995. Menn eru löngu hættir slíkum samanburði og meira að segja hæstv. fjmrh. viðurkenndi það áðan, hæstv. forsrh., að ríkisstjórninni hefði mistekist við afgreiðslu fjárlaganna að hrinda í framkvæmd þeirri stefnu sem var í greinargerð fjárlagafrv. Það er óþarfi fyrir hæstv. forsrh. að vera að reyna að halda til streitu því sem hæstv. fjmrh. er búinn að viðurkenna í ræðu að hafi mistekist.