Lánsfjárlög 1995

67. fundur
Þriðjudaginn 27. desember 1994, kl. 19:44:37 (3201)


[19:44]
     Ólafur Ragnar Grímsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Það vill nú svo til að ríkisfjármálin eru í megnum ólestri í mörgum löndum í Evrópu þannig að það er lítil huggun í því að hægt sé að finna einhver lönd þar þar sem við komum skár út. Næst þegar hæstv. forsrh. hittir kollega sinn, forsætisráðherra Noregs þá má ræða þetta t.d. við hana.
    Það breytir því ekki, hæstv. forsrh., að í greinargerð fjárlagafrv. fyrir árið 1995 er sagt hvað eftir annað í efnahagsstefnukafla frv. að það eigi að nota viðbót í þjóðartekjum til þess að minnka hallann frá því sem hann er í frv. Það var rakið hvað eftir annað í dag að það var þetta sem mistókst við afgreiðslu fjárlagafrv. og hæstv. fjmrh. viðurkenndi það hér áðan. Og þessu er ekki bara lýst yfir einu sinni í efnahagsstefnukafla fjárlagafrv., I. kaflanum sem heitir Efnahagsstefna og markmið fjárlaga, heldur hvað eftir annað. Þjóðhagsstofnun skilaði inn fyrir lokaafgreiðslu fjárlaga nýrri þjóðhagsspá sem fól í sér verulegan tekjuauka. Engu að síður var halli frv. sjálfs aukinn og það er það sem hefur verið til umræðu hvað eftir annað í dag að þegar fram kemur vitnisburður um batann þá er honum ekki varið í samræmi við grundvallarstefnu ríkisstjórnarinnar sjálfrar. Það var beðið um skýringar á því hvers vegna ríkisstjórnin hefði vikið frá því varðandi afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 1995 og það er ekkert skjól í því að fara þá í samanburð milli ára 1994, útkomu þess og fyrirheita fyrir árið 1995 vegna þess að það var einfaldlega ekki til umræðu, hæstv. forsrh., varðandi þennan þátt.