Lánsfjárlög 1995

67. fundur
Þriðjudaginn 27. desember 1994, kl. 19:46:50 (3202)


[19:46]
     Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Steingrímur J. Sigfússon) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Það verður nú að segjast alveg eins og er að hæstv. forsrh. hefur þó nokkuð mikla tilburði til þess að vera sjónhverfingamaður. Manni finnst stundum að það vanti ekkert nema hatt og nokkrar kanínur, þá væri það fullkomnað. Þannig er það búið að vera í um það bil þrjú ár að allt var sótsvart hvert sem litið var í íslenskum efnahagsmálum, algerlega sótsvart, fortíðarvandi í hverju horni og allt á niðurleið. Svo eins og hendi sé veifað er bara allt í einu allt orðið svona ljómandi skínandi gott og batamerkin eru alls staðar. Þetta hefði einhvern tíma verið kallað að snúa við blaðinu dálítið hressilega. Að vísu minnist hæstv. forsrh. ekkert á það núna sem hann talaði mest um áður, fortíðarvanda, skuldaaukningu, atvinnuleysi, minnkandi fjárfestingar o.s.frv. Nú er bara allt bjart, gott og fallegt. Þetta eru óneitanlega þó nokkur tilþrif, það verður að segjast alveg eins og er, í málflutningi og má forsrh. eiga það að þarna sýnir hann þó nokkra getu.
    Hitt er svo annað mál fyrir hvað svona lagað stendur að draga myndina einhliða þeim dráttum sem mönnum hentar í pólitísku eiginhagsmunaskyni á hverjum tíma.
    Síðan vil ég leiðrétta það, hæstv. forseti, sem hæstv. forsrh. talaði um að við stjórnarandstæðingar eða a.m.k. við alþýðubandalagsmenn hefðum stundað einhliða óábyrgan málflutning og okkur hefði skort allan vilja til þess að taka á varðandi útgjöld eða tekjur ríkissjóðs. Þetta er einfaldlega rangt. Okkar tillögur á undangengnum þingum og því sem nú stendur hafa gengið jöfnum höndum út á einmitt tekjuöflun fyrir ríkissjóð sem og aðgerðir til að ná niður útgjöldum. Og stærsta einstaka aðgerðin sem er að spara ríkissjóði peninga um þessar mundir, hver er hún, hæstv. forsrh.? Hún er búvörusamningurinn sem sparar núna á hverju ári um 3--4 milljarða kr. í útgjöldum ríkissjóðs. Og ætli hæstv. forsrh. fari ekki nærri um það hverjir stóðu að gerð þess samnings.