Lánsfjárlög 1995

68. fundur
Þriðjudaginn 27. desember 1994, kl. 21:36:00 (3209)


[21:36]
     Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson) :
    Virðulegi forseti. Ég ætla að mæla fyrir brtt. við frv. til lánsfjárlaga. Efh.- og viðskn. kom saman áðan til þess að fjalla aðeins um frv. til lánsfjárlaga fyrir 1995. Það voru þrjú atriði sem farið var yfir.
    Í fyrsta lagi var fjallað um 1. gr. og hún aðlöguð að þeim tölum sem komu fram í niðurstöðum fjárlaga sem voru samþykkt fyrir jólin.
    Í öðru lagi var fjallað um Flugstöð Leifs Eiríkssonar og hennar málefni, en í frv. er lagt til að það verði lántökuheimild upp á tæpa 2 milljarða til þess að fleyta lánum þar áfram.
    Í þriðja lagi var síðan fjallað um málefni Silfurlax hf. og hér er lögð fram tillaga um það að ríkissjóður geti ábyrgst með sjálfskuldarábyrgð lántöku Silfurlax hf. allt að 50 millj. kr. gegn skilyrðum sem fjmrh. og landbrh. setja. Ég vil aðeins gera grein fyrir þessum brtt.
    Í fyrsta lagi er brtt. við 1. gr., eingöngu niðurstöðutalan úr fjárlagafrv. og fjárlögunum og venjubundin. Ýmsir hv. þm. hér sem hafa tekið til máls hafa haft áhyggjur af því að það gengi erfiðlega að fjármagna þær lántökur sem hér er lagt upp með. Ég held þó að þær áhyggjur séu að mestu leyti óþarfar því að staðreyndin er sú að við erum að reka þjóðfélagið með viðskiptaafgangi á næsta ári. Það verður þess vegna gott jafnvægi í þjóðfélaginu og á fjármagnsmarkaðnum. Það sem er hins vegar að gerast er það að fjármagnsmarkaðurinn er allur að opnast. Það hafa verið miklar breytingar á fjármagnsmarkaðnum. Eins er nokkur óvissa fram undan varðandi kjarasamninga og það hefur líka verið í gangi umræða um að það ætti að breyta grunni lánskjaravísitölunnar rétt eina ferðina. Allt hefur þetta orðið til þess að fjárfestar á markaðnum hafa frekar viljað fara yfir í ECU-bréf heldur en að fjárfesta í verðtryggðum skuldabréfum útgefnum af ríkissjóði og þess vegna hafa þau kannski ekki selst á sömu kjörum og þau mundu annars hafa gert. Hins vegar er á það að líta að það er engin sérstök vaxtasprenging á þeim pappírum í gangi. Það sést gjörla á þeim ávöxtunarkröfum sem verið hafa í viðskiptum á verðbréfaþingi með notaða pappíra.
    Varðandi þá tillögu sem gerð er um Silfurlax þá hafa málefni fyrirtækisins verið til skoðunar í fjmrn. og landbrn. um nokkurt skeið. Þarna er verið að gera úrslitatilraun til þess að snúa við þeirri vonbrigðasögu sem hafbeit á Íslandi hefur verið. Þetta er liður í því að rannsaka sérstaklega hvort það sé hægt að byggja upp stofna af hafbeitarlaxi sem skila sér betur heldur en hingað til hefur verið. Þeir sem hafa rekið hafbeitarstöðvar á undanförnum árum hafa einmitt lent í því að heimtur af laxi hafa verið með afbrigðum lélegar.
    Það sem hér er að gerast er líka það að fjmrh. og landbrh. munu væntanlega setja skilyrði fyrir þessari ábyrgðarveitingu og þessi skilyrði koma fram í bréfi sem fjmrn. hefur skrifað efh.- og viðskn. Fyrra skilyrðið er það að ábyrgðin verði tryggð með 1. veðrétti í seiðum og hafbeitarlaxi félagsins sem aflast 1996 þar sem afli 1995 er þegar veðsettur. Ábyrgðinni verði aflétt eigi síðar en 1. nóv. 1996. Árleg endurnýjun skuldabréfa og skjala vegna sérstaks rekstrarláns landbrn. sem veitt var á árunum 1992 og 1993 skal hafa farið fram áður en ábyrgðin er veitt.
    Í öðru lagi. Áður en ábyrgðin verður veitt skal landbrn. hafa samið við veðhafa í móttökumannvirkjum Silfurlax hf. um afnot mannvirkjanna þannig að tryggt verði að hægt sé að taka á móti fiski ef félagið verður gjaldþrota áður en endurgreiðsla ábyrgðarinnar fer fram.
    Við sem stöndum að þessari brtt. höfum fallist á þau rök sem fjmrn. og landbrn. hafa sett fram í þessu máli og við teljum að það sé skynsamlegt að gera þessa útslitatilraun í hafbeit á laxi frá Íslandi. Þess má geta að í þessu fyrirtæki hafa þegar tapast feykilegar upphæðir en eigendur þess hafa verið tilbúnir til þess að fjármagna það tap hingað til. En nú er sem sé verið að láta reyna á það væntanlega í síðasta sinn hvort þetta geti gengið eða ekki. Og þar sem þetta veð sem um er að ræða er líklega eins tryggt

og hægt er og hangir líka saman við rannsóknir sem verið er að gera á vegum Stofnfisks og Laxeldisstöðvarinnar í Kollafirði þá höfum við sem stöndum að flutningi þessarar tillögu talið rétt að gera þessa tilraun og verða við þessum óskum.