Lánsfjárlög 1995

68. fundur
Þriðjudaginn 27. desember 1994, kl. 22:14:32 (3216)


[22:14]
     Matthías Bjarnason (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er rétt hjá hv. 6. þm. Norðurl. e. að það virtist ekki vera mikill áhugi hjá núv. ríkisstjórn á að sinna málefnum fiskeldis á Íslandi þegar hún tók við. En það má líka hafa það með og bæta því inn í reikninginn að verð á afurðum fiskeldis hafði frá árinu 1985 til ársins 1993 lækkað úr 100 niður fyrir 30 og það getur þá hver spurt sjálfan sig og svarað fyrir sjálfan sig hvort nokkur atvinnugrein í landinu þyldi slíka lækkun.
    Það er rétt sem fram kom að ríkisstjórnin lagði 300 millj. til laxeldis og því var lýst yfir að það fengi ekkert fyrirtæki á Íslandi lán til laxeldis nema fyrirtæki sem væri fullkomlega öruggt fjárhagslega. Og frsm. þeirrar tillögu sem þessar umræður hafa spunnist út af lýsti því yfir áðan að þessar 300 millj. væru tapaðar. Þetta tel ég mjög merka yfirlýsingu af því að það er ekki lengra síðan þessum 300 millj. var ráðstafað.
    En svo komum við að því, hvar á að skilja á milli feigs og ófeigs? Hverja á að drepa og hverjir eiga að lifa? Þessi tillaga er dæmigerð fyrir þá lausung og það sinnuleysi sem ráðuneyti og fjórir nefndarmenn í efh.- og viðskn. hafa sýnt rétt eftir að heiðarlegt og gott fyrirtæki fékk ekki lán út á sínar furðir sem voru lítt veðsettar, ekki hjá sparisjóði vegna þess að hann er of lítil lánastofnun og ekki hjá stóru lánastofnuninni sem svaraði því að taka fyrirtæki í viðskipti: Svo er ekki. Það þurfti ekki frekari greinargerð. Þetta fyrirlít ég.