Lánsfjárlög 1995

68. fundur
Þriðjudaginn 27. desember 1994, kl. 22:19:51 (3219)


[22:19]
     Ólafur Ragnar Grímsson (um fundarstjórn) :
    Virðulegi forseti. Ég vil beina því til forseta að það verði athugað mjög rækilega í fundarhléinu að fresta þessum umræðum til morguns. Það var að vísu samið um það milli þingflokka fyrir jól að þessari umræðu lyki á þessum sólarhring en það er væntanlega öllum þingmönnum ljóst að sú uppákoma sem hér hefur orðið og leitt hefur til þess að þingflokkur Sjálfstfl. telur nauðsynlegt að halda neyðarfund í miðri umræðu er auðvitað þess eðlist að það er ekki hægt að ætlast til þess með eðlilegum hætti að umræðan haldi svo áfram hér í kvöld þegar aðrir þingmenn hafa ekki haft hugmynd um það hvað hér er að gerast, hvað þá heldur að aðrir flokkar hafi haft aðstöðu til þess að taka til meðferðar þá tillögu sem nú er að leiða til þess að þingflokkur Sjálfstfl. boðar sérstakan neyðarfund. Þess vegna vil ég nú, virðulegi forseti, beina því til forsetaembættisins að þetta fundarhlé verði notað til þess að taka þá skynsamlegu ákvörðun að fresta bara umræðu til morgundagsins og við getum þá sameinast um að ljúka þeim þá og allt í góðu lagi með það en tímanum sé ekki spillt með þeim hætti sem nú er í uppsiglingu.