Um fundarstjórn forseta.

68. fundur
Þriðjudaginn 27. desember 1994, kl. 23:14:16 (3226)


[23:14]
     Geir H. Haarde (um fundarstjórn) :
    Virðulegi forseti. Stundum er undarlegt að hlusta á ræður hv. þm. Ólafs Ragnars Grímssonar og má taka undir það sem segir í einu ævintýri H.C. Andersens að mikið má maður nú heyra frá þessum hv. þm. áður en eyrun detta af. Hann gerir þá kröfu að fá nákvæma skýrslu um það sem fram fer á þingflokksfundi í öðrum þingflokki en hans eigin og gerir kröfu um það að umræðan verði felld niður þangað til hann fái skýringar sem hann getur sætt sig við ( ÓRG: Hvort Sjálfstfl. styður tillöguna.) já, það er einmitt það, já. Hann á engan rétt á að fá að vita það, hvorki um þennan þingflokk né annan. Það kemur auðvitað í ljós. Hér er flutt tillaga af nokkrum þingmönnum (Gripið fram í.) að ósk fjmrh., það kemur bréf frá fjmrn. um það mál og ég held að hann ætti þá bara að fagna því ef það kemur í ljós að það er einhver ringulreið í stjórnarliðinu. Hann á ekki að vera alltaf með þessa uppgerð um málefni stjórnarliðsins á Alþingi og stjórnarflokkanna.
    Hinu verð ég svo að bæta við, virðulegi forseti, og það er eiginlega ástæðan fyrir því að ég kem upp að það er enn ein rangfærslan hjá hv. þm., enn ein ósannindin sem hann hefur látið sér um munn fara í kvöld, að það sé vegna þessa sem þingflokksformenn hafa orðið ásáttir um að atkvæðagreiðslan fari ekki fram fyrr en á morgum. Það er hlutur sem var byrjað að tala um löngu áður en þetta mál kom upp. Nauðsynlegt er að það komi líka fram. Það getur hann átt við sjálfan sig og sinn æsing út af því atriði en þannig liggur nú það mál. Ef hann vill hafa atkvæðagreiðsluna í nótt er það auðvitað okkur að meinalausu.