Lánsfjárlög 1995

68. fundur
Miðvikudaginn 28. desember 1994, kl. 00:00:19 (3237)



[00:00]
     Ólafur Ragnar Grímsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Hæstv. fjmrh. var að lýsa því yfir að tillagan væri flutt á ábyrgð ríkisstjórnarinnar og stjórnarflokkanna. Mér hafði verið tjáð að niðurstaðan hefði verið sú á fundi formanna þingflokka að hæstv. fjmrh. mundi gefa ótvíræðari yfirlýsingu en þá sem hann var hér að flytja því satt að segja segir það ósköp lítið að hæstv. ráðherra . . .  ( GHH: Þú hefur ekki hlustað á yfirlýsinguna.) Jú, ég gerði það reyndar. ( Umhvrh.: Þarf ekki þingmaðurinn að fá þetta skriflegt frá fjmrh.?) Það var nú ágætt að hæstv. umhvrh. greip fram í vegna þess að eitt af því sem ég ætlaði að spyrja að var hvort hæstv. umhvrh. hefði vitað af þessari tillögu áður en hún var borin fram í þingsalnum. Er hæstv. umhvrh. reiðubúinn að staðfesta það í ræðustólnum sem hann hefur gert í samtölum í þinghúsinu að hann hafi ekki vitað af þessari tillögu fyrr en hún kom í þingsalinn? Hvenær var þessi tillaga samþykkt á ríkisstjórnarfundi sem tillaga ríkisstjórnarinnar og hvaða ráðherrar tóku þátt í þeirri afgreiðslu? Getur ekki hæstv. fjmrh. upplýst hvenær ríkisstjórnin tók ábyrgð, á hvaða fundi sínum ríkisstjórnin tók ábyrgð á þessari tillögu?
    Síðan sagði hæstv. fjmrh. að þetta væri flutt á ábyrgð stjórnarflokkanna. Mér er ekki kunnugt um að Alþfl. hafi formlega tekið ábyrgð á þessari tillögu. Það hefur verið sagt í samtölum þingmanna, og það verður þá leiðrétt ef það er rangt, að þingflokkur Alþfl. hafi ekki fundað efnislega um þetta mál. Það væri því fróðlegt að vita hvaðan hæstv. fjmrh. hefur þá vitneskju að ábyrgð Alþfl. sé á bak við þessa tillögu. Ég vildi sem sagt beina þeirri fyrirspurn til hæstv. fjmrh. að hann upplýsti hér hvenær ríkisstjórnin tók ákvörðun um að bera ábyrgð á þessari tillögu og hvaðan hann hefur það að Alþfl. hafi tekið ábyrgð á þessari tillögu.