Lánsfjárlög 1995

68. fundur
Miðvikudaginn 28. desember 1994, kl. 00:08:19 (3241)


[00:08]
     Ólafur Ragnar Grímsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég tel það ekki vera neitt einkamál þótt ráðherra sé spurður að því í sæti sínu í þingsölum eða hér á þessum vettvangi hvort hann styðji tillögu sem flutt er væntanlega á vettvangi ríkisstjórnar eða hvenær hún hafi verið rædd og afstaða tekin í ríkisstjórn. Ég tel það enga sérstaka nýja siði í þinginu að það þurfi eingöngu að spyrja ráðherra slíkra spurninga úr ræðustól til þess að svör þeirra séu gild. Við höfum a.m.k. margir tamið okkur það í starfsháttum í þinginu að ef spurt er slíkra spurninga um formlega afstöðu ráðherra og afgreiðslu í ríkisstjórn þá sé það ekki einkamál eða einkasamræður sérstaklega þegar búið er að flytja málið inn í þingsalinn. Ég vísa algerlega til föðurhúsanna einhverjum ásökunum hv. þm. í minn garð út af tilvitnunum í svör hæstv. umhvrh. En þau koma væntanlega skýrar fram í umræðunni á eftir ef hún heldur áfram.
    Hitt hefur hins vegar verið upplýst að málið hefur ekki verið rætt í þingflokki Alþfl. Formaður þingflokks Alþfl. var að staðfesta það að málið hefði ekki verið rætt í þingflokki Alþfl. Og þá hefur það komið fram hér í kvöld að tillagan var hvorki rædd í þingflokki Sjálfstfl. né þingflokki Alþfl. áður en hún var flutt hér. Það liggur fyrir. Það er auðvitað mikilvægt að það liggi ljóst fyrir hvort þingflokkur Alþfl. kýs að fylgja varaformanninum eða ekki. Það kemur bara í ljós. En afstaða þingflokkanna lá á engan hátt fyrir áður en þessi tillaga var flutt.