Lánsfjárlög 1995

68. fundur
Miðvikudaginn 28. desember 1994, kl. 00:10:33 (3242)


[00:10]
     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Það var víst meiningin að halda áfram 3. umr. um frv. til lánsfjárlaga sem var hafin nokkuð fyrr á kvöldinu, eða í gærdag réttara sagt og truflaðist svo af vissum ástæðum eins og hv. þm. þekkja og mun ég kannski víkja lítillega að því á eftir. En fyrst ætlaði ég að greina aðeins frá því sem var megintilefni þess að efh.- og viðskn. kom saman og fundaði milli 2. og 3. umr. eins og boðað hafði verið að gert yrði.
    Það var fyrst og fremst tvennt sem þá stóð eftir af verkefnum nefndarinnar eins og rætt hafði verið. Það er annars vegar að ganga úr skugga um það hver yrði hin endanlega niðurstöðutala í 1. gr. lánsfjárlaga um heildarlántökur ríkissjóðs fyrir sína hönd og aðstandenda á næsta ári og það er 1. liður brtt. fjórmenninganna frægu, hv. þingmanna, sem leiðir það í ljós.
    Í öðru lagi var ætlunin, sem og gert var, að fá til viðtals við nefndina aðila út af málefnum Flugstöðvar Leifs Eríkssonar hins heppna, þ.e. mannsins ekki flugstöðvarinnar, í Keflavík vegna rekstrarvanda þess fyrirtækis og beiðni um lántökur upp á allt að 2 milljörðum kr. á næsta ári. Það hafði ekki unnist tími til þess að fá yfirferð á þeim þætti frv. fyrr en nú í kvöld og til fundar við nefndina komu menn frá fjmrn. og utanrmn. út af því máli. Ég, hæstv. forseti,. hafði aðallega ætlað mér að víkja nokkrum orðum að því máli við 3. umr. enda geymdi ég mér það, og við þingmenn flestir, að ræða það við 2. umr. Og þá verð ég að segja alveg eins og er, hæstv. forseti, að ill þótti mér fjarvera hæstv. utanrrh. í dag og hefur mér þótt almennt í þessum umræðum, en ég tel það gersamlega óviðunandi að hæstv. utanrrh. mæti ekki hér til þess að taka þátt í umræðum um þennan þátt frv. þegar sérstaklega er búið að halda fund í efh.- og viðskn. og kalla til embættismenn og aðila til að upplýsa um stöðu Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar. Var nú svo sannarlega tilefni til því að það munar um minna en lántökur upp á 2 milljarða kr. á næsta ári og rekstrarvanda sem nemur líklega um 200--300 millj. á ári næstu árin verði ekkert að gert, þ.e. til þess að standa straum af afborgunum og vöxtum lána sem hvíla á flugstöðinni þarf um 300--350 millj. kr. á ári næstu árin þó þeim verði skuldbreytt í 25 ára lán. Það gefur smáhugmynd um stöðu mála þannig að ég vil inna eftir því, hæstv. forseti: Er það ætlunin að hæstv. utanrrh. komist upp með það að hundsa þessa umræðu alveg þegar hér er sérstaklega komið á dagskrá mál sem heyrir undir hann, málefni Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar? Ég óska eftir upplýsingum um það hvar hæstv. utanrrh. er staddur og hvort hann er væntanlegur til umræðunnar áður en ég held áfram máli mínu, forseti. ( Gripið fram í: Ertu viss um að hann sé á landinu?) Það kemur þá í ljós.
    ( Forseti (SalÞ) : Forseti getur ekki svarað spurningu hv. þm. að öðru leyti en því að gerðar hafa verið ráðstafanir til þess að gera hæstv. utanrrh. viðvart um að hans nærveru sé óskað hér.)
    Já. Hæstv. forseti. Ég get út af fyrir sig snúið mér að fáeinum atriðum öðrum sem ég ætlaði að nefna í sambandi við þetta frv. núna og tekið í það 5--10 mínútur og geymt mér á meðan að fjalla um þennan þátt flugstöðvarinnar. En þá mun ég inna eftir því aftur hvar hæstv. utanrrh. sé á vegi staddur og gjarnan fá þá að gera hlé á ræðu minni þangað til utanrrh. er kominn í hús ef þess er að vænta. Hvað hæstv. forseti vill þá gera ef hæstv. ráðherra kemur ekki til fundar verðum við að ræða síðar. En satt best að segja, hæstv. forseti, bæði miðað við stærð þessa máls og eðli og ekki síst í ljósi þess að embættismenn lýstu því í hnotskurn þannig að það sem út af stæði og þyrfti að gera í málefnum flugstöðvarinnar væri pólitísk ákvarðanataka um meðferð málsins þá er náttúrlega ekki nokkur leið að ljúka þessari umræðu þannig að hæstv. utanrrh. komi ekki hér og standi fyrir sínu máli í þeim efnum. Ég geri ekki kröfur til þess að hæstv. fjmrh. geri það vegna þess að þetta er á verksviði utanrrh. samkvæmt þeirri sérkennilegu skipan sem allir þekkja að þetta samgöngumannvirki heyrir undir utanrrn. af vissum ástæðum og málið er á forræði hæstv. utanrrh. Ég óska eindregið eftir því að 3. og síðustu umr. um lánsfjárlög, ljúki ekki fyrr en hæstv. utanrrh. er hér kominn til svara.
    Að öðru leyti, hæstv. forseti, er svo sem ekki margt um frv. að segja við 3. umr. sem ekki hefur áður komið fram. Brtt. við 1. gr. staðfestir það sem við stjórnarandstæðingar höfum haldið fram að hallinn á ríkissjóði er að aukast. Þó að það sé ekki mikið er verið að hækka heildarlántökuheimild ríkissjóðs um litlar 700 millj. eða svo og það þó að í sömu brtt. sé verið að lækka á móti lántökuheimildir Lánasjóðs ísl. námsmanna á næsta ári. Það segir sína sögu um það að ríkissjóður sjálfur þarf á meira lánsfé að halda á næsta ári, svo nemur auknum halla a.m.k. eins og hann er samkvæmt nýafgreiddu fjárlagafrv., talsvert á annan milljarð kr.
    Við hv. þm. Alþb. greiddum atkvæði gegn þessari skerðingu á lántökuheimild lánasjóðsins m.a. vegna þess að við höfum verið andvíg og barist gegn þeirri skerðingu námslána og því hvernig þrengt hefur verið að námsmönnum í tíð þessarar ríkisstjórnar. Ef útlánareglur og starfræksla lánasjóðsins væri með eðlilegum hætti þá þyrfti lánasjóðurinn á öllu þessu fé og rúmlega það að halda til að uppfylla þarfir og óskir námsmanna. Það er eingöngu vegna þess að þannig hefur verið hert að námsmönnum og skertir þeirra möguleikar til að fá lán úr sjóðnum að nú er unnt að lækka svona lántökuheimildir lánasjóðsins. Það er alveg ljóst að það hefur að hluta til tekist sem ríkisstjórnin greinilega ætlaði sér, að gera mönnum það erfitt fyrir í þessum efnum, m.a. með upptöku vaxta á námslán og hertum endurgreiðslureglum og öðru slíku, að það er búið að fæla það marga námsmenn frá námi og/eða gera þessi viðskipti við lánasjóðinn það ófýsileg að núna sækja færri um en áður var. Og það veldur því að lánasjóðurinn kemst samkvæmt þessum ákvörðunum hæstv. ríkisstjórnar af með talsvert minna fé en áætlað var. Það vekur upp minningar um hæstv. umhvrh. sem stóð hér einu sinni í ræðustóli og sagðist mundu endurskoða afstöðu sína, gott ef ekki til ríkisstjórnarinnar í heild, a.m.k. til ýmissa þátta í sambandi við skólamál, ef það kæmi á daginn að það drægi úr aðsókn í skóla og skerðingar hæstv. ríkisstjórnar á námslánum og upptaka skólagjalda yrðu til þess að draga úr sókn ungs fólks í nám, þá mundi hæstv. núv. umhvrh. endurskoða afstöðu sína til stuðnings við þessa ríkisstjórn. Nú er svo illa komið að hæstv. umhvrh. er ekki bara stuðningsmaður ríkisstjórnarinnar, hann situr í henni, hæstv. ráðherra. Hvað er þá orðið um áformin um að endurskoða viðhorfið til skólagjalda og skerðingar námslána ef það kæmi á daginn að það drægi úr aðsókn í nám? Sem hefur gerst og þessar brtt. sem lækka lántökuheimildir Lánasjóðs ísl. námsmanna um meira en 200 millj. kr. eru óræk sönnun um.
    Það væri nú gaman að heyra einu sinni í einum krata, hæstv. forseti, og er ekki tilvalið fyrir hæstv. umhvrh. sem er endurnærður og ferskur í þingstörfunum að trítla nú einu sinni í ræðustólinn og segja okkur svolítið af því hvernig hugrenningar hann ber til þessarar þróunar í skólamálum og sóknar ungs fólks í nám um þessar mundir sem endurspeglast í því að hér er lögð til breyting til lækkunar á svigrúmi til Lánasjóðs ísl. námsmanna á næsta ári. Hefði maður þó talið eðlilegt við þessar aðstæður atvinnuleysis, ekki síst meðal ungs fólks, að þess sæi þá frekar stað í því að fleiri reyndu að nýta tíma sinn til að mennta sig við slíkar aðstæður en að mæla göturnar.
    Hæstv. forseti. Síðan er á þskj. 509 brtt. frá hv. þm. Vilhjálmi Egilssyni o.fl., 3. tölul., um það að fjmrh. sé fyrir hönd ríkissjóðs heimilt að ábyrgjast með sjálfsskuldarábyrgð lántöku Silfurlax hf., allt að 50 millj., gegn skilyrðum sem fjmrh. og landbrh. setja. Um hina mjög svo óvenjulegu sköpunarsögu þessarar tillögu hefur þó nokkuð verið rætt og held ég að það sé í engu ofmælt að allt frá getnaði til fæðingar hafi þessi sköpunarsaga verið mjög óvenjuleg. Það kemur hér í ljós að þetta er samkvæmt yfirlýsingu hæstv. fjmrh. stjórnartillaga, hefur sömu stöðu og stjfrv., að stuðningsmenn ríkisstjórnar séu að breyttu breytanda skuldbundnir til að fylgja henni. Samt er aðdragandi hennar slíkur að það er í fyrsta lagi ekki hægt að gefa það upp hvenær ríkisstjórnin gerði þessa samþykkt sem að baki stendur og það kemur í öðru lagi í ljós að hvorugur þingflokka stjórnarliðsins hafði fjallað um tillöguna eða hafði hugmynd um að hún yrði hér fram borin sem slík fyrr en þá eftir á. Auðvitað er þetta ákaflega óvenjuleg málsmeðferð og óvenjulegur aðdragandi.
    Hæstv. forseti, málið er líka nokkuð óvenjulegt. Staðreyndin er sú að það er fremur óvenjulegt að það birtist hér á síðustu stigum tillaga af þessu tagi um ríkisábyrgð á lánveitingum til handa einu fyrirtæki. Vissulega eru þó fyrir því ýmis fordæmi frá fyrri tíð, en það hljóta að þurfa að teljast nokkuð sérstakar aðstæður sem réttlæti það að standa svona sértækt að málum.
    Ég vil upplýsa það hér, hæstv. forseti, að ég lét það koma fram í efh.- og viðskn., og vil vera sjálfum mér samkvæmur í því hér, að ég get efnislega stutt þessa tillögu og hafði hugsað mér að gera það og ætlað mér að gera það, þ.e. vegna þess að ég tel að það séu þrátt fyrir allt ýmis rök fyrir því, sem færð voru fram, að afstýra því að þetta fyrirtæki a.m.k. leggi upp laupana nú, eins og ástatt er, um miðjan vetur og það sé í því ákveðin skynsemi að reyna að tryggja að þau verðmæti sem eru í stöðinni komist í gagnið, þ.e. seiðin komist í sjó og hægt sé að endurheimta þau sem fisk. Það breytir svo engu um það að kannski mætir þetta fyrirtæki skapadægri sínu einhvern tíma í framtíðinni og þá það. En ég held í öllu falli að það sé ljóst í fyrsta lagi að það er ekki mjög heppilegur tími fyrir seiðaeldisstöð að ljúka starfsemi um hávetur þegar lítið er við seiðin að gera. Í öðru lagi er þetta eina stóra eða langstærsta fyrirtækið sem

starfar á þessu sviði og í þriðja lagi tengjast því ákveðnar rannsóknir og tilraunir með kynbætur á hafbeitarfiski sem ég held að væri veruleg eftirsjón í. Þannig að það eru að mínu mati vissulega og sannanlega fyrir hendi ákveðin efnisleg rök til að standa að einhverjum stuðningi við þetta mál.
    Hitt er svo annað mál, hæstv. forseti, að það má auðvitað lengi um það ræða hvernig að því væri eðlilegast staðið og ég skal fúslega játa og viðurkenna að þetta er frekar óvenjuleg aðferð og óvenjuleg nálgun í þessu máli. Það er enn fremur svo að það er ekki því að leyna að hér er á ferðinni vægast sagt sértæk ráðstöfun og þá rifjast nú upp deilurnar um hinar almennu og hinar sértæku aðgerðir og sértækari verða þær varla þegar komið er niður í eitt einasta fyrirtæki sem er að fá fyrirgreiðslu á fjárlögum eða lánsfjárlögum eins og er í þessu tilviki.
    Ýmsir hv. stjórnarliðar og m.a. núv. hæstv. forsrh. og fleiri hafa á köflum haft um aðgerðir fyrri ríkisstjórnar, t.d. varðandi útflutningsatvinnuvegina á árunum 1988--1990, stór orð og m.a. það að þær væru sértækar í þeim skilningi að það sætu ekki allar atvinnugreinar við sama borð og má til sanns vegar færa. Þær aðgerðir voru sérstaklega miðaðar að því að styðja útflutningsatvinnuvegina. En síðan hefur þessi ríkisstjórn afrekað það að fara út í svo sértækar aðgerðir að ég held að þess séu engin dæmi í veraldarsögunni að annað eins hafi verið gert og vísa ég þar m.a. til þess þegar valinn var út einn einasti landshluti og einni atvinnugrein í þessum landshluta, að uppfylltum mjög sérkennilegum skilyrðum, veitt fyrirgreiðsla. Skilyrðin voru þau að aðeins þau fyrirtæki sem höfðu sameinast öðrum fyrirtækjum og voru í sveitarfélögum sem höfðu sameinast öðrum sveitarfélögum fengu aðstoðina. Þvílíkar krossgirðingar af skilyrðum til að gera aðgerðir sértækar hef ég aldrei séð á minni ævi. (Gripið fram í.) Og síðan er náttúrlega farið með þetta að geðþótta að upplýst er. En hér tekur alveg gersamlega steininn úr, hæstv. forseti. Hér eru aðgerðirnar orðnar u.þ.b. eins sértækar og þær geta orðið, þ.e. einu tilteknu fyrirtæki, að vísu með nokkra sérstöðu á sínu sviði, er veittur stuðningur. En það hins vegar, hæstv. forseti, gerir það ekki að verkum að ég geti ekki hugsað mér að styðja það, ef ég sé efnisleg rök standa til þess, vegna þess að ég hef aldrei gefið mikið fyrir þetta kjaftæði um sértækar og almennar aðgerðir. Og ég held að það hafi afsannast svo rækilega á þessu kjörtímabili í gegnum ýmsar aðgerðir Sjálfstfl., að auðvitað svínbeygir veruleikinn menn gagnvart þeim aðstæðum sem þeir standa frammi fyrir á hverjum tíma og auðvitað verða menn að geta litið til aðstæðna eins og þær eru og látið þær ráða gerðum sínum en ekki einhverja frasa út í loftið um almennar og sértækar aðgerðir, eins og ég veit að hv. þm. Vestf. veit manna best og reynir ekki að neita. Þannig að þó svo að mér sé það vel ljóst og það hvarfli ekki annað að mér en taka undir það að hér er um afar sérkennilega nálgun að ræða og óvenjulega aðferð þá eru ákveðin efnisleg rök sem valda því að ég get veitt þessari tillögu sem slíkri brautargengi, enda vissi ég þá ekki betur og veit reyndar ekki betur en hér væri á ferðinni venjubundin stjórnartillaga og samkvæmt því sem alsiða er þá láta stjórnarandstæðingar það ráða atkvæði sínu í slíkum tilvikum hvort þeir telja viðkomandi tillögu til góðs eða ekki þegar þeir greiða um þær atkvæði.
    Hæstv. forseti. Þá á ég ekki annað eftir en það sem ég ætlaði að eiga orðastað við hæstv. utanrrh. um og ég ítreka þá beiðni mína, þá ósk mína, að það verði kannað hvort hæstv. utanrrh. er væntanlegur á fundinn og ef svo er og í raun og veru hvort sem heldur er þá hefði ég gjarnan kosið að gera þá hlé á ræðu minni þangað til hæstv. utanrrh. væri kominn hér í hús. ( GHelg: Má ég þá spyrja hvort ég fengi leyfi til að veita andsvar við fyrri hluta ræðu þingmannsins?) Það er alla vega ekki hægt, hv. þm., fyrr en ég fer úr ræðustólnum. ( GHelg: Nei, ég var ekki að biðja um það.) Ég er nú eiginlega að bíða eftir svari frá hæstv. forseta hvort hæstv. utanrrh. sé væntanlegur í hús.
    ( Forseti (SalÞ) : Forseti veit að það hafa verið gerðar ráðstafanir til þess að gera hæstv. utanrrh. viðvart og það er ekki betur vitað en hæstv. ráðherra sé á leiðinni og þætti nú forseta ágætt að ekki þyrfti að gera hlé á ræðu hv. þm. því við höfum nú orðið að tefja nokkuð þessar umræður í kvöld af skiljanlegum ástæðum. Þannig að kannski hefur hv. þm. eitthvað fleira að segja svo hann geti bara haldið áfram í ræðustólnum og notað tímann á meðan.)
    Það er nú svo, hæstv. forseti, að ég er búinn að flytja allmyndarlega ræður, að mínu mati, og jafnvel fleiri, um þetta mál við 2. umr. og hafði nokkurn veginn tæmt efnislega það sem ég ætlaði mér að segja um þessi lánsfjárlög. Ég sé því eiginlega ekki tilgang í því að fara að fimbulfamba hér eitthvað út í loftið um málið. Ég óska eftir því að fá að gera hlé á ræðu minni þangað til utanrrh. kemur nema forseti vilji haga þessu einhvern veginn öðruvísi, enda skilst mér að það séu hér aðrir menn á mælendaskrá og geti nýtt tímann.
    ( Forseti (SalÞ) : Ekki vill nú forseta kvarta undan því að hv. þm. hafi ekki talað vel í málum, en þá væri það ráð að hv. þm. frestaði sinni ræðu og á meðan tæki næsti ræðumaður til máls.)
    Það er velkomið. ( GHelg: Má ég skýra. Vegna þess að fyrri hluti ræðu þingmannsins er um alveg . . .  )