Lánsfjárlög 1995

68. fundur
Miðvikudaginn 28. desember 1994, kl. 00:34:19 (3245)


[00:34]
     Steingrímur J. Sigfússon (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég ætla að vísu að svara sem minnst fyrir hæstv. fjmrh., enda verður hann að standa fyrir sínu hér. En vegna þess að hv. þm. ræddi hér um allmikil stórmenni sem standa að þessu fyrirtæki að hluta til, þá er það rétt að það kom fram að meirihlutaeigendur í þessu fyrirtæki eru erlendir aðilar, sænskir aðilar, og það munu vera menn nokkrir fyrir sér, allmiklir á velli í efnahagslegum skilningi, enda hlýtur svo að vera úr því að mennirnir hafa lagt inn í þetta ævintýri hundruð millj. kr. árum saman og halda enn áfram. Því staðreyndin er sú að einmitt í tengslum við þessa fyrirgreiðslu er þeim ætlaður hlutur, þ.e. aðrar 50 millj. á móti í nýju hlutafé. Síðan var upplýst að yfir stæði til viðbótar hlutafjársöfnun upp á 200 millj. kr. og verður að segjast alveg eins og er að mennirnir þurfa ekki bara að vera sæmilega ríkir til að standa í þessu heldur líka býsna þolinmóðir og þrautseigir, svo ekki sé sagt beinlínis hugsjónamenn í þessu sambandi, að reyna að ná upp ábatasömum rekstri í hafbeit uppi á Íslandi. En það er að vísu líka rétt að minna á það að í fyrirtækinu er líka innlend eign. Það munu vera eitthvað um 30% eða svo í eigu innlendra aðila og fyrirtækið er jafnframt samstarfsaðili við ríkið um rannsóknir á þessu sviði og það er kannski líka eftir ákveðnum, óbeinum hagsmunum að slægjast í þeim efnum. En hitt get ég auðvitað tekið undir með hv. þm. að allt sem vitað er um ríkidæmi þessara erlendu aðila bendir svo sem til þess að það sé bitamunur en ekki fjár í þeirra munni þessar 50 millj. sem eiga að koma frá ríkinu í formi ábyrgðar þó, ekki framlags.