Lánsfjárlög 1995

68. fundur
Miðvikudaginn 28. desember 1994, kl. 01:03:55 (3250)


[01:03]
     Jóhannes Geir Sigurgeirsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Ég held að það hafi verið mjög gagnlegt að fá hæstv. utanrrh. hingað því að staðreyndin er sú að þeir ágætu embættismenn sem mættu hjá efh.- og viðskn. treystu sér ekki til að bera fram neinar útfærðar tillögur og töldu það réttilega vera pólitískt úrlausnarefni.
    En út af þessum tillögum vil ég bera upp spurningu til hæstv. utanrrh. þar sem nánast allar tillögur sem ráðherrann bar fram og snertu rekstrarafkomu flugstöðvarinnar gengu á einhvern hátt út yfir afkomu ríkissjóðs, meira að segja aukinn verslunarrekstur, ef það er aukinn rekstur fríhafnarverslunar þá tapar ríkið þar einhverjum tekjum. Ég vil því spyrja hæstv. ráðherra hvort það hafi verið skoðað hvað þessi tillögupakki þýði gagnvart ráðstöfunarfé ríkissjóðs, annaðhvort beint eða óbeint því að hluti af þessu rennur til markaðra tekjustofna sem ríkið síðan ver til reksturs og framkvæmda.