Lánsfjárlög 1995

68. fundur
Miðvikudaginn 28. desember 1994, kl. 01:12:22 (3258)


[01:12]

     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Aðalatriði málsins er kannski að það er sanngirnismál þegar á það er fallist að færa forræði og stjórnun yfir þessari flugstöð, sem skapar miklar tekjur með sinni starfsemi, frá einu ráðuneyti til annars og þar með inn í samgrn. þá eru það auðvitað jafnframt aukin rök fyrir því að þær tekjur sem þar myndast og eru partur af tekjustraumi til samgöngukerfisins svo sem eins og verið hefur, ef menn telja að það sé betra að reka þetta sem hluta af samgöngukerfinu og þá undir sjálfstæðri stjórn en undir forræði þess ráðuneytis, sem hv. þm. hefur nú verið að segja að hefði verið hans skoðun, þá ættu menn jafnframt til samkomulags að fallast á að það megi, þegar búið er að blóðmjólka þessar tekjur mjög lengi til nytsamlegra framkvæmda en stundum misráðinna, þá verða á því einhver breyting. Sameiginlega vandamálið sem við stöndum frammi fyrir er að þeir sem stóðu að byggingu þessarar flugstöðvar á sinni tíð efndu til mikilla útgjalda en sáu ekki fyrir eða gerðu ekki ráð fyrir því hvernig ætti að standa undir þessum gjöldum. Það er löngu kominn tími til að það verði gert og til þess þurfa menn að sýna einhvern samkomulagsvilja.