Lánsfjárlög 1995

68. fundur
Miðvikudaginn 28. desember 1994, kl. 01:13:58 (3259)


[01:13]
     Steingrímur J. Sigfússon (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég tel að forræði þessa máls sé eitt og það hvernig leyst verður úr þessum fjárhagsvanda annað og það eigi ekkert að vera að blanda því saman. Að nota það sem einhverja, eins og hér er greinilega í uppsiglingu, verslunarvöru eða beitu, að með því að afhenda forræðið til samgrn. þá verði menn jafnframt að afhenda tekjustofna flugmálaáætlunar til að gera upp vandann er náttúrlega alveg fráleitt. Auðvitað væri miklu nær að senda Sjálfstfl. reikninginn. Það er alveg rétt. Hann ber mesta ábyrgð á því sukki sem þarna átti sér stað á árunum þegar verið var að byggja flugstöðina og sérstaklega auðvitað þeim gríðarlega umframkostnaði sem hlóðst upp þegar ákveðið var að klára hana fyrir kosningarnar 1987 svo að hægt væri að mynda ónefnda stjórnmálaforingja framan við bygginguna rétt fyrir þær kosningar.
    En ég held að það hafi verið gagnlegt að fá þessar upplýsingar fram. Þær hafa lýst dálítið inn í málið og ég þakka hæstv. utanrrh. fyrir svörin.