Lánsfjárlög 1995

68. fundur
Miðvikudaginn 28. desember 1994, kl. 01:16:20 (3261)


[01:16]
     Ingi Björn Albertsson :
    Hæstv. forseti. Þar sem ég skrifaði ekki undir brtt. efh.- og viðskn., þá hyggst ég gera örstutta grein fyrir ástæðunum fyrir því. Ég vil kannski fyrst koma inn á þau vinnubrögð sem voru viðhöfð í kringum þessa brtt. og þá kænsku sem stjórnarandstaðan sýndi í því máli vegna þess að af minna tilefni hefur stjórnarandstaðan rokið upp og kvartað undan vinnubrögðum og látið öllum illum látum. Mér leist svona hálfpartinn illa á það andrúmsloft sem var í nefndinni í kvöld. Þegar stjórnarandstaðan sagði ekki orð og leist bara vel á málið og vildi koma því út úr nefndinni sem allra fyrst þá botnaði ég ekki almennilega í þeim af fyrri reynslu en upplifi það síðan þegar brtt. var dreift í þinginu hver ástæðan var og ég held að það megi hrósa þeim, hv. þingmönnum stjórnarandstöðunnar, fyrir mikla kænsku í þessu máli.
    Það er auðvitað alveg ótækt að tillaga sem þessi skuli koma fram jafnseint og hún gerir og vera sýnd í fyrsta sinn á fundi efh.- og viðskn. í kvöld. Fram að þeim tíma hafði ég aldrei séð þessa tillögu og á þó sæti í þeirri nefnd. Það kom hins vegar fram hjá hæstv. fjmrh. að einstökum séra Jónum hafði verið sýnd þessi tillaga en sá sem hér stendur er væntanlega ekki með þann mikla titil fyrir framan sitt nafn. Ég hafði ekki séð þessa tillögu fyrr en í kvöld og fordæmi það að þau vinnubrögð skuli vera viðhöfð sem raun ber vitni í þessu máli.
    Ég fór fram á það við fulltrúa fjmrn. á nefndarfundinum að skilað yrði greinargerð um málið þannig að menn gætu áttað sig á umfangi þess og hver staða fyrirtækisins væri í raun og veru en vegna tímaskorts, vegna þess að það lá svo mikið á að afgreiða málið út úr nefndinni, þá var það ekki hægt. Það kom reyndar fram hjá aðstoðarmanni fjmrh. að það væri til bréf frá landbrn. sem væri með fyllri rökum

en vegna tímans væri ekki hægt að afhenda það fyrr en á morgun og þá væri það orðið of seint þar sem meiningin var að afgreiða þetta mál og greiða atkvæði um það fyrir miðnætti eða í gær.
    Ég á því mjög erfitt með það að greiða slíku máli atkvæði mitt, sérstaklega í ljósi þess að fulltrúi landbrn. sem kom á fund nefndarinnar, það má segja að það hafi verið nokkuð óformlegur fundur því að hann snæddi með okkur mat inni í öðru herbergi, þetta var matarfundur og undir pitsunni var rætt um þessar 50 millj. og má segja að nefndin hafi sporðrennt 50 millj. með pitsubitunum.
    Það sem stóð út úr í máli fulltrúa landbrn. og var rauði þráðurinn í hans máli var fyrst og fremst það að þessar milljónir væru sennilega glataðar. Það var rauði þráðurinn í gegnum allt að þetta fyrirtæki færi sennilega á hausinn. Mér finnst gæta svolítils tvískinnungs í málflutningi um þetta mál. Annars vegar segja menn að ef fyrirtæki fær ekki þessa 50 millj. kr. ríkisábyrgð þá fari það á hausinn. Á hinn bóginn segja menn að hér standi að baki fyrirtækinu mjög fjársterkir Svíar sem eiga 70--80% í fyrirtækinu. Þeir hafa verið þrautseigir og þolinmóðir við það að efnast, hafi mátt þola tap í mörg, mörg herrans ár, og ætli síðan að segja það að þessir menn muni gefa upp á bátinn þær hundruð milljóna, og hér eru meira að segja nefndir milljarðar, fyrir einhverjar litlar 50 millj. kr. Þetta skýtur auðvitað skökku við. En þegar málið er þannig lagt fyrir á borð nefndarinnar af fulltrúa landbrn. að hér sé nánast um glatað fé að ræða þá er ekki hægt að standa að slíku máli. Það er ekki hægt fyrir ábyrga nefnd, menn sem fara með fjárveitingavaldið, að taka 50 millj. kr. vitandi vits og henda þeim út um gluggann. Það er ekki til þess sem við erum kjörin hingað inn. Hér stöndum við almennir þingmenn og berjumst fyrir 500 þús. kr., 100 þús. kr., einni millj., Íþróttasjóð upp á 14,5 millj., blóðugri baráttu. Síðan er komið 27. des. inn í efh.- og viðskn. og við erum beðnir um að henda 50 millj. kr. út um gluggann.
    Ég segi að þetta er algjörlega óþörf tillaga vegna þess að ef þessir Svíar sem eiga 70--80% í þessu fyrirtæki eru jafnöflugir og þeim er lýst þá munu þeir aldrei láta þetta fara á höfuðið fyrir 50 millj. kr. Aldrei nokkurn tímann. Ég segi það líka, ef erlendir aðilar, eins og þessir ágætu Svíar, og það er mjög gott að þeir skuli fjárfesta á Íslandi, eiga 70--80% í þessu fyrirtæki þá á þessi tillaga að vera borin fram í sænska þinginu en ekki hér. ( KÁ: Þeir eru landflótta vegna skatta.) Það má vel vera að þeir séu landflótta en ég þekki ekki til þess.
    Þetta mál var sent í bréfi til landbrh. 3. nóv. og það kemur inn í efh.- og viðskn. 27. des. og það er von að það hafi verið spurt fyrr í kvöld af hv. þm. Ólafi Ragnari Grímssyni hvenær þetta mál var tekið fyrir í ríkisstjórn. Það er eðlileg spurning vegna þess að það er komið hátt í tvo mánuði síðan erindið barst. Síðan þegar maður les skilyrðin sem fjmrn. setur fyrir ríkisábyrgðinni þá má lesa það berum orðum hér að fjmrn. gerir ráð fyrir því að fyrirtækið fari í gjaldþrot. Liður númer 2, sem hljóðar svo, með leyfi forseta:
    ,,Áður en ábyrgðin verður veitt skal landbrn. hafa samið við veðhafa í móttökumannvirkjum Silfurlax hf. um afnot mannvirkjanna þannig að tryggt verði að hægt sé að taka á móti fiski ef félagið verður gjaldþrota áður en endurgreiðsla ábyrgðarinnar fer fram.``
    Þarna er það nánast sagt berum orðum að ráðuneytið geri ráð fyrir því að þetta fyrirtæki fari á höfuðið.
    Hvað erum við þá að gera með 50 millj. kr. ábyrgð? Við erum að segja að hún fellur á ríkissjóð, við erum að henda henni út um gluggann. Þetta er mál sem ég get fyrir mitt leyti ekki staðið að. En ég ætla ekki að ásaka ráðuneytið fyrir það og ég ætla ekki að ásaka ríkisstjórnina fyrir það. Ég ætla að ásaka efh.- og viðskn. fyrir það vegna þess að við eigum ekki að vera einhverjar gólftuskur fyrir ráðherra. Ef það eru mál sem við erum innst inni sammála um að eru tóm vitleysa þá eigum við að stöðva þau. Það er okkar ábyrgð. Þannig að það er við okkur sjálf að eiga.
    Hæstv. forseti. Þetta vildi ég að kæmi hér fram. Hvernig ég svo greiði atkvæði í málinu er ekki ljóst alveg á þessari stundu en ég mun ekki ýta á græna takkann.