Lánsfjárlög 1995

68. fundur
Miðvikudaginn 28. desember 1994, kl. 01:27:26 (3263)


[01:27]
     Ingi Björn Albertsson (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Hv. þm. Jóhannes Geir Sigurgeirsson hefur iðulega miklar áhyggjur af því hvort ég mæti á fundi hjá þingflokki Sjálfstfl. Ég veit ekki hvað vakir fyrir þingmanninum að draga þetta ætíð fram sem upphafsorð í sínum ræðum. ( JGS: Ég hef ekki gert það áður.) Ó jú, jú, hv. þm. hefur gert það áður. En það er rétt hjá honum, ég studdi mest og megnið af fjárlagafrv. en ekki allt og ég held að þingmaðurinn ætti að kynna sér það betur áður en hann fer með staðlausa stafi eins og hann gerði rétt áðan hvernig atkvæðagreiðslan fór fram. En ég studdi vel yfir 90% af því sem þar fór fram og er ekkert feiminn við að viðurkenna það. Síðan sagði hann að ég hefði stutt allar efnahagsráðstafanir. Ég vissi ekki að búið væri að greiða atkvæði um ráðstafanir í ríkisfjármálum í þingsal svo að við skulum aðeins doka við og sjá hvað skeður þar. Hins vegar ef þingmanninum þykja það eðlileg vinnubrögð að fara að veita veð í fiski sem hann veit ekki hvort skilar sér til baka eða ekki, að hafa slíkt fljótandi veð sem lendir í netum hjá erlendum veiðimönnum, þá er það kannski stefna sem Framsfl. er að boða en það þykir mér ekki merkileg og ekki góð stefna.