Lánsfjárlög 1995

68. fundur
Miðvikudaginn 28. desember 1994, kl. 01:30:14 (3266)


[01:30]
     Ólafur Ragnar Grímsson :
    Virðulegi forseti. Hér hafa fyrr í kvöld orðið miklar umræður um frv. til lánsfjárlaga sem er til afgreiðslu. Þær umræður hafa leitt í ljós með mjög skýrum hætti þá miklu skuldasöfnun sem átt hefur sér stað í tíð núv. ríkisstjórnar. 2. umr. um þetta frv. lauk á þann veg að bæði hæstv. forsrh. og hæstv. fjmrh. viðurkenndu með mjög afgerandi hætti þann viðskilnað sem nú blasir við eftir fjögurra ára valdasetu þessarar ríkisstjórnar.
    Ég ætla ekki við 3. umr. að taka það nánar til umfjöllunar. Hins vegar hefur það gerst að fjmrh. hefur beitt sér fyrir því að hér sé flutt brtt. sem felur í sér ríkisábyrgð upp á 50 millj. kr. til ákveðins fyrirtækis sem starfar að fiskeldi. Það hefur jafnframt verið upplýst af hæstv. fjmrh. og formanni þingflokks Alþfl. að stjórnarflokkarnir og ríkisstjórnin taki ábyrgð á þessari tillögu. Ég tel þess vegna nauðsynlegt, hæstv. forseti, að hæstv. umhvrh. og hæstv. viðskrh. mæti til umræðunnar. Ég þarf að bera fram við þessa tvo hæstv. ráðherra ákveðnar fyrirspurnir. Ef þeir eru ekki í húsinu er ég reiðubúinn að gera hlé á ræðu minni en ég tel ekki kleift að ljúka þessari umræðu án þess að bera fram fyrirspurnir og fá svör frá þessum tveimur hæstv. ráðherrum, hæstv. viðskrh. og hæstv. umhvrh. Ég vil rökstyðja þessa ósk mína með nokkrum orðum.
    Hæstv. umhvrh. er sá maður á Alþingi sem mesta menntun hefur á sviði fiskeldis. Hann gegndi jafnframt sérstökum trúnaðarstörfum fyrir fjmrn. í stjórn Framkvæmdasjóðs á sínum tíma og tók þá þátt í því samkvæmt þeirri stefnu sem mótuð var í tíð þeirrar ríkisstjórnar að stöðva ábyrgðar- og lánveitingar til fiskeldis sem tíðkast höfðu í tíð þeirrar ríkisstjórnar sem þá sat á undan. Mér leikur þess vegna óneitanlega nokkur forvitni á að fá svör við því frá hæstv. umhvrh. hvort hann hefur nú skipt um stefnu. Með hvaða rökum hann styður nú þá tillögu sem hér hefur verið flutt og hver var málflutningur hans í ríkisstjórn eða á vettvangi Alþfl. þegar þessi tillaga var þar til umfjöllunar.
    Ég tel það ekki ná nokkurri átt að hér sé í fyrsta sinn eftir margra ára hlé farið að veita ríkisábyrgð með skýrum hætti í lánsfjárlögum til ákveðins fiskeldisfyrirtækis og sá maður innan ríkisstjórnarinnar og Alþingis sem mest hefur unnið að þessum málum og gegnir ráðherraembætti verði ekki hér til svara.
    Í öðru lagi hefur það rækilega verið rakið af hv. 1. þm. Vestf., Matthíasi Bjarnasyni, m.a. í opnugrein sem birtist í Morgunblaðinu sunnudaginn 27. nóv. hvernig bankakerfið í landinu beitti valdi sínu til þess að stöðva rekstur annars fiskeldisfyrirtækis sem tvímælalaust var þó betur statt en það sem er hér til umræðu og hafði meiri veð að bjóða en það fyrirtæki sem hér er til umræðu.
    Það hafa ekki í langan tíma verið settar fram jafnþungar ásakanir á stjórnendur Landsbanka Íslands og hv. 1. þm. Vestf., Matthías Bjarnason, gerði í þessari opnugrein í Morgunblaðinu sunnudaginn 27. nóv. Þar sakar þingmaðurinn Landsbankann um að hafa vitandi vits sett þetta fyrirtæki á höfuðið. Það er auðvitað alveg óhjákvæmilegt að hæstv. viðskrh., Sighvatur Björgvinsson, svari því hér: Hvert er samhengið í þeirri lánastefnu stjórnvalda sem felst í því að láta bankastjóra ríkisbankanna beita valdi sínu með þeim hætti sem hv. þm. Matthías Bjarnason hefur lýst og rakið rækilega í þessari grein og leggja svo til hér á Alþingi 50 millj. kr. ríkisábyrgð gagnvart því fyrirtæki sem tillagan fjallar um? Það er satt að segja framkoma með þeim hætti að mismununin er hrópandi. Á að láta það viðgangast að bankastjórar Landsbankans beiti geðþóttavaldi sínu til að slátra fyrirtæki í fiskeldi sem er betur statt, á meiri veð heldur en það fyrirtæki sem hér er verið að veita ríkisábyrgð? Ætlar hæstv. viðskrh. Sighvatur Björgvinsson að standa að því að slík mismunun sé innleidd gagnvart fiskeldisfyrirtækjum í landinu? Því er það, virðulegur forseti, óhjákvæmileg krafa hjá okkur sem tökum þessa umræðu alvarlega og þá tillögu sem hér er sett fram í skyndingu án nokkurs fyrirvara um 50 millj. kr. ríkisábyrgð til tiltekins fiskeldisfyrirtækis að bæði hæstv. viðskrh. og hæstv. umhvrh. komi til fundar svo þeir geti svarað þeim spurningum sem við kjósum að bera upp við þá.
    Það ber að þakka að hæstv. utanrrh. kom til fundar þegar um hann var beðið. Með sama hætti fer ég fram á það, virðulegur forseti, að þessir tveir hæstv. ráðherrar komi hér til umræðunnar. Ef þeir eru ekki staddir í þinghúsinu þá verði gripið til þess ráðs, eins og gagnvart hæstv. utanrrh., að fá þá til fundar. En ég óska eftir að fá að gera hlé á ræðu minni þar til þeir eru mættir hér þannig að hægt sé að fá þá til andsvara áður en umræðu lýkur.
    ( Forseti (StB) : Forseti vill taka fram að hann mun gera ráðstafanir til að kanna hvar hæstv. ráðherrar eru og hvort þeir geta komið til þinghússins. Ef hv. þm. er tilbúinn til að stoppa við í ræðu sinni og hleypa öðrum hv. þm. að sem gæti talað á meðan beðið er eftir ráðherrunum þá vill forseti óska eftir því að þm. hv. svaraði því.)
    Virðulegi forseti. Ég ætla mér ekkert að tefja umræðu hér. Ég ætla eingöngu að nýta þann rétt minn að fá svör frá þessum tveimur ráðherrum og er þess vegna reiðubúinn til að gera hlé á ræðu minni og lofa öðrum að tala á meðan. Ég óska eindregið eftir að ráðherrarnir verði kvaddir til umræðunnar hið fyrsta.
    ( Forseti (StB) : Forseti mun gera ráðstafanir til að fá hæstv. ráðherra til fundarins.)