Lánsfjárlög 1995

68. fundur
Miðvikudaginn 28. desember 1994, kl. 01:38:39 (3267)


[01:38]
     Kristín Ástgeirsdóttir :
    Virðulegur forseti. Þetta er orðin allævintýraleg umræða sem hér hefur átt sér stað í kvöld. Hún stafar af þeim furðulegu vinnubrögðum sem hér hafa tíðkast og eru svo sem engin nýlunda í þingstörfum því ég minnist þess í umræðum frá síðustu árum um skattamál að tillögur hafa verið að fæðast fram á síðustu stundu og þetta nær auðvitað ekki nokkurri átt að standa svona að málum.
    Eins og þingmenn hafa orðið varir við og eins og nefnt var í hliðarherbergi áðan þá er þetta í rauninni orðin ný umræða sem hér hefur átt sér stað í kvöld. 3. umr. um lánsfjárlög, sem að öllu jöfnu hefði sennilega orðið fremur stutt, þetta er orðin mikil umræða vegna þess máls sem tekið var hér inn nánast fyrirvaralaust.
    Þeirri spurningu var varpað fram af hv. þm. Inga Birni Albertssyni hverjir hefðu fengið að sjá þessa tillögu og ég get upplýst það hér að ég fékk að heyra um þessa tillögu einhvern tímann fyrir jól. Það er náttúrlega vegna þess að menn voru að reyna að hafa stjórnarandstöðuna góða og svona fyrirbyggja að það yrðu einhver læti út af þessu. Svo kom í ljós að lætin upphófust í stjórnarliðinu, þ.e. innan Sjálfstfl.
    Einmitt þau læti sem við höfum orðið vitni að hér í kvöld með sérstökum þingflokksfundi Sjálfstfl. og andmælum ákveðinna þingmanna vekja spurningar um hvað hér sé á ferð. Hvers konar mál er þetta sem hér er á ferð? Ég vil taka undir það sem fram kom í ræðum þingmanna að það er mjög slæmt að fá mál af þessari stærðargráðu hér inn á síðustu stundu án þess að viðkomandi nefnd eða þingmenn hafi nokkurn tíma til að skoða málið í heild. En ég verð að viðurkenna það að eftir umræðurnar í efh.- og viðskn., þar sem við fengum auðvitað heilmiklar skýringar á málinu, þá stóð ég í þeirri meiningu að þetta væri tiltölulega einfalt mál þó ég hafi hugsað mér að láta ríkisstjórnarflokkana bera ábyrgð á þessu. En það hefur komið í ljós hér í umræðunni og ekki síst vegna þeirra viðbragða sem hér hafa orðið að málið er engan veginn einfalt.
    Ég ætla að koma betur að þessu máli á eftir en víkja nú að hinu málinu sem við geymdum okkur milli 2. og 3. umr. þ.e. Flugstöð Leifs Eiríkssonar. En fyrst er þess þó að geta, herra forseti, sem ekki hefur verið nefnt mikið í umræðunni að nú liggur fyrir hver er heildarupphæðin sem verið er að veita heimildir fyrir, lántökur ríkissjóðs, upp á 21,9 milljarða kr. Það er nokkuð fróðlegt að bera þetta saman við lánsfjárlögin sem samþykkt voru í fyrra þar sem heildarupphæðin var 27 milljarðar 750 millj. kr. á þessu ári. Þá er því við að bæta að fyrir nokkrum vikum voru samþykkt lánsfjáraukalög þar sem, ef ég man rétt, bættust við rúmir 2 milljarðar til viðbótar. Við hljótum að spyrja í ljósi þess sem hér hefur verið að gerast og í ljósi þess sem fram undan er í efnahagsmálum: Hver verður hin raunverulega niðurstöðutala lánsfjárlaganna fyrir árið 1995? Það er töluverð lækkun á milli ára en þessi tala 21,9 milljarðar kr. á eflaust eftir að hækka ef að líkum lætur.
    En að Flugstöð Leifs Eiríkssonar.
    Ég minnist þess frá fyrstu árum Kvennalistans hér á Alþingi að þá gagnrýndu oft og iðulega þær sem þá sátu á þingi fyrir Kvennalistann þann flottræfilshátt og þá miklu peningaeyðslu sem átti sér stað í flugstöðinni og var oft leitað þangað eftir tekjum í ýmis verkefni og því lýst að það mætti nú fresta framkvæmdum þarna og draga úr eyðslunni. Nú er það komið á daginn að hér er um afar erfitt dæmi að ræða fyrir ríkissjóð. Eins og ég nefndi við 2. umr. fyrr í dag þá er þarna dæmi um eitt af þessum ævintýrum sem Íslendingar hafa lagt út í fyrirhyggjulaust og það er bara eytt og spennt eins og menn lystir án þess að hugsa nokkuð um afleiðingarnar. Við eigum fleiri dæmi um það sem ekki síst er að finna innan veggja Landsvirkjunar í orkumálum og reyndar í þeim málum sem hér eru til umræðu, fiskeldi og loðdýrarækt, verslunarrekstur og fleira og fleira mætti nefna þar sem menn hafa farið afar óvarlega í fjárfestingum og ekki spurt um þörf heldur bara dembt sér út í málin fyrirhyggjulaust.
    Eins og fram kemur í frv. til fjárlaga fyrir árið 1995, sem reyndar er nú orðið að lögum, þá er allítarleg skýring á stöðunni í flugstöðinni á bls. 358. Loksins í dag eða í kvöld tókst okkur í hv. efh.- og viðskn. að fá einhverjar skýringar á þessu heildardæmi sem að flugstöðinni snýr. Eins og kemur fram í fjárlagafrv. þá er þar lögð áhersla á nauðsyn þess að taka á þessu vandamáli, það megi ekki bíða lengur. Og eins og hér hefur komið fram í umræðum þá stöndum við frammi fyrir því að lánin eru að falla í gjalddaga. Á næsta ári þarf að standa skil á 2 milljörðum kr. Þess vegna er nú verið að veita heimild til flugstöðvarinnar til að hægt verði að fara út í skuldbreytingar og lengingar á þessum lánum. En það breytir ekki því að eins og dæmið lítur út í dag með þeim tekjum sem flugstöðin aflar og renna í ríkissjóð þá er þetta gjörsamlega óleysanlegt dæmi. Það er tap á rekstri flugstöðvarinnar eins og hún er rekin nú og þær tekjur duga rétt fyrir vöxtum og þá er allur rekstur eftir. Stóra spurningin er hvernig menn ætla að taka á þessu mikla dæmi. Eins og hér hefur komið fram þá liggja fyrir margvíslegar tillögur um það hvað hægt sé að gera. En þær t.d. fela í sér aukinn verslunarrekstur í flugstöðinni í samkeppni við innlenda verslun. Reyndar hefur verið vakin athygli á að þarna sé um óeðlilega samkeppni að ræða og jafnframt að þá flytjist mikil verslun út úr landinu með þeim kjörum sem þarna er að finna. Hins vegar eru menn að tala um tillögur sem ganga á tekjustofna sem ætlaðir eru í annað. Þannig að við eigum eftir að sjá þessar tillögur útfærðar og ég á eftir að sjá að þetta dæmi gangi upp. Það er auðvitað alveg ljóst að það er pólitísk ákvörðun sem þarf að taka til að leysa þetta mál og finna varanlega lausn. Mér segir svo hugur um að flugstöðin og rekstur hennar eigi eftir að verða mikill höfuðverkur hér á næstu árum.
    Ég minnist þess að fyrir eitthvað um tveimur árum þá stakk ég upp á því við hæstv. fjmrh. að hann tæki nú flugstöðina til einkavæðingar breytti henni í hlutafélag og reyndi að selja hlutabréfin í henni, það er kannski leið sem ætti að fara. Ég veit ekki hvort það er eitthvert sáluhjálparatriði að ríkið reki flugstöð eða flugstöðvar. Það væri gaman að skoða þetta dæmi út frá þeim sjónarhóli. En ég er svo sem ekki viss um að það mundi leysa vandann heldur. Ég er meira að segja þetta hér til gamans en í alvöru enda ýmis þessi einkavæðingaráform sem hér hafa verið til umræðu heldur hæpin.
    Það er ljóst að það þarf að auka tekjur flugstöðvarinnar um 100--150 millj. kr. á ári til að hægt verði að gera dæmið upp og þá að því tilskildu að tekist hafi að lengja lánin og að ná fram skuldbreytingu. Ég ítreka því að hér er mál sem næsta ríkisstjórn þarf greinilega að taka á í ljósi þess ef rétt er sem fram kom hjá hæstv. utanrrh. að pólitískur vilji hafi ekki verið til staðar hjá núv. ríkisstjórn til að leysa þetta mál.
    Ég ætla þá að koma hér aðeins að máli Silfurlax. Ég vil koma því á framfæri, sem mér finnst ekki hafa komið fram hér í umræðunni, að samkvæmt þeim skýringum sem við fengum í hv. efh.- og viðskn. í kvöld þá er ástæðan fyrir því að ríkisstjórnarflokkarnir eru að leggjast á sveif með þessu fyrirtæki annars vegar það að ríkið á hlutafé í þessu fyrirtæki, skuldum hefur verið breytt í hlutafé, og þarna er um aðila að ræða sem á í allmiklum viðskiptum við Stofnfisk. Silfurlax á í töluverðum viðskiptum, væntanlega með seiðakaupum og jafnvel kaupum á fóðri, það kom ekki fram nákvæmlega í hverju þessi viðskipti felast. Annars vegar eru það þessi viðskipti, hins vegar er það sú staðreynd að þarna er um eina af örfáum hafbeitarstöðvum að ræða og menn meta það þannig að það sé 50 millj. kr. virði að reyna að halda þessu fyrirtæki gangandi vegna þeirrar þekkingar og vegna þeirra tilrauna sem verið er að gera þarna. Þannig að sá samanburður sem hér hefur komið fram í kvöld og sú reiði sem við höfum orðum vitni að hér vegna laxeldisfyrirtækisins í Tálknafirði, þetta er ekki alveg réttmætt vegna þess að þarna er um annars konar rekstur og annars konar fyrirtæki að ræða. Það er þarna ákveðin tilraunastarfsemi í fiskeldi. Það breytir hins vegar ekki því að það þarf auðvitað að vega og meta stöðu fyrirtækisins. Okkur skortir einfaldlega upplýsingar um þessa stöðu og því lýsi ég því yfir hér með að ég treysti mér ekki til að styðja þessa tillögu, það er algjörlega af og frá, þó ég sé því almennt fylgjandi að hér séu stundaðar tilraunir og ég er tilbúin að trúa því að þarna sé þekking á ferð sem vert er að varðveita og ýta undir. En þetta mál ber þannig að og hér skortir svo mikið á undirbúning og kynningu á málinu, að það er ekki nokkur leið að styðja þetta mál. Þó að þeir starfsmenn, þ.e. aðstoðarmaður landbrh. og ráðuneytisstjóri fjmrn., hafi verið allir af vilja gerðir til að upplýsa okkur og láta í té haldbærar upplýsingar þá voru þær bara einfaldlega ekki til staðar. Við höfum svona lauslegar hugmyndir um það hvernig eignarhald er samansett og við höfum verið upplýst hér í kvöld um þessa ríku Svía, sem eins og fleiri landar þeirra hafa yfirgefið sæluríki Svíþjóðar vegna hárra skatta sem þar eru. Það kom einnig fram að þessir aðilar, þessir bræður sem þarna standa að verki, hafa tapað hundruðum milljóna á þessum rekstri. Þar af leiðandi er nú erfitt að sjá það hvað þessar 50 millj. gera, en þó kom fram að þetta væri spurningin um það að fleyta fyrirtækinu yfir vetrarmánuðina og að alla vega annar eigandinn, sem vitnað var í, taldi sig ekki geta á svo stuttum tíma útvegað viðbótarhlutafé.
    Nú get ég tekið undir það með hv. þm. Guðrúnu Helgadóttur að ef þessir menn eru jafnríkir og sögur fara af  . . .   ( GHelg: Það er ekkert ef.) Ja, peningarnir geta nú verið bundnir í ýmsu og það er ekki víst að það liggi allt á lausu. Ekki hef ég hugmynd um hvernig þeim málum er háttað, en samt finnst manni svona heldur ótrúlegt að þeir þurfi á 50 millj. kr. ábyrgð að halda frá íslenska ríkinu. En svona er málið vaxið, svona er þetta kynnt fyrir okkur, og það verður bara að segjast eins og er að það er varla hægt að afgreiða mál með þessum hætti. Ég get ekki annað en lýst ábyrgð á hendur ríkisstjórnarflokkunum fyrir að koma svona seint með málið. Það hefur komið hér fram að þessi bréf eða beiðni um þessa ábyrgð barst fyrir tæplega tveimur mánuðum síðan og þetta er bara enn eitt dæmið um þessi furðulegu vinnubrögð sem tíðkast hjá núv. ríkisstjórnarflokkum, að koma hér inn með mál á allra síðustu dögum þingsins. Ég rifja það enn þá upp með hinn svokallaða bandorm eða ráðstafanir í ríkisfjármálum þar sem um er að ræða nánast hvern einasta kafla sem búið var að segja fyrir um eða ákveða í frv. til fjárlaga. Fjárlagafrv. var lagt hér fram á réttum tíma, í byrjun október, en síðan lýtur frv. um ráðstafanir til ríkisfjármála ekki dagsins ljós fyrr en rétt undir lok þinghaldsins eða þess sem átti að verða lok þinghaldsins, rétt upp úr miðjum desember. Þetta lá allt saman fyrir. Hvað eiga svona vinnubrögð að þýða? Það er mér algjörlega óskiljanlegt hvers vegna menn þurfa að standa svona að málum og það leiðir auðvitað af sér umræður eins og þessar hér, þar sem menn eru að kalla á skýringar og hafandi uppi efasemdir þegar málin eru jafnilla unnin. Ég held að þetta sé, því miður, Alþingi Íslendinga til háborinnar skammar og segir auðvitað mest um þá sem hér standa að verki.