Lánsfjárlög 1995

68. fundur
Miðvikudaginn 28. desember 1994, kl. 01:55:36 (3268)


[01:55]
     Ólafur Ragnar Grímsson (um fundarstjórn) :
    Virðulegi forseti. Ég vil inna hæstv. forseta eftir því hvenær hæstv. viðskrh. og hæstv. umhvrh. eru væntanlegir til umræðunnar. Ég varð við þeirri ósk forseta að fresta ræðu minni þar til þeir væru komnir til umræðunnar og vildi inna hæstv. forseta eftir því hvenær von sé á ráðherrunum?
    ( Forseti (StB) : Forseti getur ekki svarað því á þessari stundu en vonast til að það náist samband við hæstv. ráðherra þannig að hægt sé að svara þessari spurningu fljótlega úr forsetastól.)
    Ég þakka hæstv. forseta fyrir það en það hefur nú náðst samband við ráðherrana vegna þess að starfsmaður þingsins hefur spurt mig, bæði frá hæstv. umhvrh. og hæstv. viðskrh., hvað ég vilji ræða við þá, svo það hefur nú þegar náðst samband við þá. Þannig að það er ekki vandamálið.
    Ég vil bara árétta, virðulegur forseti, að það eru tvö frv. hér í þinginu á hverju þingi, fjárlagafrv. og lánsfjárlagafrv., þar sem áratugahefð er fyrir því að þingmenn eigi rétt á því að fá að ræða við þá ráðherra sem þeir óska eftir að fá að ræða við. Þetta eru þau tvö frv. þar sem sá réttur er viðurkenndur. Það er ekki hægt að halda þessu máli áfram til loka hér ef það á að fara að brjóta þann rétt hér og nú.