Lánsfjárlög 1995

68. fundur
Miðvikudaginn 28. desember 1994, kl. 02:52:42 (3280)


[02:52]
     Steingrímur J. Sigfússon (um fundarstjórn) :
    Hæstv. forseti. Ég held að það sé líka nauðsynlegt að það komi inn í þessar umræður um stöðu mála hér að samkomulag er gert við tilteknar aðstæður og á grundvelli tiltekinna forsendna. Þegar aðstæður síðan breytast og nýir hlutir koma til sögunnar eins og nú hefur gerst þá verður að hafa hliðsjón af því.

Það er staðreynd að það sem hefur m.a. breytt gangi mála í kvöld og í nótt er langur þingflokksfundur sjálfstæðismanna vegna deilna sem upp komu í þeirra röðum um mál sem kemur hér á dagskrá. Það eru ræður stjórnarliða um það mál sem taka hér tíma. Og það er í þriðja lagi að þarna er á ferðinni nýtt mál sem ekkert lá fyrir um að yrði til afgreiðslu við 3. umr. lánsfjárlaga, brtt. um alveg nýjan efnisþátt inn í frv.
    Þetta verða menn að hafa í huga þegar menn ræða um þetta samkomulag.
    Í öðru lagi er það svo það að menn gerðu ráð fyrir því og gera jafnan að umræður gangi fyrir sig með eðlilegum hætti og þeir menn sem óskað er eftir að komi til umræðunnar, þeir hæstv. ráðherrar, þeir geri það. Svo hefur jafnan verið að réttmætar og rökstuddar óskir um það að geta átt orðastað við ráðherra sem fer með mál sem fellur undir umræðuefnið, dagskrárefnið, að þær geti átt sér stað. Það eru engin fordæmi fyrir öðru en að við slíku sé orðið við eðlilegar aðstæður enda séu óskirnar réttmætar og rökstuddar og studdar efnislegum rökum. Ég bendi á sem dæmi að það var óskað eftir hæstv. utanrrh. til að ræða málefni flugstöðvarinnar. Hæstv. utanrrh. kom og það tók svona hálftíma að útkljá það mál í umræðum við hæstv. utanrrh., hann pakkaði saman og fór og þar með var það mál afgreitt. Auðvitað á þetta að gerast eins með hæstv. viðskrh. Hann á að mæta hér, svara spurningum og taka þátt í umræðum um þann þátt sem að honum snýr og þar með er málið úr sögunni og málið leyst. Við getum ekki vorkennt hæstv. viðskrh. þau ósköp að vaka eina næturstund og sinna þingskyldum eins og aðrir menn. Hann var við bestu heilsu í þinghúsinu í kvöld og ekki vitað annað en hann sé í bænum.
    Ég minni bara á fyrri fordæmi fyrir því að það var talið óhjákvæmilegt að menn mættu til fundar á nóttu sem degi, til að mynda á síðasta kjörtímabili, ef eftir þeim var óskað og menn höfðu þar engin undanfæri. Hæstv. núv. landbrh. og samgrh. var sérstakur íþróttamaður á þessu sviði og gerði sér það t.d. einu sinni til gamans að kalla þann sem hér er um miðja nótt til fundar, mætti mér svo að vísu á tröppunum og var þá á leiðinni út úr þinghúsinu og hló við. En það er önnur saga. En eitt lá alveg ljóst fyrir og það var það að mér datt ekki í hug annað en að mæta umsvifalaust úr því að eftir því var óskað og á dagskrá var mál sem undir mig heyrði. Þannig hefur það jafnan verið. Þannig að óskin um það að hæstv. viðskrh. komi hér, ræði til að mynda efnahagsþátt þessa máls, vexti og annað, er réttmæt, rökstudd og efnisleg og það eru engin fordæmi fyrir öðru en að við henni sé orðið.