Lánsfjárlög 1995

68. fundur
Miðvikudaginn 28. desember 1994, kl. 02:56:08 (3281)


[02:56]
     Guðmundur Bjarnason (um fundarstjórn) :
    Virðulegur forseti. Ég held að það verði ekki hægt að segja um stjórnarandstöðuna í þinghaldi fyrir jól og nú í dag annað en að hún hafi staðið fullkomlega við það samkomulag sem gert var. Ég er þess vegna nokkuð undrandi á orðum hæstv. fjmrh. hér áðan um það að menn væru að haga sér af einhverjum leikaraskap og fara fram með vinnubrögð sem væru í andstöðu við samkomulag, meira að segja handsal eins og hann orðaði það og er sjálfsagt rétt frá skýrt. Ekki efast ég um að það sé rétt. En ég fullyrði að sú töf sem hefur þó orðið á því að hægt væri að ljúka málinu er fyrst og fremst að kenna málsmeðferð hæstv. stjórnarliða. Það er öllum ljóst sem hafa hlýtt á þessa umræðu í dag og fylgst með að þar er að leita ástæðnanna fyrir því að málinu skuli ekki þegar vera lokið. Það er auðvitað ekkert góður siður að kalla menn til þings um miðjar nætur til þess að svara fyrirspurnum en verri er sá siður hæstv. ráðherra sem virkilega hafa um þetta mál að segja og gera að vera ekki viðstaddir umræðuna. Það er sú krafa sem við hljótum að gera til hæstv. ráðherra, ekki síst þeirra sem málið varðar hvað mest og þar leyfi ég mér að nefna auk hæstv. fjmrh. og hæstv. forsrh. að sjálfsögðu hæstv. viðskrh. þegar fjallað er um lánsfjárlög sem varða lántökur ríkisins, vaxtamál og ríkisfjármál í heild og auðvitað á sá hæstv. ráðherra að vera viðstaddur alla þessa umræðu og vera til svara ef þörf er á. En það er lágmarkskrafa að hann geri það.
    Við stjórnarandstæðingar erum tilbúnir til þess að halda okkar samkomulag, klára þetta mál á næstu mínútum, það þarf ekki að taka langan tíma. Ég hygg að mælendaskrá sé svo til tæmd. En ef hæstv. ríkisstjórn og hæstv. fjmrh. leggur á það höfuðáherslu að málið verði klárað nú þá skulum við bara gera örstutt hlé og krefjast þess að hæstv. viðskrh. komi í húsið fyrst hann sér ekki sóma sinn í því að hafa verið viðstaddur þessa umræðu í allan dag eins og hann hefði átt að gera og við skulum síðan ljúka fundi á örskömmum tíma eftir að hann hefur komið hér og hlýtt á mál manna og svarað fyrirspurnum eftir atvikum.