Lánsfjárlög 1995

68. fundur
Miðvikudaginn 28. desember 1994, kl. 03:56:21 (3292)


[03:56]
     Ólafur Ragnar Grímsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Eins og fram kemur í bréfi iðnrh. og viðskrh., Sighvats Björgvinssonar, til 1. þm. Vestf. 23. nóv. í fyrra, er vandi Þórslax ekki sá að fyrirtækið sé illa statt rekstrarlega. Vandinn er eingöngu sá að reksturinn er orðinn of umsvifamikill til þess að Eyrarsparisjóðurinn geti sinnt honum út frá þeim almennu reglum sem gilda um viðskipti og stærðarhlutföll lánastofnana. Þess vegna eru ekki neinir erfiðleikar í rekstri fyrirtækisins sem knýja það til að leita til Landsbankans. Það eru einfaldlega þær almennu reglur um stærð fyrirtækja sem eiga að vera í viðskiptum við tilteknar lánastofnanir. Neitun Landsbankans er þess vegna sérstök að því leyti að hún er ekki rökstudd með neinni tilvísun í rekstrarerfiðleika eða hæpinn grundvöll í viðkomandi fyrirtæki. Um það snýst málið ekki, hæstv. fjmrh. Málið snýst eingöngu um það að fyrirtækið er orðið of stórt fyrir litla sparisjóðinn í byggðarlaginu og þess vegna verður að leita til Landsbankans til að fyrirtækið geti starfað eðlilega. En Landsbankinn segir hins vegar nei og það er á þeim grundvelli sem er ekkert óeðlilegt að spurt sé: Er eðlilegt að ein bankastofnun geti dæmt fyrirtæki til dauða einfaldlega vegna þess að fyrirtækið er orðið of stórt fyrir aðra og minni lánastofnun? Er virkilega þannig að hæstv. viðskrh. og ríkisstjórn ætli að láta peningakerfið í landinu og atvinnulíf þróast þannig að þegar fyrirtækin vaxa upp fyrir litlu sparisjóðina geti stóru flokkarnir bara dæmt þau til dauða með því að segja nei, við tökum ekki viðskipti? Þess vegna hefði auðvitað verið fullkomlega eðlilegt fyrst ríkisvaldið var á annað borð byrjað að grípa inn í að horfa einnig á þetta sérstaka tilvik. Ég held að hæstv. fjmrh. ætti að skoða þau bréfaskipti vandlega, sem fóru milli Landsbankans, 1. þm. Vestf. og hæstv. viðskrh. um þetta mál.