Lánsfjárlög 1995

68. fundur
Miðvikudaginn 28. desember 1994, kl. 03:58:54 (3293)


[03:58]
     Viðskiptaráðherra (Sighvatur Björgvinsson) :
    Virðulegi forseti. Það er einmitt nú sá tími ársins að loknum þriðja degi jóla sem íslensk þjóðtrú segir okkur að mikið af kynjaverum sé á kreiki. Einna þekktust þeirra eru sveinar einn og átta sem hver höfðu sitt hlutverk í tengslum við jólahelgina. ( Gripið fram í: Einn og átta eru níu, er það ekki ríkisstjórnin?) Einn af þeim bar það sérkennilega nafn Hurðarskellir og hafði það sérstaka verk með höndum á jólum að vekja menn upp af værum blundi með hurðarskellum þannig að ég átti satt að segja alveg eins á því von að það gæti gerst að ég hrykki upp af værum blundi við það að skellt væri hurðum einhvers staðar í nágrenninu en hitt vissi ég ekki að Hurðarskellir væri orðinn þingmaðurinn Ó. Grímsson. En þessi hv. þm. hefur lagt fyrir mig nokkrar spurningar. Hæstv. fjmrh. hefur nú svarað þeim flestum og hef ég engu við það að bæta sem hann segir. En sem dæmi um málflutninginn vil ég vekja athygli hv. þm. á því að hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson, sem hér talaði og skellti hurðum í nótt til þess að vekja menn af værum blundi og er ekkert við því að segja, því að þetta er sá árstími þegar menn geta vænst þess og ég held að ég viti það nú bara fyrir víst að þetta er akkúrat nóttin sem Hurðarskellir, samkvæmt þjóðtrúnni, á að vera að kveðja og halda aftur til sinna heimahaga. Hv. þm. talaði um viðskrh. sem ársreikningsprókúruhafa landsmanna. Hvað er ársreikningsprókúruhafi? Veitir ársreikningsprókúruhandhöfnin viðskrh. þann rétt

að gefa Landsbanka Íslands fyrirmæli um lánveitingar? Hvað er það að vera með ársreikningsprókúru fyrir banka? Þetta orð hef ég aldrei heyrt fyrr og veit ekki til að það hafi nokkra merkingu. En það er eins og hv. þm. gerir oft í sínum ræðuflutningi, að hann býr til einhvers konar, í sumum tilvikum loftkastala, í öðrum tilvikum heimasmíðaðar kenningar, sem hann notar svona til þess að reyna að rökstyðja sitt mál þegar annað betra ekki gefst. Það er ósköp eðlilegt að ef viðskrh. fær ósk um það að hann láti kanna hvort fyrirtæki sem er mikilvægt í atvinnulífi á viðkomandi stað og ekki á fullnægjandi bankaviðskipti, hvort það sé mögulegt að ríkisbankarnir vilji taka við því í viðskipti. Þetta gerði ég að beiðni hv. 1. þm. Vestf., spurðist fyrir um það hvort Landsbankinn vildi taka þetta tiltekna fyrirtæki í viðskipti. Ég gaf honum engin fyrirmæli um það því að það get ég ekki þó að ég eigi að heita ársreikningsprófkúruhafi þessa banka, sem ég skil nú ekki hvað er. Landsbanki Íslands svaraði mér, eðlilega, gaf mér upp sína afstöðu og við því er ekkert að segja. Hann ræður því. Ársreikningsprókúruhafinn gerir það ekki.
    Frekar hef ég ekkert um þetta mál að segja, virðulegi forseti, en ég er að sjálfsögðu alveg við því búinn að einhverjar fleiri hurðarskellingar upphefjist hér á þingi áður en þessi nótt er liðin og verður þá bara að taka því.