Lánsfjárlög 1995

68. fundur
Miðvikudaginn 28. desember 1994, kl. 04:03:03 (3294)


[04:03]
     Pétur Bjarnason (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Mér finnst hæstv. viðskrh. taka frekar létt á þessu máli. Ég get upplýst það að viðskipti þessara tveggja fiskeldisfyrirtækja í Tálknafirði við Landsbankann hafa verið afskaplega slæm. Það hefur hvað eftir annað og ítrekað verið reynt að fá einhverja fyrirgreiðslu, afurðalánaviðskipti eða annað hjá Landsbankanum og það hefur ekki verið til neins, sú málaleitan hefur ekki borið nokkurn árangur. Og nú er, eins og komið er fram, Þórslax orðinn gjaldþrota og það er ágætt að upplýsa það hér að upp úr því gjaldþroti mun væntanlega spretta eignarhald Norðmanna á þessari stöð, því þeir hafa gert tilboð í stöðina og væntanlega verður því tilboði tekið.
    Það er kannski þetta sem við viljum sjá um fiskeldið okkar, að það lendi í höndunum á Norðmönnum og þeir þannig tryggi sér markað vestur um haf. Þeir höfðu það a.m.k. í huga meðan allar horfur voru á því að þeir gengju inn í Evrópubandalagið.
    Ég fullyrði það að Sveinseyrarlax gengur enn þá. Hann mundi ekki gera það ef ekki hefði komið til velvilji þessa litla sparisjóðs sem er allur af vilja gerður, hefur lagt sig fram um að þjóna þessum fyrirtækjum af veikum mætti. En ég spyr: Nú gengur Sveinseyrarlax bara þokkalega miðað við fiskeldi í landinu, hvenær kemur að því, ef áfram gengur vel í Sveinseyrarlaxi, að hann verði svo stór að Eyrarsparisjóði verði bannað að hjálpa honum? Hvað tekur þá við? Tekur nokkuð annað við en nýtt gjaldþrot? Er þetta sú stefna sem menn vilja sjá í fiskeldismálunum?
    Ég vek athygli hæstv. viðskrh. á því að Landsbankinn hefur ekki staðið í stykkinu á þessum slóðum. Hann hefur ekki veitt neina fyrirgreiðslu eins og eðlilegt er að hann geri sem stærsta og nánast eina máttuga lánastofnunin á þessu svæði. Og ég tel algerlega óviðunandi að á þessu sé tekið svo léttilega eins og mér finnst hæstv. viðskrh. gera.