Lánsfjárlög 1995

68. fundur
Miðvikudaginn 28. desember 1994, kl. 04:10:59 (3300)


[04:10]
     Viðskiptaráðherra (Sighvatur Björgvinsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Málið ber að sjálfsögðu þannig að að einn tiltekinn ráðherra flytur tillögu, fjmrh. tekur hana til afgreiðslu og athugunar og kemst að þeirri niðurstöðu að um þetta sérstaka tilvik séu ríkjandi þær aðstæður sem hæstv. ráðherra lýsti hér áðan og ég hef engu við að bæta. Auðvitað má alltaf deila um slíkar afgreiðslur, en menn hafa nú staðið að slíkum afgreiðslum áður. Ég skýt mér ekkert undan því að ég samþykkti á sínum tíma sem formaður fjárlaganefndar tillögu frá öðrum hæstv. fjmrh. um að mismuna fyrirtæki þegar hæstv. þáv. fjmrh. ákvað að taka veð í hugbúnaði fyrirtækisins Svart á hvítu. Það var mikil mismunun á milli fyrirtækja. En hann mat það þannig sjálfur, ráðherrann á þeim tíma, að þarna væri ekki áhætta tekin. Þetta væri hið besta mál. Þarna væri ekki verið að mismuna fyrirtækjum og ég féllst á hans rök. Það kom hins vegar í ljós þegar fram liðu stundir að hæstv. ráðherra hafði ekki haft rétt fyrir sér og þannig getur það alltaf farið.
    Ég hef fallist á þær röksemdir sem hæstv. fjmrh. hefur hér flutt og á þá tillögu sem flutt var í ríkisstjórninni og stend því að þessari tillögu eins og aðrir ráðherrar. En það getur vel verið, eins og kom fram í máli hæstv. fjmrh. áðan, að þá komi í ljós að þessir aðilar geti ekki risið undir þeirri ábyrgðarkröfu sem verið er að veita þeim og um það getur enginn sagt fyrir fram. Þannig að það orkar allt tvímælis þá gert er. En hv. þm. sem var fjmrh. og ég átti þá ágæta samvinnu við um marga hluti, veit það ósköp vel að í starfi tók hann margar sambærilegar ákvarðanir og sumar, kannski ekki einu sinni hægt að segja að séu sambærilegar við þetta og fékk þó sitt fram, hv. þm., m.a. með stuðningi þess sem hér stendur.