Lánsfjárlög 1995

68. fundur
Miðvikudaginn 28. desember 1994, kl. 04:14:47 (3302)


[04:14]
     Viðskiptaráðherra (Sighvatur Björgvinsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það breytir engu í þessu máli þó að hv. þm. hafi síðar komist að þeirri niðurstöðu að hann hafi breytt rangt þegar hann ákvað að veita þessu tiltekna útgáfufyrirtæki, sem hann ræddi um, ríkisábyrgð út á ekki traustari veð heldur en hann hafði. Auðvitað kom það síðan í ljós að menn urðu að afskrifa þetta og leggja þær byrðar á skattborgara og ekkert merkilegt við það þó að hann hafi séð það síðar að þarna hafi hann staðið rangt að og hafi þess vegna breytt þeim starfsreglum sem hann fylgdi sjálfur.
    En ég ítreka það að sú afgreiðsla sem hér á sér stað á sér mörg fordæmi. Ég hef fallist á rökstuðning hæstv. fjmrh. fyrir þessari afgreiðslu og stend að henni með honum, en mér er það fyllilega ljóst að þetta, eins og mörg önnur mannanna verk sem við stöndum að hér á Alþingi, orkar tvímælis þá gert er. En það verður bara að koma í ljós hvort það er meiri áhætta tekin í þessu tilviki en í því tilviki sem við hv. þm. ræddum um hér áðan og endaði með því að það varð að leggja tuga millj. kr. byrði á herðar skattborgara vegna rangrar ákvörðunar.