Lánsfjárlög 1995

68. fundur
Miðvikudaginn 28. desember 1994, kl. 04:16:12 (3303)


[04:16]
     Steingrímur J. Sigfússon (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Þegar hæstv. viðskrh. er hér að segja sögur af ríkisstjórninni, jólasveinum einum og átta, og ræðir svo um Hurðaskelli, þá er nú rétt að upplýsa það að hinn eini og sanni Hurðarskellir hér á þingi er flokksbróðir hæstv. viðskrh., fyrrv. hæstv. umhvrh., nú sendiherra í Ósló. Hann fékk þessa nafngift á næturfundi í efri deild 1987, þáv. formaður þingflokks Alþfl. og skellti mjög hurðum í reiðiskasti miklu. Ég held að það sé best að skilja þessa nafngift eftir hjá honum, hún sé vel komin þar.
    Varðandi það sem hér er svo umræðuefni, lánafyrirgreiðsla til fiskeldis, þá getur það auðvitað ekki undrað hæstv. viðskrh. þó að hann sé spurður út í samhengi þessara hluta þegar í sama frv. eða brtt. við það er annars vegar verið að loka ábyrgðadeild fiskeldislána, það liggur fyrir að bankarnir neita að taka fiskeldisfyrirtæki í viðskipti, bara ,,kategóriskt``, þeir gera það, en svo skýtur upp kollinum brtt. um sértæka fyrirgreiðslu til eins fyrirtækis, sem að vísu eru ýmis rök fyrir. En þetta samhengi liggur auðvitað þannig að það er óhjákvæmilegt að hæstv. ráðherra svari þarna einhverju um.
    Og það er útúrsnúningur að með þessu sé verið að ætlast til þess að viðskrh. blandi sér í málefni einstakra fyrirtækja. Það er verið að spyrja um það, hvar á þessi atvinnugrein, að svo miklu leyti sem hún er enn þá til í landinu, að fá einhverja fyrirgreiðslu? Og hinar frægu blaðagreinar hv. 1. þm. Vestf., Matthíasar Bjarnasonar, eru lýsandi fyrir ástand mála. Ef menn komast ekki inn hjá einhverjum litlum sparisjóðum eða geta fjármagnað sig sjálfir eða rekið sig án þess að taka afurðalán, eins og eitt eða tvö fyrirtæki gera, þá eru þeim allar bjargir bannaðar. Þannig ætlar ríkisstjórnin að skilja við málefni þessarar greinar hér við afgreiðslu þessara mála. Og ég held að hæstv. viðskrh. verði bara að nudda stírurnar úr augunum og reyna að svara almennilega fyrir það hvernig hæstv. ráðherrar hyggjast standa að málum.