Lánsfjárlög 1995

68. fundur
Miðvikudaginn 28. desember 1994, kl. 04:20:42 (3305)


[04:20]
     Steingrímur J. Sigfússon (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Það er rétt hjá hæstv. viðskrh. að það hefur ýmislegt verið gert eða reynt að gera vegna vanda fiskeldisins og stærsta einstaka ákvörðunin í því er auðvitað sú sem hæstv. viðskrh. bar sem slíkur, stuðningsmaður ríkisstjórnar Þorsteins Pálssonar, ákvörðun á. Sú ákvörðun sem langmestu hefur skipt um þetta þegar ákveðið var að setja 800 millj. í að ala öll seiði sem þá voru til í landinu 1988 þegar seiðamarkaðir í Noregi lokuðust og í kjölfarið sigldi stór hluti þeirrar fjárfestingar sem síðan hefur verið afskrifaður. Þannig að sannarlega er hæstv. núv. viðskrh. það mál skylt. Erfiðleikarnir hafa síðan orðið gríðarlegir, um það deilum við ekki. En það er til vísir að þessari atvinnugrein enn þá í landinu og sum þau fyrirtæki sem hafa þraukað af alla erfiðleikana eru kannski þrátt fyrir allt lífvænlegasti hlutinn af þessu öllu saman. Og ef við ætlum einhvern tíma að reisa þessa grein við og gera okkur vonir um verðmætasköpun úr henni, þó ekki væri nema brot af því til að mynda sem Norðmenn eru að fá núna, 60--70 milljarða kr. í gjaldeyristekjur, þá verðum við að reyna að finna okkur aðferðir til þess að gera þessum fyrirtækjum kleift að starfa og ríkisstjórnin skilur þau mál eftir algerlega í uppnámi og lausu lofti. Það er niðurstaðan af þessari umræðu.