Lánsfjárlög 1995

69. fundur
Miðvikudaginn 28. desember 1994, kl. 13:55:44 (3330)


[13:55]
     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Ég lét koma fram í efh.- og viðskn. í gær og eins í umræðum í gærkvöld að ég teldi rétt að reyna að koma með einhverjum hætti til aðstoðar þessu fyrirtæki eins og öðrum hafbeitar- og fiskeldisfyrirtækjum í landinu sem ættu sér lífs von. Ég hef verið og er þeirrar skoðunar að rétt væri að reyna að fleyta einhverjum hópi lífvænlegra fyrirtækja í þessari atvinnugrein í gegnum þá erfiðleika sem þau berjast við.
    Hins vegar verður að segja eins og er að sú aðferð sem hér er lögð til í þessum efnum og hvernig þetta mál hefur þróast og að því verið staðið gerir það að verkum að ég treysti mér ekki til að greiða tillögunni atkvæði eins og hún er hér fram borin. Ég vil hins vegar ekki leggja stein í götu þess að reynt verði að aðstoða þetta fyrirtæki og hefði gjarnan viljað geta stutt það eins og ég hefði gjarnan viljað og vil styðja önnur sambærileg tilvik þar sem um lífvænleg fyrirtæki er vonandi að ræða sem gætu átt sér framtíð í þessari grein. Ég á því ekki annan kost en að sitja hjá við þessa atkvæðagreiðslu og greiði ekki atkvæði.