Brunatryggingar

69. fundur
Miðvikudaginn 28. desember 1994, kl. 14:18:43 (3343)


[14:18]
     Margrét Frímannsdóttir :
    Virðulegi forseti. Ég skrifaði undir nefndarálit heilbr.- og trn. eins og aðrir stjórnarandstöðuþingmenn með fyrirvara. Minn fyrirvari lýtur fyrst og fremst að 2. gr. þar sem segir:
    ,,Vátryggjanda er heimilt að veita undanþágu frá byggingarskyldu að höfðu samráði við skipulagsyfirvöld gegn því skilyrði að 15% dragist frá bótafjárhæðinni. [ . . .  ] Hafi ákvörðun verið tekin um að veita undanþágu frá byggingarskyldu og telji vátryggjandi brunabótamat húseignar greinilega hærra en markaðsverð húseignar þá er vátryggjanda heimilt að miða bótafjárhæð við markaðsverð viðkomandi húseignar.``
    Ég get ekki skilið þessa grein öðruvísi og reyndar hef ég rætt við nokkra lögfræðinga og beðið þá um skýringu á þessu og vegna þess að ég skil þetta þannig að fari húseigandi sjálfur fram á það að byggja annars staðar eða byggja ekki upp á sama stað og húseignin stóð þá sé vátryggjanda heimilt að greiða samkvæmt markaðsverði viðkomandi húseignar auk skilyrðisins að draga 15% frá.