Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1995

69. fundur
Miðvikudaginn 28. desember 1994, kl. 14:33:54 (3348)


[14:33]
     Finnur Ingólfsson (um fundarstjórn) :
    Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að deila við hæstv. forseta um þennan úrskurð en einhvern veginn finnst mér af því sem forseti hefur hér lesið að efnistökin séu þau að þetta hefði átt að úrskurða með öðrum hætti en forseti hefur gert. Úrskurð sinn finnst mér forseti kannski fyrst og fremst byggja á því að góð samstaða sé um málið í efh.- og viðskn. og heilbr.- og trn. Það er rétt hjá hæstv. forseta að það var samstaða um brtt. frá heilbr.- og trn. til efhn. um breytingar á almannatryggingalögunum, en menn verða að hafa það í huga að í efh.- og viðskn. voru síðan gerðar breytingar við tillögur heilbr.- og trn. Ef þær hefðu farið frá hv. heilbr.- og trn. til efn.- og viðskn. eins og þær liggja nú fyrir eftir breytingar efh.- og viðskn. þá er allsendis óljóst hvort um þessar tillögur hefði orðið sú samstaða er var eins og þær lágu þá fyrir. Mér finnst því að það þurfi að skoða þennan úrskurð í þessu ljósi ekki síst.