Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1995

69. fundur
Miðvikudaginn 28. desember 1994, kl. 14:39:09 (3353)

[14:39]
     Guðrún Helgadóttir (um fundarstjórn) :
    Hæstv. forseti. Ég hlýt að lýsa þeirri skoðun minni að eðlilegt hefði verið að leita ráða hjá forsætisnefnd þar sem þar eru aðilar sem allnokkrum sinnum fengust við að skera úr um svona hluti. Ég tel að niðurstaða forseta sé röng.
    Hér er um að ræða algerlega ný atriði sem ekki voru í hinu fyrra frv. og ég ætla að taka dæmi af því að ég veit að fæstir hér inni vita og þekkja það mál. Með skerðingu á uppbót á lífeyri vegna húsaleigubóta missir fólk fyrri uppbót sína. Það missir ekki bara hana, það missir . . .
    ( Forseti (SalÞ) : Ég bið hv. þm. að halda sig við fundarstjórn forseta.)
    Já, ég hlýt að upplýsa, ég er að sanna mál mitt, virðulegi forseti, að þessi úrskurður var rangur því að hér er nýtt atriði á ferð. Þetta fólk mun einnig missa rétt til ókeypis afnotagjalda af útvarpi og sjónvarpi og ég vil spyrja hv. þm.: Hversu margir áttuðu sig á þessu? Ég er með sönnun fyrir þessu frá Tryggingastofnun ríkisins sem staðfestir þennan grun minn. Hér er algerlega nýtt atriði sem enginn hefur rætt enda enginn um vitað og ég er satt að segja að verða dálítið þreytt á því að þurfa að standa hér upp hvað eftir annað til að upplýsa hv. þingheim um innihald þess sem menn eru að greiða atkvæði um. Ég tel þess vegna að það sé alveg útilokað að hafa þetta ákvæði varðandi breytingar á almannatryggingalögum inni. Það krefst þriggja umræðna svo sannarlega ef menn ætla ekki að ganga að gamla fólkinu og öryrkjunum og svipta það rétti til ókeypis útvarps og sjónvarps.