Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1995

69. fundur
Miðvikudaginn 28. desember 1994, kl. 14:56:32 (3363)


[14:56]
     Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson) (um fundarstjórn) :
    Virðulegi forseti. Ég tel að það sé að sjálfsögðu hlutverk forseta að skera úr um svona hluti og það er væntanlega hlutverk nefndarinnar og annarra þingmanna að una þeim úrskurði og taka þá til við efnislega umræðu málsins.
    Eins og fram hefur komið var um það rætt í efh.- og viðskn. að sérstaklega yrði beðið um úrskurð forseta varðandi uppsetningu á þessu og meiri hluti nefndarinnar stóð efnislega að breytingartillögunum. Þess vegna hefði verið í lófa lagið og ekkert til fyrirstöðu að flytja málið sem sjálfstætt frv. sem hefði þá farið í gegnum þrjár umræður en hefði ekki endilega þurft að koma til sérstakrar umfjöllunar í nefndinni. Ekki hefði verið neitt því til fyrirstöðu.
    Hins vegar ber líka á það að líta að þessi mál voru öll til umfjöllunar fyrir jólin þegar menn höfðu alla vega þá trú að hægt væri að klára þingstörfin fyrir jólin. Það reyndist ekki vera og þess vegna var að sjálfsögðu nauðsynlegt að stilla tillögunum upp á þingskjali þannig að það væri hægt að taka afstöðu til þess í forsætisnefnd hvort þskj. væri þinglegt eða ekki.
    Ég vil óska eftir því að þessum úrskurði fengnum að menn geti þá byrjað á því að taka til við efnislega umræðu um málið.