Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1995

69. fundur
Miðvikudaginn 28. desember 1994, kl. 14:58:16 (3364)


[14:58]
     Guðrún Helgadóttir (um fundarstjórn) :
    Hæstv. forseti. Ég hlýt að ítreka það sem ég sagði áðan að ég held að það sé alveg nauðsynlegt að nefndin komi saman og kalli til sín fulltrúa frá Tryggingastofnun ríkisins. Fulltrúar í ráðuneytunum eru ekki eins kunnugir málum af því tagi sem ég nefndi hér áðan. Það er greinilegt að þingmenn hafa meiri áhuga á öðrum nýjungum en því hvort gamalt fólk og öryrkjar í þessu landi fá að halda þeim réttindum sínum til þess að greiða ekki afnotagjöld af útvarpi og sjónvarpi. Það er auðvitað fráleitt að það nægi einhverjum að hér séu nokkrar línur um þetta í nefndaráliti meiri hlutans. Þetta mál skal ég útskýra betur þegar umræða hefst en ég tel alveg fráleitt, hæstv. forseti, að þessi breyting á almannatryggingalögunum komi hér inn í frv. um ráðstafanir í ríkisfjármálum. Ég krefst þess einnig að hæstv. heilbr.- og trmrh. komi til umræðunnar því að ég vil fá svar frá honum hvort það sé vilji hans og ætlun og pólitísk ákvörðun að svipta þá sem fá húsaleigubætur í framtíðinni þessum rétti ef svo ber undir. Hér er ekki hægt að læða inn slíkum ákvörðunum án þess að nokkur maður taki eftir. Það er auðvitað forkastanlegt að setja breytingartillögu eins og þessa inn án þess að kalla til fulltrúa Tryggingastofnunar og maður hlýtur að undrast vinnubrögð af þessu tagi. Hæstv. forseti, ég óska þess að nefndin komi saman og fái til viðtals við sig fulltrúa frá Tryggingastofnun ríkisins. Síðan þegar umræða hefst um málið, óska ég eftir því að hæstv. heilbr.- og trmrh. verði viðstaddur.