Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1995

69. fundur
Miðvikudaginn 28. desember 1994, kl. 15:01:46 (3367)


[15:01]
     Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson) :
    Virðulegi forseti. Það er mér mikil ánægja að fá tækifæri til þess að mæla fyrir þessu máli eftir þær umræður sem hér hafa orðið.
    Efh.- og viðskn. hefur fjallað um frv. til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum á árinu 1995 og breytingartillögur koma fram á þskj. 451 og nefndarálit á þskj. 452. Ég vil gera grein fyrir þeim breytingartillögum sem meiri hluti nefndarinnar flytur.
    Í fyrsta lagi er lögð til breyting á þeim kafla þar sem fjallað er um atvinnuleysistryggingar. Lagt er til að í stað þess að Atvinnuleysistryggingasjóði verði ekki heimilt að veita styrki skv. 3. tölul. 2. mgr. 36. gr. laganna um atvinnuleysistryggingar verði stjórn sjóðsins heimilt að veita lánastyrki og standa straum af kostnaði við námskeið og stjórn sjóðsins veitt allt að 62 millj. kr. til þessara verkefna samkvæmt þeim tillögum sem meiri hlutinn leggur til.
    Í b-lið 1. gr. brtt. er lagt til að skattstjórum og Tryggingastofnun ríkisins sé skylt að láta Atvinnuleysistryggingasjóði í té upplýsingar sem nauðsynlegar eru við framkvæmd laganna um atvinnuleysistryggingar. Þetta er hugsað til þess að koma á betra upplýsingastreymi þannig að það takist að koma í veg fyrir misnotkun betur en nú er.
    Í c-liðnum eru breytingar við 6. gr. þar sem talað er um að komi inn tvö ný ákvæði og er annað ákvæðið þannig að Atvinnuleysistryggingasjóði sé heimilt að greiða þeim sem hafa þegið atvinnuleysisbætur í samtals fjóra mánuði eða lengur á 12 mánaða tímabili sambærilega uppbót og kjarasamningaaðilar vinnumarkaðarins gera ráð fyrir.
    Síðan er önnur breyting og hún er sú að í samræmi við 5. mgr. 22. gr. er stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs heimilt á árinu 1995 þrátt fyrir ákvæði 37. gr. að gera tillögu til að styrkja sérstök verkefni á vegum sveitarfélaga til eflingar atvinnulífi enda verði dregið samsvarandi úr greiðslu atvinnuleysisbóta á viðkomandi stað. Úthlutun styrkja skal vera í samræmi við reglur sem ráðherra setur að fenginni umsögn Sambands ísl. sveitarfélaga, Tillögur sjóðstjórnar um styrkveitingar skulu staðfestar af ráðherra. Þetta er hin nýja útfærsla á hinum svokölluðu átaksverkefnum.
    Í öðru lagi eru gerðar tillögur um breytingar á lögum um almmannatryggingar. Í a-, b- og c-lið eru gerðar breytingar á skilgreiningum á því hvaða tekjur það eru sem skerða grunnlífeyri og síðan uppbótarliði. Þetta eru tvenns konar breytingar. Annars vegar er lögð til breyting á tekjuhugtaki laganna til samræmis við breytingar á almannatryggingalögum. Hins vegar er lögð til breyting á ákvæði laganna um sérstaka heimilisuppbót þannig að tryggt verði að þeir einstaklingar sem hafa lægri tekjur úr lífeyrissjóði en sem nemur fjárhæð sérstakrar heimilisuppbótar fái greiddan mismuninn. Í sambandi við þessar breytingar vill meiri hluti nefndarinnar taka sérstaklega fram að ekki er ætlunin að skerða rétt þeirra bótaþega sem eiga rétt á niðurfellingu af afnotagjaldi útvarps og sjónvarps sbr. 2. mgr. 24. gr. útvarpslaga, nr. 68/1985, um 18. gr. reglugerðar nr. 35/1986, sbr. reglugerð nr. 478/1986. Það verður nauðsynlegt að endurskoða framkvæmd þessara mála í kjölfar þess að farið verður að greiða húsaleigubæturnar í stað uppbótar á lífeyri til þeirra sem greiða háa húsaleigu. En þær breytingar sem hér eru gerðar eru fyrst og fremst að útvíkka þær tekjur sem ganga ekki til skerðingar á bótum eða grunnlífeyri. Það er verið að bæta því við, bæta samkvæmt lögum um félagslega aðstoð, að húsaleigubætur gangi ekki til skerðingar með sama hætti og bætur almannatrygginga. Þetta eru sem sé ívilnandi ákvæði þar sem húsaleigubæturnar eru ekki látnar reiknast sem tekjur í þessum skilningi.
    Síðan er í d- og e-lið lagðar til breytingar sem eru að vísu tæknilegar en hafa vissa þýðingu fyrir bótaþega. Í fyrsta lagi er miðað við að útreikningspunktur tekjutryggingar verði 1. september þegar allar upplýsingar eru komnar fram um fyrra ár í stað 1. júlí og í öðru lagi er þarna gerð sú breyting að útborgunardagur bótanna verði fyrsti dagur hvers mánaðar en ekki þriðji eins og verið hefur og þetta er til bóta fyrir þá sem njóta bóta almannatrygginga.
    Síðan eru í þriðja lagi gerðar tillögur um breytingar á lögum um félagslega aðstoð og eru þær samhliða þeim breytingartillögum sem ég hef áður gert grein fyrir að því leyti að húsaleigubæturnar eru teknar þarna inn sem liður sem skerðir ekki bætur. Síðan er útfærsla á heimilisuppbótinni sem er í rauninni staðfesting á því fyrirkomulagi sem hefur verið og til nánari skýringar á því.
    Í 4. lið brtt. er gert ráð fyrir að Ferðamálasjóði verði veitt heimild til lengingar lána skv. 26. gr. laga nr. 117/1994, um skipulag ferðamála, úr 15 í 25 ár. Hér er aðallega um að ræða lán til heilsárshótela á landsbyggðinni. Til að mæta kostnaði af þessu er lagt til að framlag í sjóðinn hækki um 20 millj. og þess er getið í 9. lið.

    Í fimmta lagi er lögð til breyting á lögum nr. 30/1966, um meðferð, skoðun og mat á sláturafurðum. Um þetta var fjallað við 3. umr. fjárlaga þar sem tekjur og gjöld vegna þessa komu inn en þarna er verið að bæta inn nýju ákvæði sem segir: ,,Til að standa straum af kostnaði heilbrigðiseftirlits dýralækna með sláturafurðum skal landbrh. innheimta gjald af öllu innvegnu kjöti í afurðastöð. Eftirlitsgjaldið miðast við raunkostnað, þó ekki hærra en 2,50 kr. á hvert kíló kjöts miðað við vísitölu framfærslukostnaðar í janúar 1995.
    Ráðherra setur í reglugerð nánari ákvæði um gjaldskyldu, innheimtu, gjalddaga og greiðslufyrirkomulag við heilbrigðiseftirlit dýralækna í sláturhúsum.``
    Greinin felur í sér að ríkissjóði verði heimilt að innheimta þetta gjald en samkvæmt lögunum í dag greiðir sláturleyfishafi eftirlitsaðila beint fyrir kostnað við slíkt eftirlit. Hér er því ekki um nýja gjaldtöku að ræða heldur breytt fyrirkomulag frá gildandi gjaldtöku. Þessi breyting er lögð til þar sem eftirlitsaðilar heilbrigðisyfirvalda í Evrópusambandinu og Bandaríkjunum hafa lýst yfir að núverandi fyrirkomulag skapi hættu á óeðlilegum hagsmunatengslum og hafa gert kröfu um breytingar. Að öðrum kosti fáist ekki leyfi til innflutnings á sláturafurðum frá Íslandi til þessara landa.
    Þessi gjöld og þær tekjur sem þarna er um að ræða ganga sem sé inn og út í bókhaldi ríkissjóðs og var tekið á því í fjárlagafrv.
    Í sjötta lagi er brtt. þar sem gert er ráð fyrir hækkun á framlagi í Kvikmyndasjóð úr 80 millj. í 100 millj. Í 12. gr. er gert ráð fyrir að framlag til listskreytingasjóðs verði ekki fellt niður heldur að það verði 4 millj.
    Í 8. brtt. er lagt til að 24. gr. falli brott þar sem greinin hefur ekki þýðingu og það var gert að ósk fjmrn., að þessi grein var byggð á vissum misskilningi til að byrja með.
    Loks er lagt til að skerðing á tekjum Hafnabótasjóðs verði minnkuð og verði 19,6 millj. kr. minni heldur en frv. gerir ráð fyrir.
    Að þessu nál. stendur meiri hlutinn fyrir utan það að hv. þm. Ingi Björn Albertsson áskilur sér rétt til að flytja sjálfur eða styðja aðrar brtt. við málið.