Tekjuskattur og eignarskattur

70. fundur
Miðvikudaginn 28. desember 1994, kl. 20:44:34 (3385)

[20:44]
     Frsm. efh.- og viðskn. (Jóhannes Geir Sigurgeirsson) :
    Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir nál. frá efh.- og viðskn á þskj. 506 um frv. til breytinga á lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum.

    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á fund til sín frá fjármálaráðuneyti Indriða H. Þorláksson skrifstofustjóra, Bolla Þór Bollason skrifstofustjóra, Snorra Olsen deildarstjóra, Maríönnu Jónasdóttur deildarstjóra og Braga Gunnarsson lögfræðing.
    Nefndin mælir með samþykkt frumvarpsins.
    Það er skylt að geta þess að nefndin fjallaði um málið á þrem fundum. Á fyrsta fundinum að frumkvæði nefndarinnar eftir að hér hafði farið fram utandagskrárumræða um málið, á öðrum fundinum var fjallað um málið að beiðni hæstv. fjmrh. þar sem fjmrn. kynnti sín sjónarmið í málinu og á þriðja fundinum eftir að hér hafði verið mælt fyrir málinu.
    Nefndarmenn eru sammála um það að rétt sé að afgreiða þetta mál óbreytt.
    Undir þetta skrifa allir nefndarmenn en tveir með fyrirvara, sá sem hér stendur og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon.
    Ég gerði grein fyrir mínum fyrirvara við 1. umr. um málið og þarf í sjálfu sér ekki að gera það frekar en vil þó ítreka að minn fyrirvari byggðist á því að það hefði verið skynsamlegast að láta þetta mál kyrrt liggja og hafa óbreytta framkvæmd á málinu. Ég er hins vegar þeirrar skoðunar að eftir að búið var að taka málið upp með þeim hætti sem var gert í vetur þá var ekki aftur snúið með að gera breytingar og sú breyting sem hér er lögð til er að mínu mati sú skynsamlegasta sem hægt er að fara og bendi reyndar á að í áðurnefndri utandagskrárumræðu benti ég á að þetta væri eina leiðin sem væri fær ef menn vildu gera á þessu breytingar. Málið var ekki svo einfalt að það var hægt að afnema skattlagningu á blaðburðarbörnum. Það varð þá að ganga jafnt yfir öll börn sem stunda einhverja launavinnu.
    Ég tel hins vegar að þegar þessi lög voru sett á sínum tíma með 6% skatti, 4% til ríkisins og 2% til sveitarfélaga, hafi þessi lága skattprósenta verið valin með tilliti til þess að hún gengi flatt yfir allar launatekjur barna.
    Það kom einnig fram að mínu mati sá misskilningur í umfjöllun um þetta mál fyrr í vetur að fyrirmæli forsrh. frá fyrri árum um það að menn skattlegðu ekki blaðburðarbörn ættu að gilda jafnt í dag. Í því fólst sá misskilningur að sömu reglur giltu um skattlagningu barna nú og var á þessum tíma sem er ekki því á þeim tíma áttu tekjur barna að leggjast við tekjur foreldra og skattleggjast með sömu prósentutölu. En frá árinu 1981, ef ég man rétt, þá hefur sú meðferð sem hefur verið í gildi til þessa verið höfð við.
    Það var einnig margt sérkennilegt í meðhöndlun þessa máls, m.a. fjölmiðla og þá sérstaklega dagblaðanna sem börðust mjög hart í þessu máli. Að mínu mati ekki fyrir hagsmunum blaðburðarbarna heldur fyrir eiginhagsmunum þar sem það lá ljóst fyrir að misbrestur hefur verið á því að dagblöð, ýmis hver, gæfu upp tekjur blaðburðarbarna og reyndar fleiri en blaðburðarbarna. Það átti einnig við um umboðsmenn blaðanna, sem ekki eru í öllum tilfellum börn, að þessar tekjur væru gefnar upp.
    Það kom einnig fram í umfjöllun í nefndinni að það hefði verið ýmist hjá einstaklingunum hvort þessar tekjur voru gefnar upp eða ekki og í einhverjum tilfellum hefði svo verið að samviskusamir launþegar hefðu gefið þetta upp án þess að blöðin hefðu nokkurn tímann gefið út launamiða.
    Að öllu samanlögðu þá deili ég þeirri skoðun með öðrum nefndarmönnum að miðað við það á hvern rekspöl málið var komið og að ekki var aftur snúið þá var þetta skynsamlegasta leiðin til þess að taka á þessu máli.