Útflutningur hrossa

71. fundur
Miðvikudaginn 28. desember 1994, kl. 21:49:10 (3393)


[21:49]
     Frsm. landbn. (Egill Jónsson) :
    Virðulegi forseti. Ég met mikils ábendingar hv. 4. þm. Austurl. og ég skil þær reyndar afar vel því að texti þessa frv. er náttúrlega ekki óumdeilanlegur. Hann byggir hins vegar á mikilli málamiðlun meðal hestamanna, sem eru misjafnlega samstiga eins og okkur er nú gjarnan tamt, Íslendingum, og hann ber þess nokkur merki. Þessum ábendingum frá hv. 4. þm. Austurl. og kannski einhverjum fleiri gat ég þess vegna átt von á fyrr í þessari umræðu.
    Það er kannski fyrst og fremst eitt efnisatriði sem ég vildi koma aðeins inn á, sem reyndar kom fram í ræðum tveggja síðustu hv. ræðumanna og það var um þá tilvísun sem hér á sér stað til Búnaðarfélags Íslands. Við höfum hér á Alþingi afgreitt lög um samruna bændasamtakanna og þar er kveðið á um að þegar sá samruni hefur átt sér stað þá verða þessar sameiginlegu skyldur Búnaðarfélagsins og Stéttarsambandsins á einum stað. Þar til sú ákvörðun hefur verið tekin, þar til samruninn hefur átt sér stað, þá verða mál hér á Alþingi afgreidd á þeim grundvelli sem þessi félagasamtök vinna á. Þetta finnst mér alveg nauðsynlegt að komi hér fram og er reyndar aðaltilefni þess að ég kvaddi mér hljóðs.